Pálína Gunnlaugsdóttir fór á kostum þegar Keflavík sigraði Hamar í kvöld, 105-65. Hún endaði leikinn með 32 stig, 5 stolna bolta og 4 stoðsendingar á þeim 28 mínútum sem hún spilaði. Hjá Hamri voru Samantha Murphy með 26 stig og Hannah Tuomi með 17 stig.
Það var greinilegt frá fyrstu mínútu að Keflavík ætlaði ekki að tapa öðrum leiknum sínum á tímabilinu. Þær komu allar sem ein tilbúnar í leikinn og byrjuðu að pressa frá fyrstu mínútu. Hamar átti frekar erfitt uppdráttar og kom ekki fyrsta karfan fyrr en eftir fjögurra mínútna leik. Bæði lið voru í svæði og leiddi oft til mistaka í sendingum hjá báðum liðum. Eftir fyrsta leikhlutann var staðan 25-13 fyrir Keflavík.
Í byrjun annars leikhluta var Tuomi að sækja meira að körfunni og næla í villur sem kom henni á línuna. En Keflavík hélt áfram að pressa og var betra liðið á vellinum. Þær skiptu um gír frá fyrsta leikhlutanum og fóru að keyra meira á Hamar og áttu þær fá svör við sóknarleik þeirra. Pálína var komin með 17 stig í hálfleik og þá var Sara Rún Hinriksdóttir að spila frábærlega í þessum leikhluta og var komin með 14 stig. En hjá Hamri var Tuomi komin með 16 stig og var sú eina sem var virkilega að reyna eitthvað á þessum tímapunkti. Staðan í leikhlé var 57-35 fyrir Keflavík.
Áfram hélt leikurinn á sömu braut í þriðja leikhluta. En eftir rúma mínútu var Jaleesa Butler komin með 4 villur og hélt á bekkinn. Hamar fór að reyna að berja aðeins frá sér til að koma sér í leikinn. Tuomi hélt áfram að láta finna fyrir sér inni í teig og þá sérstaklega sóknarmegin á vellinum. En það dugði skammt þar sem hún var einnig komin með 4 villur þegar um 5 mínútur voru búnar af leikhlutanum. Við það opnaðist vörn Hamars og Keflavík fór að sækja meira á þær. Murphy fór að láta finna fyrir sér í sókninni í þessum leikhluta og var komin með 19 stig fyrir Hamar og Tuomi var með 17. Fyrir Keflavík var Pálína komin með 27 stig og var að spila frábærlega. Birna Valgarðsdóttir og Sara Rún voru með 16 stig.
Keflavík átti fjórða leikhlutann algjörlega og var bara spurning um það hversu stórt þær mundu vinna. Hamar var orðið andlaust og Keflavík gengu á lagið. Murphy reyndi að halda þeim inn í leiknum en hún einfaldlega réð ekki ein við allt Keflavíkurliðið sem spilaði frábærlega í kvöld.
Eins og áður segir þá fór Pálína á kostum í kvöld og endaði leikinn með 32 stig (5/6 í þriggja), 4 stoðsendingar og 5 stolna bolta. Þá voru Birna, Sara Rún og Butler með 16 stig. Butler var einnig með 11 fráköst, 6 stoðsendingar og 6 stolna. Virkilega gaman var að fylgjast með hinni ungu Söru Rún í kvöld, þarna er einn efnilegasti leikmaður kvennaboltans á ferð og verður gaman að fylgjast með henni í vetur.
Hjá Hamri var Murphy með 26 stig og 7 stolna, Tuomi var með 17 stig og 8 fráköst og Álfhildur Þorsteinsdóttir með 16 stig og 11 fráköst.
Mynd/ www.vf.is – Pálína sækir að körfu Hamars í kvöld.
Umfjöllun: Rannveig Kristín Randversdóttir – rannveig@karfan.is