spot_img
HomeFréttirUmfjöllun: KR hleypti Skallagrím ekki nærri á lokasprettinum

Umfjöllun: KR hleypti Skallagrím ekki nærri á lokasprettinum

 
Ríkjandi Íslandsmeistarar KR sigruðu Skallagrímsmenn í fyrstu umferð Lengjubikarsins í Borgarnesi í gærkvöld, 82-97. Þurftu Vesturbæingar að leggja til sigursins mikla orku og átak því Borgnesingar mættu dýrvitlausir til leiks frá fyrstu mínútu og ætluðu sér augljóslega að velkja þeim svart-hvítu ærlega undir uggum.
KR-ingar hófu leikinn mun betur og voru, áður en langt um leið, komnir með tíu stiga forystu um miðbik fyrsta leikhluta. Vesturbæingar léku öfluga “þrýstivörn” á heimamenn sem gerði það að verkum að Borgnesingar áttu í stökustu vandræðum með framkvæmd leikkerfa sinna. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 17-33. Upplifun sextán stiga muns hefur því – vafalust – orsakað beyg mikinn í huga þeirra hátt í 300 stuðningsmanna Skallagríms sem mættir voru í stúkuna góðu til að styðja sína menn.
 
Leikmenn Skallagríms voru þó hvergi af baki dottnir og einhver ótti gagnvart Íslandsmeisturunum hvergi tiltækur. Í öðrum leikhluta náðu nefnilega Borgnesingar að þétta vörn sína, knýja fram mikilvæg “varnarstopp” og þannig saxað jafnt og þétt á forskot KR-inga. Taktur leiksins var fljótt á litið afar hraður í leikhlutanum, en það skrifast helst á pressuvörn sem bæði lið framkvæmdu af miklum ákafa. Áhlaup Borgnesinga var það öflugt að munurinn fór minnst í 2 stig, 44-46, þegar 1:27 lifði eftir af fyrri hálfleik. Þeir röndóttu lögðu þó stöðuna áður en flautað var til hálfleiks, 44-50.
 
Þrátt fyrir að KR-ingar hafi byrjað seinni hálfleik af miklu kappi, og þannig náð tíu stiga forystu, 50-60 – skjótt – brugðust heimamenn við með klókri gagnsókn sem breytti stöðunni á einu augabragði í 59-61. Framhleypnir leikmenn Skallagríms, undir lok þriðja leikhluta, náðu þó ekki að halda í við refsiglaða Vesturbæinga sem juku forskot sitt í beinum tengslum við mistök heimamanna. Niðurstaða þriðja leikhluta var af þessum sökum, 63-76 fyrir gestina.
 
Bæði liðin skiptust á að skora nær allan fyrri part fjórða leikhluta sem gerði það að verkum að munurinn virtist lítið breytast og hélst þetta 10-13 stig KR-ingum í vil. Enn virtust þó Borgnesingar eiga enn einn “áhlaups-ás” í ermi sinni, því liðið náði aftur að saxa á forskot þeirra svart-hvítu niður 6 stig, 82-88 þegar 2:10 voru eftir af leiknum. Útlit var því fyrir að æsilegar lokamínútur færu í hönd. Það leyfðu Vesturbæingar þó ekki – í þetta sinn – því líkt og áður í leiknum bitu þeir kappsama Skallagrímsmenn frá sér. Skoruðu röndóttir 9 síðustu stig leiksins. Lokatölur urðu því 82-97.
 
Pálmi þjálfari var ánægður með frammistöðu sinna manna í leiknum, þrátt fyrir tapið. Að hans sögn á liðið enn nokkuð inni. Ekki leyndi Pálmi þeirri skoðun sinni að fráköst KR-inga hafi verið allt allt of mikil svo og að erfitt hafi verið að horfa upp á slaka vítanýtingu sinna manna í leiknum. Ánægðastur var Pálmi þó með framlag “ungu” leikmannana Skallgríms, þeirra Davíðs Guðmundssonar, Birgis Sverrissonar, Davíðs Ásgeirssonar og Sigmars Egilssonar, en sá síðastnefndi bar af í varnarleik Borgnesinga svo eftir var tekið.
 
Hrafn Kristjánsson þjálfari Vesturbæinga var ánægður með sigur síns liðs þrátt fyrir að vera ekki allskostar sáttur með frammistöðu lærisveina sinna. “Ef við leikum svona”, sagði Hrafn, “verður okkur slátrað í deildinni”. Af ummælum Hrafns þjálfari má því álykta að ýmislegt eigi eftir að stilla betur í leik ríkjandi Íslandsmeistara. Verður mánudagsför KR-inga í Borgarnes þar af leiðandi þeim nauðsynlegt spark í rassinn fyrir átökin framundan í Úrvalsdeild og Lengjubikar.
 
Skallagrímsmenn geta borið höfuðið hátt eftir viðureignina og hafa sannað með frammistöðu sinni að þar fer lið sem er til alls líklegt í vetur. Þrátt fyrir hafa gert grátleg mistök á tíðum, þá sýndi liðið mikla þrautseigju og áræðni með áhlaupum sínum og baráttu – og það gagnvart liði sem margir huglægir veðbankar hefðu álitið geta sigrað Borgnesinga með 20-30 stigum. Þess vegna ríkir eftirvænting í Borgarnesi eftir heimsókn næsta Úrvalsdeildarliðs.
 
Ef draga má einhverjar ályktanir af tölfræði leiksins þá vekur strax athygli að sjá að Skallagrímsmenn skripluðu á skötunni á vítalínunni með einungis 50% vítanýtingu, eða 13 stig af 26 mögulegum. Hefði munað um minna á vítasviðinu á mikilvægum augnablikum leiksins fyrir þá gulu og grænu. KR-ingar voru mun drjúgari í fráköstum, hirtu heil 53 stykki, þar af 20 sóknarfráköst, á móti 32 fráköstum heimamanna.
 
Borgnesingar fá nú fáeina daga í hvíld en framundan er heimaleikur í deild gegn liði Hamars frá Hveragerði. Fer leikurinn fram næst komandi föstudag 28 október kl. 19:15.
 
Stigaskor
 
Skallagrímur: Dominique Holmes 24/6 fráköst, Lloyd Harrison 17/7 stoðsendingar, Birgir Þór Sverrisson 12/5 fráköst, Sigurður Þórarinsson 9/4 fráköst, Hörður Helgi Hreiðarsson 8/5 fráköst, Davíð Guðmundsson 8, Hilmar Guðjónsson 2, Davíð Ásgeirsson 2, Þorsteinn Þórarinsson 0, Sigmar Egilsson 0/5 stolnir, Óðinn Guðmundsson 0, Andrés Kristjánsson 0.
 
KR: Finnur Atli Magnusson 27/9 fráköst, Jón Orri Kristjánsson 16/11 fráköst, Kristófer Acox 14/5 fráköst, David Tairu 11, Skarphéðinn Freyr Ingason 11/9 fráköst, Martin Hermannsson 5, Emil Þór Jóhannsson 5, Edward Lee Horton Jr. 4/6 fráköst, Páll Fannar Helgason 2, Björn Kristjánsson 2, Egill Vignisson 0, Oddur Rúnar Kristjánsson 0.
 
Dómarar: Halldór Geir Jensson, Jón Þór Eyþórsson, Ágúst Jensson
 
Umfjöllun: HLH
Fréttir
- Auglýsing -