spot_img
HomeFréttirUmfjöllun: KR gefur toppsætið ekki eftir

Umfjöllun: KR gefur toppsætið ekki eftir

KR situr sem fastast á toppi Iceland Express deildar kvenna eftir nokkuð öruggan og þægilegan sigur á grönnum sínum úr Val, 79-59. KR kynnti til leiks nýjan leikstjórnanda, Erica Prosser, og tókst henni ágætlega til í sínum fyrsta leik og var örugg í sínum aðgerðum þegar KR vann sinn fimmta leik í röð. Valskonur máttu hinsvegar sjá sitt þriðja deildartap í röð.
 
Topplið KR leiddi 19-16 að loknum fyrsta leikhluta en Valskonur voru ferskari þegar honum lauk. Allur ferskleiki var þú úr Hlíðarendakonum í öðrum leikhluta þar sem vörn KR gersamlega slökkti í rauðum og Valur skoraði aðeins fjögur stig þessar tíu mínútur!
 
Hægt en örugglega fór bilið að aukast á milli liðanna, Margrét Kara sýndi nokkrar glæsilegar rispur og var með 12 stig í hálfleik en þær Bryndís, Sigrún og Hafrún börðust einnig vel undir styrkri stjórn nýja leikmannsins Ericu Prosser sem var örugg í sínum aðgerðum í stöðu leikstjórnanda.
 
Margrét Kara var með 12 stig í leikhléi hjá KR en hjá Val var María Ben Erlingsdóttir með 6 stig.
 
Valskonur komu aðeins upplitsdjarfari inn í þriðja leikhluta en KR gerði vel að halda þeim fjarri, Margrét Kara hélt áfram að leiða lið KR og þrátt fyrir svæðisvörn gestanna tókst röndóttum oftar en ekki að finna þokkaleg skotfæri og leiddu því 57-40 fyrir fjórða og síðasta leikhlutann. Valur vann því þriðja leikhluta 19-20 en skelfilegur annar leikhluti gerði þeim erfitt fyrir. Rétt áður en þriðji leikhluti var á enda fékk Margrét Kara Sturludóttir sína fjórðu villu í liði KR og varð eftir það að hafa varann á.
 
Í stöðunni 70-52 voru fjórar og hálf mínúta til leiksloka þegar Margrét Kara fékk sína fimmtu villu en það kom ekki að sök enda Valskonur lítið að bíta frá sér og KR sigldi því örugglega í átt að tveimur stigum, lokatölur 79-59 KR í vil.
 
Niðurstaða: Vantaði allt Malt í Valskonur í dag og KR með fantagóða vörn að vopni vann þægilegan sigur.
 
Fimm leikmenn KR gerðu 11 stig eða meira í leiknum! Margrét Kara var þeira stigahæst með 24 stig, 13 fráköst, 5 stoðsendingar og 5 stolna bolta.
 
Stigaskor:
 
KR: Margrét Kara Sturludóttir 24/13 fráköst/5 stoðsendingar/5 stolnir, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir 15/10 fráköst/5 stoðsendingar, Hafrún Hálfdánardóttir 14/6 stoðsendingar, Erica Prosser 13/4 fráköst/6 stoðsendingar, Bryndís Guðmundsdóttir 11/10 fráköst/7 stoðsendingar, Rannveig Ólafsdóttir 2, Anna María Ævarsdóttir 0, Sólrún Sæmundsdóttir 0, Ragnhildur Arna Kristinsdóttir 0, Hrafnhildur Sif Sævarsdóttir 0/4 fráköst, Helga Hrund Friðriksdóttir 0.
 
Valur: María Ben Erlingsdóttir 13/11 fráköst, Melissa Leichlitner 11/9 fráköst/6 stoðsendingar, Guðbjörg Sverrisdóttir 8/8 fráköst, Unnur Lára Ásgeirsdóttir 7/4 fráköst, Signý Hermannsdóttir 6/7 fráköst/3 varin skot, Kristrún Sigurjónsdóttir 5, Þórunn Bjarnadóttir 4, Berglind Karen Ingvarsdóttir 3, Hallveig Jónsdóttir 2, Ragnheiður Benónísdóttir 0, María Björnsdóttir 0, Súsanna Karlsdóttir 0.
 
Dómarar leiksins: Jóhann Gunnar Guðmundsson og Jakob Árni Ísleifsson
 
Mynd/ Margrét Kara Sturludóttir átti fantagóðan leik með KR í dag. 24 stig, 13, fráköst, 5 stoðsendingar og 5 stolnir boltar.
 
Fréttir
- Auglýsing -