Í kvöld mættust KR og Snæfell í fjórðu umferð Domino‘s deild kvenna. Leikið var í DHL-höllinni vestur í bæ. Fyrir leikinn var Snæfell taplaust á toppi deildarinnar með 6 stig en KR sat í öðru sæti með 4 stig.
KR-ingar leiddu nær allan leikinn í kvöld og sigruðu með 72 stigum gegn 69 eftir æsispennandi lokamínútur þar sem brugðið gat til beggja vona.
Gangur leiksins
KR-ingar mættu mjög ákveðnar til leiks og skoruðu fyrstu 6 stig leiksins. Mikil og góð barátta var í varnarleik þeirra og áttu Snæfellskonur erfitt uppdráttar. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 22-11 KR í vil. Sama var upp á teningnum í öðrum leikhluta, KR-konur voru grimmari og leiddu mest allan fjórðunginn með 10-12 stigum. Staðan í hálfleik var 37-30 KR í vil. Stigahæstar í liði KR í fyrri hálfleik voru Kiana Johnson með 10 stig og Orla O‘Reilly með 7 stig. Í liði Snæfells var Katarina Matijevic með 10 stig og Kristen McCarthy með 7 stig.
KR-ingar byrjuðu seinni hálfleikinn betur og náðu mest 13 stiga forystu en Snæfellingar söxuðu hægt og rólega á forskotið og í lok þriðja leikhluta munaði aðeins einu stigi 55-54 KR í vil. Snæfellingar komust svo yfir í fyrsta skipti í leiknum í byrjun fjórða leikhluta 55-57. Jafnræði var með liðunum það sem eftir lifði leiks en KR-ingar voru sterkari á lokasprettinum og sigruðu með 72 stigum gegn 69.
Stigahæstar í liði KR voru þær Kiana Johnson með 15 stig og Orla O‘Reilly með 14 stig. Hjá Snæfelli var Kristen McCarthy með 23 stig og Katarina Matijevic með 19 stig.
Af hverju vann KR
KR-ingar voru bara betri í kvöld. Þær leiddu nánast allan leikinn og áttu sigurinn skilið. Snæfellingar virkuðu værukærar lengi vel og misstu boltann oft klaufalega frá sér. Þær stigu þó upp í seinni hálfleik og náðu að jafna leikinn en náðu ekki að stela sigrinum.
Dómarar leiksins voru þeir Davíð Kristján Hreiðarsson, Aðalsteinn Hrafnkelsson og Gunnar Thor Andresson. Áhorfendur voru 75 talsins.
Myndasafn (Væntanlegt)
Viðtöl:
Umfjöllun og myndir: Þorsteinn Eyþórsson