spot_img
HomeFréttirUmfjöllun: Stjarnan sótti sigur eftir stopula byrjun

Umfjöllun: Stjarnan sótti sigur eftir stopula byrjun

Fyrstu leikirnir eftir gluggadaginn voru í dag. Stjarnan, með nýjan leikmann innanborðs (Sherrod Wright), tók á móti Þór Akureyri í Ásgarði. Bæði lið höfðuð unnið tvo leiki af sex í deildinni hingað til ásamt Valsmönnum og ljóst að það lið sem ynni þessa viðureign yrði í betri stöðu en allavega eitt af þessum þremur liðum. Þórsarar byrjuðu betur en misstu flugið undir lokin og Stjörnumenn unnu leikinn á lokametrunum, 92-84.
 

Stjörnumen byrjuðu fyrstu sóknina á körfu og vítaskoti þar að auki sem Tómas Þórður Hilmarsson nýtti til að koma sínum mönnum í 3-0. Eftir þetta var komið að Þórsurunum, en þeir skoruðu næstu 14 stiginn í röð á meðan að Stjarnan gátu ekki hitt úr næstu 14 skotunum sínum utan af velli. Loks fóru heimamenn í gang og náðu að minnka muninn hægt og bítandi. Staðan hafði batnað talsvert í lok fyrsta leikhluta, 17-19 Þór Akureyri í vil.

Í öðrum leikhlutanum börðust Garðbæingar við að ná og komast fram úr Akureyringum, en allt kom fyrir ekki og þeir komust næst því að jafna stöðuna í 32-32. Þá var komið að Þór að taka áhlaup, en þeir skoruðu 15 stig gegn 5 stigum Stjörnunnar þar til hálfleiksflautan gall. Liðin fóru inn í búningsklefa sína í stöðunni 37-47. 

Þriðji leikhlutinn hófst með aggressívum sóknarleik Marques Oliver, en hann skoraði fyrstu tvær körfur gestanna í seinni hálfleik og virtist staðráðinn í að vinna leikinn. Ákefðin virðist þó hafa verið aðeins of mikill hjá honum þar sem hann sótti sér tvær villur og þurfti að hvíla það sem eftir var af leikhlutanum með fjórar villur á bakinu. Stjarnan náði aðeins að laga stöðuna, en þeir unnu leikhlutann með tveimur stigum. 61-69, Þórsmenn höfðu enn forystuna.

Oliver tórði ekki lengi í fjórða leikhluta, en honum hafði vart verið skipt inn á þegar hann braut á Hlyn Bæringssyni og þurfti að setjast aftur á bekkinn. Um þetta leyti fór allt að klikka hjá gestunum og heimamenn gengu á lagið. Á seinust 5 mínútum leiksins skoruðu Stjörnumenn 18 stig gegn 7 stigum Þórs. Þar með breyttist leikurinn og Stjarnan stal sigrinum af Þórsurum. Lokastaðan: 92-84, Stjörnunni í vil.
 

Þáttaskil

Þór Akureyri lentu í vandræðum snemma í fjórða leikhluta þegar Marques Oliver fór út af með sína fimmtu villu. Þá fór þetta að verða erfiðara fyrir Þórsara. Stjörnumenn gengu á lagið og fóru að sækja fleiri sóknarfráköst og lokuðu vel á sókn Þórsmanna.
 

Hetjan

Liðsheildin hjá Stjörnumönnum undir lokin vann leikinn að lokum, góð vörn og góðar sóknir 5 seinust mínútur leiksins. Þó verður að minnast á Colin Anthony Pryor, en hann skoraði 21 stig, tók 19 fráköst og stal 4 boltum. Hann og Hlynur Bærings tóku samanlagt 36 af 56 fráköstum síns liðs (Hlynur tók 17 fráköst og skoraði 15 stig).
 

Tölfræðin lýgur ekki

Vörn Stjörnunnar undir lokin virðist hafa unnið leikinn tölfræðilega séð, en þeir fráköstuðu betur, stálu fleiri boltum og létu hitt tapa fleiri boltum ásamt því að vera duglegari að refsa fyrir tapaða bolta (18 stig skoruð úr töpuðum boltum andstæðinga, tvöfalt meira en Þór).
 

Kjarninn

Stjarnan komust aðeins út úr hausnum á sér í kvöld í lok leiksins og sýndu sitt rétta andlit. Með hjálp Sherrod Wright, Justin Shouse og betra hugarfars þá geta þeir kannski rétt sinn hlut á þessu tímabili. Þór Akureyri hafa spræka leikmenn innan sinna raða og geta á góðum degi unnið góð lið, en þeir verða að klára svona leiki ef þeir vilja eiga möguleika á að komast í úrslitakeppnina annað árið í röð. Bæði lið þurfa að vinna í hugarfarinu hjá sér ef þau ætla sér eitthvað í deildinni í ár. En slökum á, það er ennþá bara nóvember.
 

Tölfræði leiksins
Myndasafn: Bára Dröfn
 
Viðtöl eftir leikinn:
Hrafn: Það kom einhver andi í okkur
Hjalti Þór: Við bara sóttum ekki sigurinn
Justin Shouse: Bið Hrafn næst um að skipta mér inn á
 
Umfjöllun / Helgi Hrafn Ólafsson
Myndir / Bára Dröfn Kristinsdóttir
Fréttir
- Auglýsing -