spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaUmfjöllun & myndir: Dinkins drjúg er Njarðvík lagði Aþenu

Umfjöllun & myndir: Dinkins drjúg er Njarðvík lagði Aþenu

Njarðvík tók á móti Aþenu í IceMar-Höllinni í kvöld en þetta var fyrsti leikur félaganna í úrvalsdeild kvenna. Njarðvíkingar með 4 stig í 5. sæti eftir fjórar umferðir en Aþena á botni deildarinnar með Þór Akureyri með 2 stig.

Óhætt er að segja að leikurinn hafi verið hrjúfur áferðar að þessu sinni. Vel varist og hart barist, staðan 16-11 fyrir Njarðvík eftir fyrsta leikhluta og heimakonur leiddu 31-25 í hálfleik.

Aþena komst yfir í upphafi þriðja leikhluta en Njarðvíkingar sem höfðu naum tök á leiknum leiddu 50-46 eftir þriðja. Í þeim fjórða tók Brittany Dinkins til sinna ráð og sleit Njarðvík frá með skotsýningu. Dinkins lauk upp fjórða með tveimur þristum og Njarðvík leiddi 56-46 og Aþena komst ekki mikið nærri en það í kvöld. Lokatölur 70-63.

Dinkins leiddi Njarðvíkinga í kvöld með 27 stig, 5 fráköst og 5 stoðsendingar og henni næst var Ena Viso með 11 stig og 4 stoðsendingar. Hjá Aþenu voru Barbara Ola Zienieweska og Ajulu Obur Thatha báðar með 17 stig og fyrrum liðsmaður Njarðvíkurkvenna og nú leikmaður Aþenu, Dzana Crnac bætti við 10 stigum.

Leikur kvöldsins var fjórði tapleikur Aþenu í röð en Njarðvík vann annan leikinn í röð eftir góðan sigur gegn Haukum í síðustu umferð.

Í næstu umferð mæta Ljónynjurnar í Garðabæ og leika gegn Stjörnunni en Aþena tekur á móti Valskonum.

Tölfræði leiks


Fréttir
- Auglýsing -