spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaUmfjöllun: Þriggja daga hverfasorg í Breiðholti

Umfjöllun: Þriggja daga hverfasorg í Breiðholti

Sem betur fer er þessu ógnarlanga hléi lokið enda voru þessir landsleikir ekki að gera neitt fyrir neinn. ÍR-ingar fengu í kvöld heimsókn að norðan í 19. umferð deildarinnar og stigin tvö afar mikilvæg fyrir bæði lið. ÍR-ingar eru í baráttu við Grindavík og Hauka um síðustu tvö úrslitakeppnissætin en Stólarnir að keppast við að halda þriðja sætinu og missa ekki tímabilið algerlega í holræsið! Eitthvað virðist loft allt lævi blandað fyrir norðan og spennandi að sjá hvort afstaðnar lofthreinsiaðgerðirnar beri sýnilegan árangur í kvöld.

 

Spádómskúlan: Kúlan les ekki Séð og heyrt og hefur engan áhuga á að spá fyrir um það hvort eitthvað lið (í tvöfaldri merkingu orðsins) á Króknum hefur komið sér saman um að standa saman eða slást. Ef liðið stendur saman sigrar Tindastóll 75-88 en ef ekki þá sigra heimamenn 85-80.

 

Byrjunarlið:

ÍR: Robinson, Sæsi, Matti, Siggi, Capers

Tindastóll: PJ, Danero, Brilli, Pétur, Dino

 

Gangur leiksins

ÍR-ingar settu fyrstu fimm stig leiksins og vörðust af krafti hinum megin. Stólarnir fundu þá gullæð í formi PJ en þeir náðu að spila hann nánast í sniðskot ítrekað. Um miðjan leikhlutann var staðan hnífjöfn 9-9 og PJ með öll stig gestanna. Ekki var mikið meira skorað í fjórðungnum en að honum loknum leiddu heimamenn 15-14. Það er kannski fáránlegt að nota frasann um haustbrag í mars en skotnýting liðanna var hrein hörmung og mikið um tapaða bolta.

 

Sóknarleikur ÍR-inga liðkaðist alls ekki neitt í öðrum leikhluta en benda skal á að vörn gestanna var að nálgast það sem sást frá þeim fyrir áramót. Stólarnir sigu framúr þó svo að skotnýting þeirra skánaði lítið. Það var einkum tveir þristar frá Viðari sem skapaði dulitla sprungu á milli liðanna. ÍR-liðið þarf talsvert á Capers að halda sóknarlega en hann skoraði aðeins 2 stig í fyrri hálfleik og af líkamstjáningu hans að dæma var hann eitt helsta fórnarlamb heimsins og beittur illþyrmilegu misrétti hægri-vinstri. Í hálfleik var staðan 32-39 eftir fullmargar ferðir beggja liða á vítalínuna.

 

Seinni hálfleikur fór agalega illa af stað hjá heimamönnum og gestirnir að sama skapi að finna taktinn. Dino kom sínum mönnum í 33-46 og Borche tók leikhlé. Það bar tilætlaðan árangur og Martin tók leikhlé eftir 11-3 sprett heimamanna með Fissa Kalla í broddi fylkingar. Það hafði ekki jafn góð áhrif og leikhlé Borche og Hákon jafnaði leikinn í 54-54 fyrir fjórða leikhluta.

 

Bæði lið voru í umtalsverðum vandræðum með að skora í fjórða fjórðungi og jafnt var á öllum tölum. Capers fór loksins að bera sig allnokkuð betur og hóf að setja stig á töfluna en það var einmitt það sem ÍR þurfti á að halda. Þegar 37 sekúndur voru eftir setti Capers tvö víti niður og þar á undan gullfallegt langt tveggja stiga stökkskot og kom sínum mönnum í 77-74. Það var kominn tími á Brilla að setja þrist eins og allir vita og hann reyndi að sjálfsögðu en aldrei slíku vant vildi boltinn ekki niður. Robinson var þá sendur á línuna og klúðraði báðum, svona fyrir spennufíkla. Siggi tók þó frákastið og fékk tvö önnur skot til að klára leikinn. Það gekk ekki heldur og Philip ,,clutch“ Alawoya jafnaði leikinn með þristi og framlenging í Hertz-hellinum!

 

Oft er talað um að liðið sem skorar fyrst í framlengingu vinni leikinn en svo var ekki að þessu sinni. Siggi setti fyrstu stigin með góðri hreyfingu undir körfunni en svo fóru liðsmenn ÍR-inga að tínast útaf hver á eftir öðrum með 5 villur. Þegar rúm mínúta var eftir fiskaði Viðar sóknarvillu á Capers og hans fimmtu villu og staðan 83-86. Danero ákvað svo að fullvissa ÍR-inga um að hann er ekki enn að spila með þeirra liði og kláraði leikinn með þristi. Lokatölur urðu 85-90 í háspennuleik.

 

Maður leiksins

Alawoya verður að teljast maður leiksins enda ekki á hverjum degi sem menn jafna með þristi í blálok leiks. Hann var einnig stigahæstur með 26 stig og tók 9 fráköst. Það var þó Stólavörnin sem á kannski mest í sigrinum og Viðar Ágústsson var frábær eins og vanalega og setti einnig mikilvæg stig fyrir liðið.

 

Kjarninn

ÍR-ingar voru vægast sagt klaufar að tapa þessum leik. Liðið gerði vel að koma til baka eftir að hafa lent 13 stigum undir í þriðja leikhluta en það er hins vegar bara alveg bannað að klúðra fjórum vítum í röð! ÍR-liðið þolir líka illa að hafa Capers í tveimur stigum og fórnarlambshlutverki hálfan leikinn. Einnig er Matti ekki alveg heill svo vandræðum ÍR-inga er ekki lokið þetta tímabilið.

 

Það er ekki gott að segja hvað stæði hér hefðu Stólarnir tapað leiknum. Liðið var í það minnsta mikið betra varnarlega en í undanförnum leikjum en það getur vafalaust gert talsvert betur hinum megin. Af orðum Viðars að dæma eftir leik hafa nýafstaðnar lofthreinsiaðgerðir fyrir norðan borið árangur og vonandi er liðið bara að trekkja sig í gang aftur.

 

Tölfræði leiks

 

Umfjöllun / Kári Viðarsson

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Fréttir
- Auglýsing -