spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaUmfjöllun: Söltun í Síkinu

Umfjöllun: Söltun í Síkinu

Það var heldur betur stemning í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld þegar heimamenn tóku á móti Keflavík. “Svona gerum við er við flengjum léleg lið!” sungu heimamenn í stúkunni eftir leikinn. Keflavík er alls ekki lélegt lið en heimamenn tóku þá svo sannarlega í kennslustund í kvöld.

Það var snemma ljóst í hvað stefndi, Tindastólsmenn komu fljúgandi úr startblokkunum og höfðu náð 10 stiga forystu áður en 4 mínútur voru liðnar af leiknum og Keflvíkingar vissu ekki hvað snéri upp eða niður á vellinum. Leikgleðin og baráttan skein af heimamönnum sem höfðu valdið aðdáendum sínum nokkrum vonbrigðum í síðustu leikjum þrátt fyrir að vinna þá báða. Baráttan í vörninni var til háborinnar fyrirmyndar og menn voru að setja skotin sín fyrir utan. Eftir fyrsta leikhluta var staðan 24-12 og Síkið var á eldi.

Heimamenn hófu annan leikhluta af sama krafti og á rúmum 3 mínútum höfðu þeir sett 12 stig gegn 3 stigum gestanna og munurinn kominn yfir 20 stig, 36-15. Oft hefur það gerst í Síkinu að heimamenn hafa náð góðri forystu en slakað svo á allt of snemma og hleypt gestunum inn í leikinn. Það var kristaltært að strákarnir ætluðu ekki að láta það henda sig aftur og þeir héldu áfram að keyra yfir gestina. Kacinas minnkaði muninn aðeins á vítalínunni fyrir hálfleik en forysta heimamanna engu að síður allgóð, 53-29.

Þriðji leikhluti byrjaði svipað og hinir og eftir rúmar 3 mínútur setti Brynjar fallegan þrist og kom muninum í 30 stig, 61-31. Ótrúlegar tölur í Síkinu og Sverrir tók leikhlé. Heimamenn voru að halda Craion og Herði Axel vel frá boltanum og ef Hörður fékk boltann var Viðar í andlitinu á honum undir eins og setti hann úr jafnvægi. Gestirnir náðu að naga muninn aðeins niður næstu mínútur en þegar rúmar 2 mínútur lifðu af leikhlutanum tók Pétur Rúnar smá syrpu og setti 6 stig í andlitið á gestunum á innan við 20 sekúndum og kom muninum aftur yfir 30 stigin. Tveir þristar frá Axel á lokamínútunni stráðu svo frekara salti í sár gestanna og staðan fyrir lokaleikhlutann var 77-39.

Það var augljóst að heimamenn slökuðu aðeins á í byrjun lokaleikhlutans og skoruðu einungis 2 stig fyrstu 5 mínúturnar en gestirnir 11. Heimamenn áttu þó aldrei í teljandi vandræðum með að halda Keflavík frá sér og unnu að lokum 21 stigs sigur 89-68.

Heimamenn í Tindastól voru að spila virkilega vel í kvöld sem lið og sönnuðu enn og aftur að góður varnarleikur skapar sigra. Viðar var í andlitinu á Herði Axel frá byrjun og dró þar með nokkrar tennur úr sóknarleik gestanna. Annað atriði var að þeir héldu Craion vel frá körfunni og sáu til þess að hann var ekki að fá boltann þar sem hann vildi enda skoraði kappin einungis 7 stig í fyrstu 3 leikhlutunum sem er fáheyrt hjá þessum frábæra leikmanni. Tapaðir boltar voru fleiri en stig frá kappanum í fyrstu þremur leikhlutunum. Sóknarlega gekk boltinn ágætlega hjá heimamönnum, þeir voru duglegir að finna Alawoya undir eftir að Keflvíkingar höfðu skipt á skrínum og það skilaði góðum körfum. Allt byrjunarlið Stólanna fór yfir 10 stig skoruð nema Viðar en varnarleikur hans var svo sannarlega margra stiga virði. Hjá gestunum var lítið að frétta, Craion endaði í 18 stigum og 11 fráköstum en flest stigin komu eftir að leikurinn var tapaður. Viðar slóð Hörð útaf laginu eins og áður sagði en hann setti þó 15.

Nú er úrslitakeppnin framundan þar sem Tindastóll mun mæta Þór Þorlákshöfn og hafa Stólar heimavallarréttinn.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Væntanlegt)

Umfjöllun, myndir & viðtöl / Hjalti Árna

Viðar og Pétur eftir leik: 

Fréttir
- Auglýsing -