Í fyrsta heimaleik vetrarins í Íslandsmóti karla í 1. deild, sigruðu Skallagrímsmenn lið Þórs Akureyri nokkuð sannfærandi, 95-72. Borgnesingar hafa því fullt hús stiga – sex stig – og tróna þar með á toppi 1. deildar.
Óhætt er að segja að Akureyringar hafi mætt einbeittir og ferskir til leiks, því þeir leiddu leika nær allan fyrsta leikhluta. Réði þar mestu um værukær varnarleikur Skallagrímsmanna, en einnig, Akureyringum til hróss, klókur sóknarleikur gestanna. Um miðbik leikhlutans náði Pálmi þjálfari að gera nauðsynlegar ráðstafanir í varnarleiknum með innkomu Sigmars Egilssonar, Óðins Guðmundssonar og Harðar Hreiðarssonar. Þannig var tónninn gefinn varnarlega af ákveðni sem olli straumhvörfum í framvindu leiksins. Uppfrá því náðu Skallagrímsmenn að saxa skammvinnt tíu stiga forskot gestanna niður í eitt stig, 23-24, áður en fyrsti leikhlutinn var allur.
Nú gengu Skallagrímsmenn fullir kappi og atorku til annars leikhluta og hófu stórsókn á öllum vígstöðvum vallarins. Sambland af pressuvörn og auknum hraða í framkvæmd leikkerfa sóknarmegin gerði það að verkum að “varnarstopp” Skallagrímsmanna jukust og þannig, í réttu hlutfalli, hrönnuðust körfuboltastigin hjá Sköllum. Jókst kapp heimamanna allverulega við þetta. Staðan í hálfleik var 47-37 fyrir Skallagrím.
Um seinni hálfleikinn er þar að segja, að Borgnesingar fylgdu þeirri varnar- og sóknarstefnu sem mörkuð hafði verið um miðjan fyrri hálfleik af svo miklum þunga, að lánlausir og þreyttir Þórsarar fengu ekki rönd við reist. Má segja að úrslitin hafi ráðist að loknum þriðja leikhluta, en þá var staðan 80-50 Skallagrímsmönnum í vil. Pálmi þjálfari hvíldi lykilmenn nánast að fullu í lokaleikhlutanum og leyfði liðsbreidd Borgnesinga að njóta sín til fulls. Lokatölur urðu loks 95-72. Mikilvægum stigum var því landað í höfn heimamanna á þessum fagra laugardegi við Borgarvog.
Allir leikmenn Skallagríms fengu að láta ljós sitt skína gegn Þórsurum. Fengu hinir reynsluminni í liði Skallagríms verðmætan tíma til að spila og gat Pálmi þjálfari hvílt lykilmenn á meðan. Aðsópsmestur í liði Skallagrímsmann var – á innan við 20 mínútum – Bandaríkjamaðurinn Lloyd Harrison sem skoraði 22 stig auk þess að taka 6 fráköst, gefa 5 stoðsendingar og stela heilum 8 boltum. Fengur er því af Harrison þessum fyrir Borgnesinga.
Pálmi þjálfari var ánægður með leik lærisveina sinna gegn Þórsurum og mat það svo að allir hafi lagt sig vel fram. Aðspurður um hvaða ályktanir megi draga af leik dagsins, svaraði Pálmi því til að meginmarkmiðið verði sett á að fá liðið til að leika vörn í fullar 40 mínútur. Ekki dugi að slaka á í vörninni, heldur halda sama takti allan leikinn. Varnarleikurinn er því aðalverkefnið á næstunni. Að lokum bætti Pálmi því við að liðið eigi “mikið inni”. Því verður fróðlegt að fylgjast með hvernig leik Borgnesinga mun vinda fram á leiktíðinni sem nú er genginn í hönd.
Skallagrímsmenn hafa því unnið alla þrjá leiki sína í Íslandsmótinu. Framundan er svo eldskírn er liðið mætir Íslandsmeisturunum sjálfum í KR í fyrstu umferð Lengjubikarsins í kvöld, 24 október kl. 19:15 í Borgarnesi. Búist er við fjölmenni að sunnan og því ekki úr vegi fyrir heimamenn að mæta í stúkuna og styðja við bakið á Skallagrímsmönnum.
Mynd/ Sigga Leifs
Umfjöllun: Heiðar Lind Hansson