spot_img
HomeFréttirUmfjöllun: Leik ársins lauk með sigri Blika undir lokin

Umfjöllun: Leik ársins lauk með sigri Blika undir lokin

KR-b(umban) og Breiðablik mættust í 16-liða úrslitum Maltbikars karla í DHL-höllinni í kvöld. Heil deild skilur liðin að en KR-b fékk leynivopn í hendurnar fyrir leikinn, Marcus Walker. Ekki nóg með það heldur var Helgi Magg fyrrum landsliðsmaður mættur frá USA sömuleiðis og það stemmdi allt í hörkuleik. Breiðablik vann þó að lokum, 100-108.
 

KR-ingar byrjðu á að setja 4 þrista í fyrstu þremur sóknunum sínum, þ.a. þrír frá Marcus Walker. Blikar voru þó hvergi bangnir og ætluðu ekki að láta 2. deildar lið fara illa með sig. Þeir áttu þó ekki nógu mörg svör við reynsluboltunum í KR-b og fyrsta leikhlutanum lauk 30-28, KR-b í vil. Walker var nú þegar búinn að skora 15 stig á fyrstu 10 mínútunum.

Fyrrum úrvalsdeildarleikmaðurinn Walker hóf næsta leikhluta á að skora rakleiðis úr fimmtu þriggja stiga körfunni sinni í leiknum. Áfram hélt reynslan að sýna sig í leiknum, en mulningsvélin hjá KR-b gekk áfram og í stöðunni 52-33 með 5 mínútur eftir af fyrri hálfleik tók Lárus Jónsson þjálfari Breiðabliks leikhlé. Leikgleði Vesturbæjinga var augljós á meðan að Kópavogsdrengirnir virtust vera í miðri úrslitarimmu um úrvalsdeildarsæti og þeir væru hreinlega stressaðir. KR-bingar virtust bara stemmdari fyrir leikinn og Marcus Walker skoraði önnur 15 stig á fyrstu fimm mínútum fjórðungsins. Walker hafði þá klikkað úr tveimur skotum í öllum leiknum, einu vítaskoti og einu þriggja stiga skoti. Fyrri hálfleiknum lauk 62-46, heimamönnum í vil.

Fannar Ólafs lét finna finna fyrir sér á fyrstu mínútu leikhlutans með "And-1" fléttu en þurfti að taka sér hlé eftir stimpingar inni í teig gegn stórum mönnum Breiðabliks. Gestirnir náðu loks að koma muninum undir 10 stig fljótlega eftir það en þá fóru ellilífeyrisþegarnir aftur af stað og komu muninum aftur upp í 16 stig. Áfram tókust liðin á en Blikar virtust aðeins ná sér á strik gegn heimaliðinu. Marcus náði þó að koma muninum í 11 stig á lokasekúndunum fyrir seinasta leikhlutann með flautukörfu. 86-75 fyrir lokafjórðunginn og Walker með 38 stig.

Walker opnaði fjórða leikhlutann eins og hann opnaði annan, með þriggja stiga skoti beint ofan í á fyrstu sekúndunum. Enn héldu þeir grænklæddu áfram að sækja og náðu að koma muninum niður í 7 stig. Þá tóku Benni Gumm, þjálfari KR-b (í þessum leik), og Pavel Ermolinskij, liðstjóri (í þessum leik), leikhlé og vildu ræða málin aðeins við sína menn. Í kjölfar þess leikhlés fóru bæði lið á fulla ferð og munurinn var ýmist meira eða minna en 7 stig. 

Á lokametrunum fóru Breiðabliksmenn að síga fram úr og heldur fór að draga af KR-bingum. Þegar tæpar þrjár mínútur lifðu leiks setti Ragnar Jósef Ragnarsson, leyniskytta Blika, þrist til að jafna stöðuna í 99-99 og allt loft virtist fara úr hinum svart- og hvítklæddu. Breiðablik kláraði 17 stiga áhlaup á næstu tveim mínútum og þar með voru úrslitin ráðin. Heimamenn skoruðu seinasta stigið úr vítaskoti og lokastaðan varð 100-108, Breiðablik í vil.
 

Þáttaskil

Eins og gefur að skilja voru KR-bingar allir aðeins eldri en hinir ungu Blikar og þegar Ragnar Jósef setti þristinn til að jafna leikinn virtust heimamenn springa. Þeir spiluðu frábærar 37 mínútur, en gátu ekki slúttað á seinustu þrem mínútunum.
 

Hetjan

Þrátt fyrir að hafa verið í tapliðinu verður Marcus Walker að fá hetjustimpilinn í kvöld. Hann mætti í kvöld og með hjálp Helga Magg og KR-b þá bauð hann upp á æsispennandi leik sem var frábært áhorf fyrir alla sem að sáu hann. Marcus lauk leik með 42 stig úr 60% skotnýtingu, 5 fráköst, 6 stoðsendingar og 2 stolna bolta.
 

Tölfræðin lýgur ekki

Líkt og leikurinn sjálfur spilaðist þá var þetta hnífjöfn tölfræði að flestu leiti. Þó náðu Blikar að hitta úr aðeins fleiri skotum og tóku fleiri fráköst. Lokanaglinn var hins vegar eins og áður sagði 17 stiga áhlaup Breiðabliks á lokamínútunum til að klára leikinn.
 

Kjarninn

Undirritaður er alveg sannfærður um að þetta var skemmtilegasti leikur vetursins hingað til og þó að KR-b hafi tapað þá tóku þeir vel á efnilegu og góðu liði Blika sem sýndu mikinn karakter með því að klára leikinn vel og koma sér í 8-liða úrslit Maltbikars karla.
 

Tölfræði leiksins
Myndasafn
Viðtöl eftir leikinn:
Marcus Walker: Ég stend og fell með KR
Helgi Magg: Ég var farinn að krampa helvíti mikið þarna undir lokin
Lárus: Þegar hann var seinast að spila á Íslandi þá var ég ennþá að spila
Umfjöllun / Helgi Hrafn Ólafsson
Myndir / Bjarni Antonsson
Fréttir
- Auglýsing -