spot_img
HomeFréttirUmfjöllun: Skallagrímur í 4. sæti í bili, unnu Blika í Smáranum

Umfjöllun: Skallagrímur í 4. sæti í bili, unnu Blika í Smáranum

Breiðablik tók á móti Skallagrími í Smáranum í kvöld í leik sem skipti miklu upp á úrslitakeppnisvonir beggja liða. Blikar áttu ennþá möguleika á að komast í úrslitakeppnina með sigri og Skallagrímur gátu komist upp í 4. sæti með sigri og ef Stjarnan tapaði. Skallagrímur hafði betur í upp og niður leik þar sem þær leiddu þó alltaf, 65-85.
 

Gangur leiksins

Skallagrímur hóf leikinn betur og tók fljótlega forystuna. Breiðablik átti í miklu basli með að skora og missti Auði Írisi Ólafsdóttur út af vegna meiðsla eftir aðeins fjórar mínútur. Borgnesingar héldu áfram að rúlla þó að það færi ekki allt ofan í hjá þeim og leiddu með 15 stigum eftir fyrstu leikhlutann; 10-25.

Í öðrum leikhlutanum lifnaði yfir daufum Blikunum, en þær fóru að standa sig betur í vörninni og keyrðu vel á sóknirnar sínar, sem skilaði sér í góðum körfum og þær náðu að minnka muninn í fimm stig um miðbik leikhlutans. Skallagrímur tók þá við sér og náði aðeins að breikka bilið aftur þannig að Breiðablik vann leikhlutann einungis með fjórum stigum, 24-20. Staðan í hálfleik: 34-45.

Breiðablik mætti reiðubúið í upphafi seinni hálfleiks og heimastúlkur skoruðu úr flestum færum í byrjun þriðja leikhluta. Þær tóku 7-2 áhlaup og virtust ætla að ná Sköllunum á tímabili. Þá tóku gestirnir sig til og sneru leiknum aftur með sínu eigin 2-9 áhlaupi til að halda Blikunum frá sér. Eftir þetta voru Breiðabliks píurnar ekki alveg jafn upplitsdjarfar, enda var liðið að hitta illa þrátt fyrir mikinn eldmóð á köflum. Skallagrímur var á sama tíma að brjóta vörn Blika nokkuð hæglega og að fá framlag úr öllum áttum. Liðin skildu í stöðunni 49-64 eftir þrjá leikhluta og útlitið ekki gott fyrir heimastúlkur.

Carmen Tyson-Thomas, sem skoraði fyrstu 6 stig leiksins og svo engin fleiri stig í fyrri hálfleik, fór aftur í gang í seinni hálfleik og mest í fjórða leikhlutanum, 13 stig á rúmum sjö mínútum. Breiðablik gat lítið gert gegn henni og öðrum leikmönnum Skallagríms og leikurinn fór að lokum 65-85, Borgnesingum í vil.
 

Þáttaskil

Í stöðunni 41-47 í þriðja leikhluta var Carmen skipt út af og Blikar hefðu þá átt að reyna ganga á lagið og minnka muninn ennþá meira. Þess í stað kom Guðrún Ósk Ámundadóttir inn á og leikur Skallagríms snerist við. Bríet Lilja Sigurðardóttir, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir og Guðrún Ósk skoruðu allar á næstu 5 mínútunum og héldu Blikum í skefjum meðan Carmen fékk að hvíla sig á bekknum. Hún kom síðan aftur inn á, Skallarnir héldu áfram að skora og unnu leikinn að lokum.
 

Tölfræðin lýgur ekki

Sókn Breiðabliks var ekki nógu beitt að þessu sinni sem sást meðal annars í allt of fáum stoðsendingum (13 hjá Blikum gegn 26 hjá Skallagrími) og afleitri skotnýtingu (22/69, 31.9% nýting). Frákastabaráttuna átti Skallagrímur, en þær tóku 49 fráköst gegn 36 hjá Breiðablik. Framlagið af bekknum hjá Breiðablik hefði líka þurft að vera betra, en aðeins 4 stig komu þaðan á meðan að 18 stig komu frá varamannabekk Skallagrímskvenna.
 

Hetjan

Carmen Tyson-Thomas átti besta tölfræðilega leikinn í kvöld, en hún skoraði 24 stig, tók 14 fráköst, gaf 3 stoðsendingar og stal 3 boltnum (33 framlagsstig á heildina). Sigrún Sjöfn Ámundadóttir var aftur á móti mikilvægari fyrir liðið sitt í kvöld, enda var hún hæst í plús/mínus-tölfræðinni (+26, jöfn með Jóhönnu Björk Sveinsdóttur) ásamt því að vera tveimur stoðsendingum frá þrefaldri tvennu. Hún skoraði 13 stig, tók 10 fráköst, gaf 8 stoðsendingar og var með 26 í framlag í leiknum. Hjá Breiðablik var Whitney Knight með bestu tölurnar, en hún skoraði 26 stig og tók 13 fráköst (30 framlagsstig á heildina).
 

Kjarninn

Með þessum sigri er Skallagrímur kominn í 4. sæti deildarinnar, jöfn að stigum með Stjörnunni sem tapaði gegn Keflavík í kvöld, 81-78. Skallagrímur þarf að halda vel á spöðunum ef þær vilja ekki falla aftur niður fyrir Stjörnustelpur, en þær eiga aðeins erfiðari leiki framundan samanborið við Stjörnuna. Breiðablik eru núna aftur á móti dottnar úr sénsi að komast í úrslitakeppnina, en þær eiga þrjá leiki eftir og eru þremur sigrum á eftir Sköllunum og Stjörnunni sem eiga bæði innbyrðis viðureignina á Blikana.
 

Tölfræði leiksins
 

Viðtöl eftir leikinn:

"Við erum náttúrulega bestar þegar allar taka þátt í leiknum."

"Skotin voru ekki að detta og við vorum ekki alveg nógu gráðugar í sóknarfráköstin."

Umfjöllun og viðtöl / Helgi Hrafn Ólafsson
Fréttir
- Auglýsing -