KR og Grindavík mættust í fjórða leik liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í kvöld. Nú var að duga eða drepast fyrir Grindavík til að halda þessari seríu lifandi. Staðan 2-1 fyrir KR og sagan ekki með Grindvíkingum þetta sinnið þar sem aðeins einu sinni í sögu úrlitakeppninnar hefur heimaliðið náð að snúa seríu við í stöðunni 1-2 undir.
KR-ingar byrjuðu sterkt og náðu að setja ósvöruð 6 stig þar til Grindvíkingar tóku sig til og svöruðu 7-0. Staðan orðin 7-6 og þá hófst leikurinn fyrir alvöru. Grindvíkingar hittu illa í fyrsta hluta en héldu sér þó inni í leiknum með sóknarfráköstum. Skilvirkni beggja liða var frekar slök í fyrsta hluta.
Annar hluti hófst með sprengingu frá Sigurði Þorsteins sem tók sig til að tróð yfir nánast alla KR-vörnina. Þrátt fyrir þessa sterku byrjun þá hitti Grindavík fremur illa utan að velli en aðra sögu var að segja um KR sem skaut 54,5% í tveggja og 42,9% í þriggja. eFG% var 60,8%. Fyrri hálfleik lauk í stöðunni 43-41 fyrir heimamönnum.
Strax í upphafi seinni hálfleiks hertu KR-ingar vörnina og héldu Grindavík í aðeins 16 stigum með 35% sóknarnýtingu og 0,73 stigum per sókn. KR gekk lítið betur að skora. Undirritaður hélt að þetta yrði búið þegar Helgi Magnússon póstaði þétt á Ólaf Ólafs og endaði með því að taka fade-away af vinstri fæti, a’la Dirk Nowitzki. Þar fór þó ekki niður. Jóhanni Ólafs hafði gengið illa að koma boltanum í körfuna, ekki bara í þessum leik heldur leiknum á undan einnig. Hann átti góðan sprett í lok 3. hluta en náði ekki að halda honum lifandi út leikinn.
Þolinmæði Grindvíkinga í sókn í upphafi 4. hluta skilaði þeim mikilvægum körfum. Þeir hertu einnig varnarleikinn í upphafi. Þegar um 5 mínútur voru eftir af leiknum setur Darri Hilmarsson risastóran þrist til að jafna metinn í 71-71. Darri var ekki búinn því hann tók þá að hengja sig eins og rennblautur frakki á Lewis Clinch sem átti sér enga von. Grindvíkingar gerðu sér þetta of erfitt í lokin með langskotum og gleymdu sér ítrekað í vörn þar sem Demond Watt var oft einn á eyðieyju.
KR tryggði sér sigur 79-87 eftir skemmtilegan og spennandi leik. Þeir héldu Grindavík í 0,90 stigum per sókn og í 41,6% sóknarnýtingu. Sjálfir skoruðu þeir 1,06 stig per sókn og nýttu 49,4% sóknir til að skora 1 eða fleiri stig. Grindvíkingar spiluðu oft mjög vel í þessari seríu en áttu lítið í skilvirkasta lið deildarinnar þegar öllu var á botninn hvolft. Lewis Clinch setti 17 stig og gaf 9 stoðsendingar en var fjarri þeirri getu sem þurfti til að draga Grindvíkinga áfram í 5. leikinn. Sigurður Þorsteins bætti við 17 stigum og Jóhann Ólafs var með 16 stig. Ómar Örn átti flottann leik að vanda með 13 stig og 14 fráköst.
Hjá KR Martin Hermannsson með 26 stig, 5 fráköst og 4 stoðsendingar. Martin var einnig valinn besti leikmaður úrslitakeppninnar sem verður gott veganesti fyrir hann til Bandaríkjanna þar sem hann mun halda til náms næsta vetur. Pavel Ermolinskij átti góðan leik með 22 stig 10 fráköst og 6 stoðsendingar. Helgi setti 14 stig og var frábær niðri á blokkinni þar sem hann sótti mörg stigin. Darri Hilmarsson frábær í vörninni og setti mikilvæg stig og skaut 3/3 í þristum.
Til hamingju KR-ingar með Íslandsmeistaratitilinn.
Martin Hermannsson með Íslandsmeistaratitilinn og verðlaunagripinn sem besti leikmaður úrslitanna