spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaUmfjöllun: Þór áfram eftir naglbít í Síkinu

Umfjöllun: Þór áfram eftir naglbít í Síkinu

Tindastóll og Þór frá Þorlákshöfn áttust við í oddaleik í átta liða úrslitum í Dominosdeild karla í körfuknattleik á Sauðárkróki í kvöld. Tindastóll hafði unnið tvo fyrstu leiki einvígisins en Þórsarar bitu í skjaldarrendur og unnu næstu tvo leikina þannig að allt var undir í leik kvöldsins og hann brást ekki væntingum hvað spennu varðar.

Leikurinn byrjaði með látum og eftir 2 mínútur var staðan orðin 5-7 fyrir gestina eftir þrist frá Jaka Brodnik. Eftir það róaðist stigaskorið en baráttan í vörn beggja liða hélt áfram. Heimamenn í Tindastól sigu þó framúr og leiddu 23-18 að loknum fyrsta leikhlutanum, mest fyrir frábæra varnarbaráttu og aukið sjálfstraust í sókninni frá síðustu leikjum. Sú barátta hélt áfram inn í annan leikhluta og eftir þrista frá Axel og Brynjari var munurinn kominn í 9 stig og Baldur tók leikhlé. Eftir leikhléið neyddi vörn Stólanna Tomsick í að missa boltann aftur fyrir miðju, Friðrik og Tomsick hlupu á eftir boltanum og skullu saman og allt leystist upp í vitleysu á vellinum. Brynjar og Tomsick fengu hvor sína tæknivilluna og Pétur Rúnar fékk brottreksrarvellu fyrir að hlaupa inn á völlinn af bekknum og blanda sér í átökin. Tomsick skoraði úr 2 vítum og minnkaði muninn en Tindastólsmenn svöruðu þessu mótlæti og aukinn kraftur hljóp í þeirra leik, boltinn gekk hratt í sókn og dýrsleg baráttan hélt áfram í vörninni þannig að munurinn í hálfleik varð 17 stig fyrir heimamenn 52-35.

Grettismenn á pöllunum voru líflegir og keyrðu sína menn á vellinum áfram þannig að þriðji leikhlutinn var jafn en þó heldur meira skorað hjá báðum liðum og ljóst að Þórsarar voru að finna auðveldari leiðir að körfu heimamanna. Þór vann 3ja leikhluta 25-26 þannig að munurinn var 16 stig en hafði tvisvar farið í 19 stig í leikhlutanum. Stólar náðu þannig að halda gestunum armslengd frá sér en það var greinilegt að það tók á.

Síðasti leikhlutinn verður lengi í minnum hafður hjá Þórsurum en hann unnu þeir 16-33, en að sama skapi vilja heimamenn líklega gleyma honum sem fyrst þó þristur Dino frá bílastæðinu á lokasekúndu 3ja leikhluta hafi kveikt í húsinu. Fjórði leikhlutinn byrjaði með 5 stigum í röð frá Þórsurum og þó Brynjar hafi svarað með 3 vítum þá fundu allir í húsinu að eitthvað var farið að falla með Þórsurum. Þeir eygðu vonarglætu og ljóst að þeir voru komnir til að berjast fyrir henni allt til enda, hvað sem gerðist. Þristar frá Brynjari um miðjan leikhlutann komu muninum samt í 14 stig, 90-76 en á síðustu 5 mínútunum skoruðu Stólar einungis 3 stig á meðan gestirnir klikkuðu varla á skoti. Tomsick minnkaði muninn í eitt stig þegar mínúta var eftir en Danero svaraði með þristi þegar einungis hálf mínúta var eftir. Tomsick hlóð svo bara í ótrúlegan þrist á móti 8 sekúndum síðar, munurinn bara eitt stig og 25 sekúndur eftir. Tindastóll missti boltann í næstu sókn og Þórsarar brunuðu upp en Ragnar Örn klikkaði á skoti og missti svo boltann í kjölfarið. Tindastóll átti innkast þegar 10 sekúndur voru eftir en Þórsarar náðu að brjóta tvisvar án þess að Stólar fengju bónus og Tomsick náði að komast inn í sendingu Tindastóls inn á völlinn, boltinn barst hratt fram og á Halldór Garðar sem náði að stinga sér framhjá Brynjari og leggja boltann ofaní fyrir sigrinum þegar 2 sekúndur voru eftir! Game over og Þórsarar á bekkjunum trylltust. Halldór fékk víti að auki, setti það ekki niður en Brodnick náði frákastinu og tíminn rann út. Sárgrætilegt fyrir heimamenn en þegar menn tapa lokaleikhlutanum 16-33 geta þeir engum um kennt nema sjálfum sér.

Enn og aftur var frammistaða lykilmanna hjá Tindastól að valda vonbrigðum. Pétur lætur reka sig útaf á klaufalegan hátt þegar hann hleypur af bekknum og inn á völlinn. Danero hitti mjög illa (29% í 2ja og 33% í þriggja) og PJ Alawoya virtist einfaldlega ekki hafa skap til að standast svona hörku eins og var í boði í kvöld. Brynjar Þór setti 27 stig og lét finna vel fyrir sér í vörninni , eins og Viðar og Dino (11 stoðsendingar) en það dugði ekki til. Hjá gestunum voru það Nik Tomsick (25 stig, 7 fráköst og 8 stoðsendingar) og Kinu Rochford (23 stig og 7 fráköst) sem voru mest áberandi en framlag Halldórs Garðars (9 stig, 8 fráköst og 6 stoðsendingar) og þeirra Jaka Brodnik og Emils Karels gríðarlega mikilvæg. Þórsarar halda því áfram og munu annað hvort mæta Stjörnunni eða KR í undanúrslitum

Tölfræði leiks

Myndasafn (væntanlegt)

 

Umfjöllun, myndir og viðtöl / Hjalti Árna

 

Viðtöl:

 

Fréttir
- Auglýsing -