Það var nokkuð vel mætt í íþróttamiðstöðina í Stykkishólmi á sunnudagskvöldi, Hólmarar eru körfuboltaþyrst og sýna það alla jafnan með góðri mætingu. Snæfell fengu í Breiðablik í heimsókn. Liðin mættust einmitt í fyrstu umferð Dominosdeildarinnar og fór sá leikur í tvær framlengingar sem endaði með sigri Snæfells. Það átti því búast við hörkuleik, þrátt fyrir að Blikar séu enn í leita að sínum fyrsta sigri í deildinni.
Upp og niður
Liðin spiluðu mjög hraðan leik og var oft mikið eftir á skotklukkunni þegar skotið fór upp. Liðin fóru því oft á tíðum í marga spretti upp og niður völlinn. Þegar liðin settu upp í sókninni þá opnuðust varnir liðanna vel.
Varnarleikur Snæfells
Gunnarsdætur þær Gunnhildur, Berglind og Kristen hafa alltaf verið þekktar fyrir frábæran varnarleik. Nú hefur aldeilis bæst í hópinn en stöllur þeirra í byrjunarliðinu, Katarina og Angelika, gefa ekki tommu eftir. Snæfell hefur að skipa frábæru varnarliði og það er sérstaklega gaman að fylgjast með baráttu og færslum hjá Angeliku.
Baráttuglaðir Blikar
Breiðablik eru með ótrúlega duglegt lið, allar virðast þær vera á 100% hraða allan leikinn og fagna öllum körfum eins og það sé þeirra fyrsta já eða sú síðasta. Það ber að virða. Fyrsti sigurinn er án efa rétt handan hornið.
Of stór biti
Leikurinn var í raun í járnum allan tíma en samt þannig að Snæfell var ávallt með 10(+-) stiga forystu. Blikar gerðu áhlaup en Snæfell svaraði alltaf. Snæfellsstelpur voru að minnsta kosti einu eða tveimur númer of stórar fyrir Blika. Allt byrjunarlið Snæfells skoraði 10 eða meira. En ég trúi ekki öðru en að Baldur og co. vilji meira frá bekknum en það fyrstu stig af bekknum komu þegar 2,9 sek. voru eftir af leiknum.
Niðurstaðan
Leikurinn endaði með þægilegum 11 stiga sigri Snæfells (80-69) og var það munurinn á liðunum eftir 1. leikhluta.
Það helsta:
- Kristen McCarthy átti enn einn stórleikinn 21/12/10/7(stolnir), skotnýtingin var samt ekki neitt til að hrópa húrra fyrir.
- Byrjunarlið Snæfells skoraði 78 stig af 80 stigum Snæfells í leiknum.
- Kelly og Sanja voru báðar með tvöfalda tvennur (Kelly 24/12 og Sanja 24/10)
- Ragnheiður Björk með góða innkomu 11/6
- Gunnhildur var frábær í leiknum með 21 stig (4/7 í þristum)
Umfjöllun: Gunnlaugur Smárason