Það var boðið upp á jafnan og spennandi leik í Iðu í kvöld þegar KFÍ heimsótti F.Su. í 1. deild karla. Gestirnir sigu fram úr rétt í lokin og unnu með 5 stigum, 73-78.
Jafnræði var og spenna en fátt annað jákvætt er um leikinn að segja. Heimamenn eiginlega köstuðu frá sér sigrinum á síðustu 2-3 mínútunum. Þeir voru með yfirhöndina, um 10 stiga forskot þegar komið var fram í miðjan síðasta leikhluta, en gerðu of mikið af mistökum sem KFÍ liðið nýtti sér til að minnka muninn, jafna leikinn og síga svo fram úr.
Ofan úr stúku að sjá hékk KFÍ inni í leiknum í fyrri hálfleik vegna tapaðra bolta heimastráka. Þeir ýmist stigu út af vellinum eða létu Craig Schoen hirða af sér boltann og skora úr auðveldum sniðskotum. Þegar tölfræði leiksins er skoðuð á vef KKÍ kemur því á óvart að F.Su. tapaði „aðeins“ 20 boltum í leiknum en KFÍ 23, svo ekki hallaði á heimaliðið hvað þennan þátt varðar.
Hittni var almennt ekki upp á marga fiska. Það var helst ungur strákur í F.Su.liðinu, Birkir Víðisson, sem gladdi augað með fallegum þriggja stiga körfum og ágætri skotnýtingu, hann setti 18 stig í leiknum. Kjartan Atli skaut mikið en hitti lítið í kvöld og leikstjórnandi liðsins, Bjarni Bjarnason þurfti að sitja á bekknum nánast allan þriðja leikhluta vegna villuvandræða. Orri Jónsson var stigahæstur heimamanna með 21 stig, og gerði stundum ágætar rósir, t.d með fallegum gegnumbrotum, en óþarflega mikið af dýrum mistökum inn á milli. Hann var einnig frákastahæstur heimamanna með 8 fráköst.
F.Su. liðið sýndi stundum skemmtilega takta, fallegt spil sem gaf frí skot, en eins og komið hefur verið inn á verður full tíður klaufaskapur liðinu að falli. Þennan leik átti F.Su. tvímælalaust að geta unnið og ef þjálfaranum tekst að aga leik liðsins betur verður það skeinuhætt hverjum sem er í vetur.
Ísfirðingar voru slakir í kvöld og áttu varla skilið að vinna. Craig var óvenjudaufur, þessi mikla skytta hitti aðeins úr 1 af 10 þriggjastigaskotum og stjórnaði leik liðsins ekki vel heldur. Hans bjarta hlið var í varnarleiknum, stal boltum á mikilvægum augnablikum og endaði með 19 stig og 9 fráköst. Christopher Miller-Williams, miðherji liðsins, var lengi í gang. Honum gekk ótrúlega illa að klára sóknir, þó hann fengi úr töluverðu að moða. Hann var þó betri en enginn á síðustu mínútunum þegar hann setti skotin loksins niður og klóraði sig upp í 17 stig samtals og 15 fráköst. Undrun vakti að ein aðal skytta liðsins var alfarið höfð úti í hundakofa, fékk aðeins 1 skot fyrir utan þriggja stiga línuna allan leikinn, þrátt fyrir að allir hinir væru ískaldir.
Rætt hefur verið um það að KFÍ liðið eigi að vera eitt af þeim bestu í deildinni. Það sást ekki í kvöld og mikið þarf að breytast í leik liðsins ef það á að standa undir þeim orðrómi. KFÍ hefur þó unnið tvo fyrstu leikina, án þess að spila vel, og það kann að vita á gott fyrir framhaldið. Ef liðið smellur saman gæti það svo sem orðið á toppnum í vor.
Það kann á móti að verða F.Su. dýrt að tapa tveimur fyrstu leikjunum sínum, eftir að hafa verið í bullandi sjens að vinna þá báða. Þetta er ungt lið með fremur litla breidd og ekki mikla hæð eða sóknarþunga inni í teig. Í liðinu eru hinsvegar hæfileikaríkir og efnilegir strákar og ef þeim tekst að skera niður klaufamistök um a.m.k. helming munu þeir fara að vinna leiki fljótlega.
Mynd/ Úr safni: Craig Schoen gerði 19 stig í liði KFÍ í kvöld.
Gylfi Þorkelsson