Njarðvík tók á móti KR í Lengjubikar kvenna í kvöld þar sem heimakonur máttu þola sitt annað tap í keppninni, 57-68. Stigahæst KR-kvenna var Helga Einarsdóttir en hún endaði leikinn með 21 stig, 15 fráköst og 5 stolna bolta. Hjá Njarðvík var Sara Dögg Margeirsdóttir stigahæst með 17 stig og 4 fráköst.
Leikurinn fór frekar hægt af stað og áttu bæði liðin frekar erfitt að koma boltanum ofan í körfuna á fyrstu mínútunum. Um miðjan fyrsta leikhluta var staðan 2-3 fyrir KR og voru bæði lið að reyna að berjast fyrir sínu en mikið af mistökum áttu sér stað á þessum tíma. Leikhlutinn endaði 10-11 fyrir KR þar sem Hafrún Hálfdánardóttir kom KR yfir á lokasekúndu leikhlutans. Í upphafi annars leikhlutans setur Sigrún Ámundardóttir 5 stig í röð fyrir KR og kemur þeim í 10-16. Jafnræði var með liðunum í leikhlutanum og var staðan í hálfleik 22-27 fyrir KR. Stigahæst KR-kvenna var Sigrún Ámundardóttir með 8 stig og þær Helga Einarsdóttir og Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir voru með 6 stig hvor. Hjá Njarðvík var Eyrún Líf Sigurðardóttir komin með 8 stig og Sara Dögg Margeirsdóttir með 6 stig.
Seinni hálfleikur var mun fjörugri heldur en sá fyrri. Hittni liðanna skánaði til muna og mistökunum fór að fækka. KR-konur fóru hægt og rólega að síga framúr og þegar fjórar mínútur voru eftir af þriðja leikhlutanum var KR komið með 15 stiga forystu, 30-45. Á þessum tíma virtist ekkert vera að ganga hjá Njarðvíkurkonum og allt leit út fyrir að KR-konur væru komnar á svakalegt ról. Njarðvíkurkonur neituðu þó að gefast upp og náðu að laga stöðuna fyrir síðasta leikhlutann og var staðan í lok þriðja leikhlutans 40-50 fyrir KR. Þær grænklæddu héldu áfram að minnka muninn í upphafi fjórða leikhlutans með Söru Dögg fremsta í flokki, en hún skellti niður 5 stigum á stuttum tíma og minnkaði muninn enn meira eða í 45-50. Um miðjan leikhlutann setur Sara Dögg risa þrist og staðan orðin 51-54. KR-konur vöknuðu við þetta og juku forystuna aftur. Þær enduðu síðan leikinn með 11 stiga sigri, 57-68.
Helga Einarsdóttir átti frábæran seinni hálfleik og endaði leikinn með 21 stig, 15 fráköst og 5 stoðsendingar. Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir kom sterk inn hjá KR og hefur greinilega ekki gleymt miklu á þessu ári sem hún var fjarverandi. Hún endaði leikinn með 13 stig, 11 fráköst og 3 stolna bolta. Þá var Björg Guðrún Einarsdóttir einnig að spila vel í sínum fyrsta leik fyrir KR og endaði leikinn með 15 stig og 4 fráköst.
Hjá Njarðvík var Sara Dögg Margeirsdóttir með 17 stig (3/4 í þriggja) og 4 fráköst. Eyrún Líf Sigurðardóttir bætti síðan 14 stigum við og 5 stoðsendingum.
Umfjöllun/ [email protected]
Mynd/ [email protected]