Stjarnan tók á móti Íslands- og bikarmeisturum Keflavíkur í 4. umferð Dominos deildar kvenna í Ásgarði í kvöld. Keflavík hafði ekki erindi sem erfiði í Garðabænum og töpuðu þær sínum þriðja leik í röð, 81-63. Danielle Rodriguez var atkvæðamest heimastúlkna og leiddi lið sitt til sigurs.
Leikurinn byrjaði með þó nokkrum töpuðum boltum hjá báðum liðum og fyrsta karfan kom ekki fyrr en að rúm mínúta var liðin og bæði liðin búin að tapa boltanum tvisvar sinnum. Keflvíkingar skoruðu þessa fyrstu körfu og var það eina skiptið sem að þær leiddu í öllum leiknum. Þá tók Stjarnan sig til og skoruðu næstu 10 stig leikhlutans. Þær hvítklæddu voru sókndjarfari og náðu að skora 28 stig gegn 16 hjá gestunum.
Keflavík náðu aðeins að koma sér betur í gírinn í öðrum leikhluta varnarlega en þær takmörkuðu stigaskor Stjörnunnar þannig að þær skoruðu einungis 15 stig það sem eftir lifði fyrri hálfleiksins. Því miður gátu þær ekki látið þá góðu vörn skila sér í sóknina en þær skoruðu einungis 14 stig í sama fjórðungi svo staðan var 43-30 í hálfleik.
Stjarnan mætti einbeitt í seinni hálfleikinn og hélt áfram að rúlla á meðan að Keflavík átti áfram erfitt með að finna körfuna og því fór sem fór. Staðan eftir þriðja leikhluta var 64-42 og lokafjórðungurinn var næstum því formsatriði. Keflavík vann þann leikhluta með 4 stigum og lokastaða leiksins var því 81-63.
Þáttaskil
Þáttaskilin urðu í upphafi seinni hálfleiks. Þegar liðin komu út úr búningsklefunum var staðan 43-30 og Suðurnesjastelpurnar hefðu getað náð þeim mun niður á skömmum tíma með góðu spili. Keflvíkingar hófu þriðja leikhluta þannig, Birna Valgerður Benónýsdóttir, sem var stigahæst hjá Keflavík með 18 stig, skoraði 4 stig í röð til að koma muninum í 9 stig en þá tóku Garðbæingar við sér og settu aftur í fluggírinn. Stjarnan skoraði 21 stig á seinustu 8 mínútum þriðja fjórðungsins á meðan að gestirnir gátu aðeins svarað með 8 stigum. Staðan eftir þennan leikhluta var 64-42 og þar lá sigur Stjörnunnar, 21-12 stigaskor í þriðja leikhlutanum.
Tölfræðin lýgur ekki
Það sem stendur upp úr er að hvorugt liðið hafi skotið sérstaklega vel í leiknum en bæði lið hittu úr 24 skotum utan af velli. Stjarnan þurfti 79 skottilraunir til þess (24/79, 30%) á meðan að Keflavík þurfti aðeins 65 tilraunir (24/65, 37%). Maður getur lesið úr tölfræðinni hvar baráttan var, en heimaliðið tók 22 sóknarfráköst á móti 9 hjá gestunum og þær sóttu líka fleiri vítaskot. Stjörnustelpur hittu úr 23 af 27 vítum sínum (85%) en Keflvíkingar hittu aðeins úr 11 af 19 vítum hjá sér (58%).
Hetjan
Danielle Rodriguez, erlendur leikmaður Stjörnunnar, bar höfuð og herðar yfir aðra leikmenn í þessum leik, en hún var stigahæst, frákastahæst, stoðsendingahæst (reyndar til jafns við Brittany Dinkins) og átti flesta stolna bolta. Dani, eins og hún er jafnan kölluð, var tveimur stoðsendingum frá því að vera með þrefalda tvennu og var framlagshæst í leiknum með 38 framlagsstig. Hún skoraði 31 stig, tók 11 fráköst, gaf 8 stoðsendingar, stal 5 boltum og varði eitt skot. Flottur leikur hjá henni og hún gæti vel verið í baráttunni um það að vera besti erlendi leikmaður deildarinnar í ár ef fram heldur sem horfir.
Kjarninn
Stjarnan er á góðri siglingu með 3 sigra í röð eftir að þau hófu tímabilið á tapi gegn eina liðinu sem er ennþá ósigrað, Haukar. Þær eru að spila saman og eru baráttuglaðar inni á vellinum og með þessu áframhaldi gætu þær vel átt tilkall til titilsins. Það kemur í ljós eftir því sem líður á tímabilið. Næsti leikur þeirra er gegn Snæfell í Stykkishólmi.
Meistarar alls frá því í fyrra virðast vera í einhverju fönki og verða að taka sig á ef að þær ætla sér að endurtaka leikinn frá því fyrra. Þær eru sem stendur jafnar að stigum með Breiðablik og hafa unnið einum leik fleiri en Njarðvík. Þessi töp eru mögulega góð í reynslubanka þessarar ungu sveitar en þær verða að hrista þetta af sér ef þær vilja keppa um titilinn aftur í ár. Næsti leikur er á heimavelli gegn Skallagrím, þær mæta væntanlega bandbrjálaðar í þann leik.
Umfjöllun: Helgi Hrafn Ólafsson
Myndasafn: Karol G?ogowski