spot_img
HomeFréttirUmfjöllun: Kristján Andrésson kláraði Hauka með stæl

Umfjöllun: Kristján Andrésson kláraði Hauka með stæl

Það var ekki að sjá að Ísfirðingar hafi eytt meiginparti gærdagsins í bíl á leið til Reykjavíkur þegar að liðið leit við á Ásvöllum og lék við heimamenn í Haukum í Lengjubikarnum. Ísfirðingar gerðu sér lítið fyrir og sigruðu leikinn 76-79 þar sem að Kristján Andrésson steig upp og var hetja Ísfirðinga.
Fyrri hálfleikur var í raun jafn en aldrei spennandi. Það var einhvern veginn lágdeyða yfir öllu í húsinu. Heimamenn voru í raun slakir og hægir, gestirnir virtust þreyttir eftir aksturinn og þeir örfáu áhorfendur sem sáu sér fært að mæta stein þögðu.

KFÍ menn leiddu eftir fyrsta leikhluta með tveimur stigum 16-18 og í hálfleik með einu stigi 34-35. Þrátt fyrir það virtist Haukaliðið líklegra til afreka og má segja að allan fyrri hálfleikinn biðu áhorfendur eftir því að þeir myndi bara skipta um gír og klára málið.

Haukar gerðu akkúrat þetta, þ.e. skiptu um gír og allt fór í gang. Vörn þeirra var þétt og pirraði Ísfirðinga mikið og þeir voru að keyra upp hraðaupphlaup sem að skiluðu þeim auðveldum körfum. Ari Gylfason sem hafði verið einn besti leikmaður KFÍ í leiknum var rekinn af leikvelli fyrir að gefa dómara leiksins tiltal og allt virtist vera Haukaliðinu í hag. Haukar náðu mest 12 stiga mun í leikhlutanum og leiddu með þeim mun fyrir fjórða leikhluta, 63-51.

Haukar héldu áfram að spila þennan sama leik í upphafi fjórða leikhluta en slökuðu svo á klónni og fóru í sama gönguboltan og þeir spiluðu í fyrri hálfleik. Þetta nýttu KFÍ-menn sér og þá sér í lagi Kristján Andrésson sem að steig gjörsamleg upp í fjarveru Ara Gylfasonar og lét þriggja stiga skotin rigna yfir leikmenn Hauka. Kristján skoraði 13 af 16 stigum sínum í fjórða leikhluta og réðu Haukamenn ekkert við hann.

Haukaliðið gerð hvað þeir gátu til að jafna leikinn undir lokinn en það gekk ekki betur en svo að KFÍ stóð uppi sem sigurvegari og eiga heiður skilið fyrir að slaka aldrei á.

Christopher Miller-Williams var atkvæðamestur KFÍ manna með 24 stig og 12 fráköst og Kristján Andrésson var með 16 stig þ.a. fjórar þriggja stiga körfur. Craig Schoen hefur verið öflugri í stigaskorun en hann var í gær en hann var hins vegar með 10 stoðsendingar.

Hjá Haukum var Jovanni Shuler stigahæstur Hauka með 17 stig og 6 stolna bolta og Christopher Smith var með 14 stig og 8 fráköst.

Mynd: Ari Gylfason fékk að yfirgefa leikvöllinn eftir flottan leik. Kristján Andrésson steig upp í hans fjarveru en hann sést í bakgrunni – karfan.is

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -