spot_img
HomeNeðri deildir1. deild kvennaUmfjöllun: Þórsarar höfðu betur gegn Tindastól í framlengdum naglbít í Síkinu

Umfjöllun: Þórsarar höfðu betur gegn Tindastól í framlengdum naglbít í Síkinu

Liðin leika í 1. deild kvenna og bæði lið höfðu unnið Njarðvík í síðasta leik, Þórsarar með 2 stigum í Ljónagryfjunni í Njarðvík og Tindastóll hafði betur gegn Njarðvík í síðustu umferð, eftir framlengdan leik í Síkinu.

Leikurinn var jafn frá byrjun og liðin skiptust á forystunni í fyrsta leikhluta en seinni hluta fjórðungsins sigu gestirnir framúr og Sylvía Rún fór mikinn á þessum kafla. Þórsarar leiddu eftir 1. leikhluta 18-23.

Heimakonur sóttu fast á Þórsara í upphafi annars leikhluta og komust yfir 29-27 með þrist frá Tess þegar um tvær og hálf mínúta voru liðnar og bættu svo í 31-27. Þá tók Rut H. Konráðsdóttir til sinna ráða hjá gestunum og kom þeim framúr nánast upp á sitt eindæmi og staðan allt í einu orðin 31-35 fyrir gestina. Tindastóll tók aftur sprett og voru yfir í hálfleik 41-39 eftir þrist frá Valdísi og körfu frá Tess. Tindastóll hélt forystu fram í þriðja leikhlutann og ekki var mikið skorað. Um miðjan leikhlutann tóku gestirnir hinsvegar á sprett og náðu mest 11 stiga forystu þegar rétt um 2 mínútur lifðu af leikhlutanum. Stólastelpur komu þó til baka og Tess minnkaði muninn í 3 stig með tveimur vítum í lokin, 58-61

Lokaleikhlutinn var mikill barningur en heimastelpur náðu að komast yfir um hann miðjan með þrist frá Rakel Rós sem þurfti stuttu seinna að yfirgefa völlinn eftir harkalegt samstuð undir eigin körfu. Það sem eftir lifði leikhlutans var gangurinn nokkurn veginn þannig að Tess kom heimastúlkum yfir en gestirnir jöfnuðu jafnharðan. Þegar um tvær og hálf mínúta voru eftir átti Rut mislukkaða sendingu sem Tess komst inní og Rut braut svo harkalega á henni í kjölfarið. Eftir að skoða atvikið á myndbandi dæmdu dómararnir óíþróttamannslega villu á Rut enda brotið mjög harkalegt og Tess á leið í hraðaupphlaup. Tess setti niður bæði vítin en var augljóslega slegin og spilaði meidd það sem eftir var af leiknum. Hún kom Tindastól í 78-75 með fallegum þristi þegar um ein og hálf mínúta var eftir en Þórsarar náðu að jafna þegar Sylvía Rún setti niður opið skot hálfri mínútu fyrir leikslok. Heimakonur áttu síðustu sóknina og boltinn skrúfaðist uppúr körfunni þegar Katrín Eva reyndi þrist en niður vildi hann ekki. Framlenging.

Gestirnir úr Þór sýndu styrk sinn í framlengingunni og sigu nokkuð örugglega framúr og unnu að lokum 9 stiga sigur 80-89, unnu semsagt framlenginguna 11-2

Hjá heimakonum var Tess atkvæðamest með 40 stig og 12 fráköst. Marín skilaði 18 stigum en aðrar minna. Hjá Þórsurum átti Sylvía Rún stórleik með 34 stig og 13 fráköst og Rut hlóð í tröllatvennu með 17 stig og 17 fráköst. Alls tóku Þórsarar 68 fráköst í leiknum gegn aðeins 49 hjá heimakonum og það munar um minna.

Tölfræði leiks

Myndasafn

 

Umfjöllun, myndir / Hjalti Árna

Fréttir
- Auglýsing -