Þór og Tindastóll höfðu fyrir leikinn í dag mæst í tvígang í deildinni í vetur og í báðum leikjum var um jafna og spennandi viðureignir að ræða. Því bjuggust flestir við að svo yrði raunin á þegar liðin mættust í dag í leik sem fram fór í íþróttahöllinni.
Gestirnir frá Sauðárkróki byrjuðu leikinn af miklum krafti í dag og ljóst að á byrjuninni þá ætluðu Sauðkrækingar að láta heimakonur hafa fyrir hlutunum. Gestirnir hófu sem sagt leikinn af krafti og fyrr en varði var staðan 2-7 og stemningin virtist vera með þeim. En þá loks vaknaði Þórsliðið með fyrirliðann Rut Herner fremsta í flokki og 13-0 áhlaup Þórs og staðan skyndilega orðin 15-2. Segja má að í raun hafi Þórsliðið aldrei litið til baka og í raun var eftirleikurinn auðveldari en á horfðist í fyrstu. Þór leiddi með 7 stigum eftir fyrsta leikhlutann 21-14.
Bæði lið byrjuðu annan leikhlutann rólega en eftir því sem á leikhlutann leið juku Þórsstúlkur á forskotið og leiddu í hálfleik með 14 stigum 38-24.
Í þriðja leikhluta var jafnræði með liðunum og hvort lið um sig skoraði 19 stig í leikhlutanum svo þegar lokakaflinn hófst var enn 14 stiga munur á liðunum 57-43.
Fjórði og síðasti leikhlutinn var eign Þórs frá upphafi til enda. Fór svo að Þór skoraði 29 stig gegn 15 gestanna og 28 stiga sigur staðreynd. Lokatölur leiks 86-58.
Óhætt er að segja að fyrirliðinn Rut Herner Konráðsdóttir hafi verið senuþjófur dagsins enda skoraði hún 29 stig var með 21 frákast og 3 stoðsendingar. Þá var Sylvía Rún frábær í dag og skoraði 25 stig var með 13 fráköst og 9 stoðsendingar.
Allir aðrir leikmenn Þórs stóðu fyrir sínu í dag, baráttan og samheldnin alveg til fyrirmyndar sem skilaði þessum frábæra sigri í dag.
Stig Þórs: Rut Herner 29 stig 21 frákast, Sylvía Rún 25 stig 13 fráköst og 9 stoðsendingar, Hrefna Ottós 18 stig 9 fráköst, Ásgerður Jana 10 stig og 8 fráköst, Karen Lind og Marta Bríet 2 stig hvor.
Stig Tindastóls: Tessondra Williams 24 stig 9 fráköst, Marin Lind 18 stig, Rakel Rós 6 stig, Eva Rún 5 stig, Inga Sólveig og Stefanía 2 stig hvor og Hera Sigrún 1 stig.
Eftir sigurinn í dag er Þór sem fyrr í 3. sæti deildarinnar með 20 stig og á enn tvo leiki eftir í deildinni þ.e. útileikir gegn Hamri sem fram fara um næstu helgi. Alveg sama hvernig næstu leikir fara þriðja sætið er og verður Þórs.
Gangur leiks:
21-14 / 17-10 (38-24) 19-19 / 29-15 = 86-58
Viðtöl:
Helgi Rúnar
Sylvía og Særós
Umfjöllun, myndir, viðtöl / Palli Jóh