Það eru engir leikir auðveldir í úrvalsdeild kvenna í körfubolta og það sannaðist enn í kvöld þegar KR tók á móti Skallagrími í Frostaskjólinu. Leikurinn var jafn og æsispennandi þar sem liðin skiptust á að leiða og endaði með tveggja stiga sigri heimaliðsins, 65:63.
KR hóf leikinn með krafti og var mun markvissara í aðgerðum sínum í upphafi en gestirnir. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 19:12. Í öðrum leikhluta snerist dæmið við. KR-ingum virtist fyrirmunað að koma boltanum í körfuna á meðan Skallagrímur saxaði jafnt og þétt á forskotið. Með góðum spretti í lok leihlutans tókst þó að takmarka skaðann. Þegar gengið var til búningsklefa leiddu gestirnir með einu stigi, 30:31.
Í seinni hálfleik hélt spennan áfram, tvö jöfn lið í hörku baráttu. Á loka mínútunum tókst KR þó að sýna styrk og landa sigri, 65:63.
Orla O‘Reilly átti frábæran leik í liði KR, skoraði 22 stig, tók 12 fráköst, gaf sex stoðsendingar, stal boltanum heilum sjö sinnum og kórónaði frammistöðu sína með einu vörðu skoti. Þessi írski leikmaður hefur reynst mikill happafengur fyrir KR.
Kiana Johnson var einnig til fyrirmyndar, hélt boltanum vel stýrði liðinu af ákveðni. Hún varð með 13 stig, átta fráköst og fimm stoðsendingar.
Perla Jóhannsdóttir hefur farið vaxandi eftir því sem liðið hefur á tímabilið og hitti vel í kvöld. Hún var með 11 stig og hitti úr þremur af sjö þriggja stiga skotum, sem er frábær nýting. Perla tók einnig þrjú fráköst og gaf tvær stoðsendingar.
Unnur Tara Jónsdóttir var einnig öflug og skoraði 10 stig. Að auki var hún með fimm fráköst, tvær stoðsendingar og tvo stolna bolta. Vilma Kesänen skoraði sex stig. Að venju virtist henni fyrimunað að koma boltanum í körfuna framan af leik, en hún hefur farið í gang í síðasta leikhlutanum og það varð engin breyting á því í kvöld. Hún skoraði þriggja stiga körfu þegar mikið lá við og var síðan örugg á vítalínunni.
Þorbjörg Andrea Jónsdóttir var með tvö stig, fjögur fráköst og eina stoðsendingu. Ástrós Lena Ægisdóttir spilaði frábæra vörn í leiknum, en lenti í villuvandræðum. Hún skoraði eitt stig og tók tvö fráköst. Margrét Blöndal var með tvær stoðsendingar og tvö fráköst.
Í liði Skallagríms eru fjórir útlendir leikmenn. Shequila Joseph frá Bretlandi var stigahæst með 23 stig og 15 fráköst að auki. Hún gerði KR-ingum lífið erfitt, sérstaklega eftir að hún fór í gang í stigaskoruninni í seinni hálfleik, og voru sjö frákasta hennar í sókn. Pólski leikmaðurinn Maja Michalska var með 17 stig, níu fráköst og fimm stoðsendingar. Bakvörðurinn Bryesha Blair skoraði 12 stig, tók sex fráköst og gaf fimm stoðsendingar. Þá skoraði Tékkinn Ines Kerin þrjú stig. Sigrún Sjöfn Ámundadóttir, sem KR-ingum er að góðu kunn frá árum áður, náði sér aldrei á strik og skoraði aðeins þrjú stig. Alls skoruðu erlendu leikmennirnir í liði Skallagríms 55 af 63 stigum liðsins.
KR-ingar eru jafnir Snæfelli að stigum, en sigur í innbyrðis viðureign liðanna skilar Vesturbæjarstúlkum efsta sætinu í deildinni. Næsta viðureign KR er útileikur við Keflavík á miðvikudag eftir viku, 7. nóvember.
Skallagrímur er í sjöunda sæti deildarinnar með fjögur stig líkt og Haukar og Valur. Liðið mættir einmitt þessum liðum í næstu viku.
Umfjöllun er af Facebook síðu KR og er birt með þeirra leyfi.