Keflavík tók á móti Val í Dominos deild karla í Blue höllinni í kvöld. Heimamenn sem eru ósigraðir í deildinni byrjuðu betur og skoruðu 11 fyrstu stig leiksins. Valsmenn komust af stað um miðbik leikhlutans en eltu Keflvíkinga sem héldu þægilegu forskoti út leikhlutann. Pavel þurfti aðhlyningu eftir samstuð við Hörð Axel sem fékk seinbúna óíþróttamannslega villu eftir samtal dómaranna fyrir vikið. Staðan eftir fyrsta leikhluta 23 – 14.
Keflvavík byrjaði annan leikhluta með sömu látum og í þeim fyrsta og voru komnir 16 stigum yfir eftir fjórar mínútur. Keflvíkingar vörðu þann mun og bættu aðeins í. Staðan í hálfleik 51 – 32.
Valur byrjaði þriðja leikhluta vandræðalega fjarverandi líkt og fyrri tvo leikhlutana. Það vakti athygli að Chrisopher Rasheed Jones leikmaður Vals var einnig fjarverandi eftir hálfleik. Það var ekki fyrr en forskot heimamanna var að nálgast 30 stigin að gestirnir rönkuðu við sér og náðu muninum aftur niður fyrir 20 stigin. Staðan fyrir fjórða leikhluta 71 – 59.
Valsmenn komu loks grimmir til leiks og héldu áfram að saxa niður forskot Keflvíkinga fyrstu mínútur fjórða leikhluta og það var allt útlit fyrir að síðustu mínúturnar yrðu spennandi. En þá skiptu Keflvíkingar um gír og kláruðu leikinn mjög sannfærandi 93 – 82.
Byrjunarlið:
Keflavík: Khalil Ullah Ahmad, Dominykas Milka, Deane Williams, Reggie Dupree og Hörður Axel Vilhjálmsson.
Valur: Illugi Steingrímsson, Christopher Rasheed Jones, Ragnar Ágúst Nathanaelsson, Frank Aron Booker og Pavel Ermolinskij.
Hetjan:
Austin Magnús Bracy átti mjög góða innkomu af bekknum fyrir Val. Pavel var þrátt fyrir meiðsli fínn. Hjá heimamönnum Var Hörður Axel góður, Milka skilaði sínu, Khalil Ullah Ahmad átti mjög góðan leik og Dean Williams var frábær!
Kjarninn:
Það var lítið að frétta hjá Valsmönnum framan af leik. Keflvíkingar yfirspiluðu þá gjörsamlega og Valur var ekki að finna nein svör. Útlendingar Vals voru svo fjarverandi að einn þeira mætti ekki einu sinni til leiks eftir hálfleik og það fattaði það engin strax. Keflvíkingar geta verið sáttir við allt nema svona 6 mínútna kafla við lok þriðja og byrjun fjórða leikhluta. Þeir líta mjög vel út og eru til alls líklegir haldi þeir áfram uppteknum hætti.
Viðtöl: