spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaUmfjöllun: King er kóngur kónganna

Umfjöllun: King er kóngur kónganna

Íþrótt ljóssins og lífsins, körfuboltinn, rúllaði af stað í Vesturbænum í kvöld með leik KR og Tindastóls. Barist var um titilinn ,,meistari meistaranna“ en heimamenn eru Íslandsmeistarar síðustu fimm ára, Stólarnir núverandi bikarmeistarar. Bæði liðin hafa misst marga ógnarsterka leikmenn frá sér fyrir þetta tímabil en fengið liðsstyrk á móti úr óvæntum áttum eins og allir vita.

Spádómskúlan: Kúlunni er meinilla við að láta raska ró sinni eftir sumarfríið og spyr hvaða kallar séu í þessum liðum. Hún neitar að leggja metnað í spádóminn og segir með þjósti: ,,KR vinnur þetta eins og alltaf, sirka 97-77“.

Byrjunarlið:

KR: Bjössi, Siggi, Emil, Dino S. og Julian

Stólar: Brilli, King, Danero, Pétur og Dino B.

Gangur leiksins

Þrátt fyrir jafnar tölur fyrstu mínúturnar var strax ljóst að KR-liðið er ekki samt eftir sumarið enda nánast alveg með nýtt lið. Stólarnir virðast hafa fyllt öllu betur í götin fyrir komandi tímabil og með kraftmiklum varnarleik sigu þeir fram úr. Pétur Rúnar var heitur sóknarmegin og virðist ekki þurfa á neinni vorkunn að halda. Pétur endaði fyrsta leikhluta með bakstigs-Pétursþristi og 15-24 forysta Stólanna verðskulduð.

Pétur hélt uppteknum hætti í byrjun annars leikhluta og setti tvo þrista og Brilli hrærði í sári fyrrum liðsfélaga sinna með einum til og staðan allt í einu orðin 17-33 um miðjan leikhlutann. Friðrik Þór kom þá inn á fyrir Stólana og gerði gagn fyrir rangt lið því hann braut og braut og hleypti KR-ingum ítrekað á línuna. Hann fékk eina villu á hverjum 35 sekúndum sem hann spilaði, það hlýtur að vera nálægt metinu. Afleiðingarnar auðveld stig fyrir heimamenn og gestirnir virtust missa svolítið taktinn og einbeitinguna. Martin tók leikhlé þegar 2 mínútur voru eftir af leikhlutanum og staðan 32-42. Það var frábært leikhlé og Stólarnir kveiktu aftur á einbeitingunni og höfðu gott 34-50 forskot í hálfleik.

Julian B. var í raun eini leikmaður KR-liðsins sem lét verulega að sér kveða og hóf seinni hálfleik með 5 snöggum stigum. Hann bauð svo skömmu síðar upp á eina loftfimleikatroðslu og þegar 4 voru eftir af þriðja var staðan 54-63 og öllu skárri bragur á heimamönnum. Maður leiksins án nokkurs vafa, King kóngur tók þá upp á því að fara að fordæmi landa síns og tróð yfir KR-vörnina þrisvar sinnum í röð! Að loknum þriðja leikhluta var sami munur og í hálfleik, staðan 58-74.

Stólarnir tóku svo upp stóra aftökusverðið í byrjun fjórða leikhluta. Pétur, Maður fólksins (Helgi Freyr) og Brilli drekktu heimamönnum með þristasýningu og úrslitin ráðin í stöðunni 60-90. Óþarfi að halda langa ræðu um það formsatriði að klára leikinn en lokaniðurstaðan varð 72-103 stórsigur Tindastóls.

Tölfræðin lýgur ekki

Gestirnir voru betri á öllum sviðum í kvöld. Til að taka eitthvað út töpuðu KR 21 bolta en Stólarnir aðeins 11. Einnig var mikill munur á þriggja stiga skotnýtingunni, 45% á móti 28% skotnýtingu KR-inga.

Kóngurinn

Urald King leit rosalega vel út í kvöld. Hann lauk leik með 27 stig, 8 fráköst, 3 stolnum og 2 vörðum skotum.

Kjarninn

Stólarnir litu bara mjög vel út í kvöld og ekki að sjá að allt væri í kalda koli fyrir norðan eins og sögusagnir hafa verið um. King spilaði eins og hann hafi verið kóngurinn fyrir norðan í mörg ár og Brilli er enn góður í körfubolta þó búningurinn hans sé ekki röndóttur. Pétur var frábær og fleiri settu mark sitt á leikinn enda liðið ágætlega djúpt eins og síðustu ár.

KR-ingar eiga hins vegar talsvert í land. Geitin er annað hvort ekki alveg heil eða átti bara arfaslakan leik og Julian B. eini maðurinn sem sýndi eitthvað í þessum leik. Getur það verið að KR-liðið verði bara í bölvuðu basli í vetur?

Tölfræði leiksins

Myndasafn (Væntanlegt)



Umfjöllun: Kári Viðarsson

Fréttir
- Auglýsing -