Lengjubikarinn hélt áfram í gærkvöldi með fimmta leik KFÍ í keppninni. Leikirnir hafa hingað til reynst verðug verkefni og oft mjög spennandi. Á því varð engin breyting í gær. Haukar voru mættir í Jakann í Skutulsfirði með nýjan þjálfara, hinn geðþekka Pétur Rúðrik Guðmundsson sem tók við liðinu á dögunum og stýrði þeim nú í fyrsta leik. Sumir hafa haldið því fram að þessir leikir skipti litlu máli vegna þess að úrslitin séu löngu ráðin, það var þó alls ekki að sjá í kvöld og virtust Haukar staðráðnir í því að færa þjálfaranum sigur í fyrsta leik.
Hjá Haukum hófu leik þeir; Davíð Páll, Emil, Christopher, Jovanni og Haukur. Byrjunarlið KFÍ skipuðu þeir; Ari G, Chris, Jón Hrafn, Kristján Pétur og Craig. Fyrstu stigin komu eftir 2:14 og einkenndust fyrstu mínutur leiksins af baráttu og eins því að liðin voru að reyna að fá „tilfinningu“ fyrir hvort öðru, ef svo má segja? Haukarnir voru alltaf skrefinu á undan í öllum aðgerðum og leiddu þennan leikhluta frá upphafi. Eftir rúmlega 5 min leik var staðan 7:9 en eftir það voru menn greinilega tilbúnir að skora nokkrar körfur eða að minnsta kosti leggja ekki eins mikla áherslu á varnarleikinn, þannig að staðan í lok leikhlutans hafði breyst verulega og leiddu gestirnir 16:23. Í öðrum leikhluta snérist taflið nokkuð við og komust heimamenn betur inn í leikinn, enda lífsnauðsynlegt fyrir KFÍ að missa Iceland Express lið Hauka ekki of langt fram úr sér. Eftir að hafa leitt leikinn naumlega á 3ja minútna kafla, vann KFÍ þennan leikhluta 26:23 og staðan í hálfleik var 42:46.
Það er sjálfsagt farið að hljóma kunnuglega og sem margtuggið stef en það var einfaldlega þannig að sama baráttan hélt áfram í þriðja leikhluta og greinilegt að sigurviljinn og krafturinn er mikill í liði KFÍ. Þeir leyfðu Haukum ekki að slíta sig lausa og misstu þá aldrei langt fram úr sér, KFÍ sigraði í raun þennan leikhluta líka 21:20 og staðan var orðin 63:66 í lok hans. Gestirnir voru komnir í nokkur villuvandræði, sem átti eftir að reynast þeim dýrkeppt á lokamínutum leiksins. Í fjórða og síðasta leikhluta kom þessi seigla KFÍ liðsins betur í ljós. Þeir virtust eiga nóg eftir og hreinlega blómstruðu á þessum loka 10 mínutum. Náðu þeir aftur forystunni 77:75 þegar um 4:30 min voru til leiksloka og létu hana ekki af hendi eftir það. Um leið virtist allt ganga á afturfótunum hjá Haukum og á innan við 2ja min kafla, misstu Haukar þrjá leikmenn útaf með fimm villur, það voru þeir Christopher Smith (eftir 37:42 min), Emil Barja (eftir 38:06 min) og svo að lokum Helgi Björn Einarsson (eftir 39:14 min). Fór svo að KFÍ sigraði fjórða leikhluta sannfærandi 30:16 og litu þeir mjög sannfærandi út þegar þeir lönduðu góðum 11 stiga sigri (93:82).
Maður leiksins í gær var hinn firna sterki Christopher Miller-Williams sem skoraði 27 stig og reif niður 17 fráköst. Hann lék eins og sá sem valdið hefur á báðum endum vallarins, og virðist hann hafa jákvæð áhrif á leik annarra með smitandi baráttugleði og góðum liðsleik. Ari er að ná fínum stöðugleika í leik sinn og það eru engar fréttir lengur að Craig sé frábær leikstjórnandi – en við látum það samt flakka!
Haukar eru með sterkara lið en ætla mætti ef miðað er við stöðu þeirra í IE deildinni, þar sem þeir deila 10-11 sæti með Tindastól, með 2 stig (1/5). Kannski var þetta ekki óskabyrjun þeirra undir stjórn Péturs Rúðriks, en undirritaður spáir því að þeir eigi eftir að vaxa á næstu vikum og væntanlega rífa sig frá botnsætum deildarinnar. Bestir í liði Hauka voru Jovanni Shuler og Christopher Smith. Þeir Haukur og Davíð voru drjúgir, en almennt virðast íslensku leikmennirnir í Haukum eiga nokkuð „inni“ og munu leika lykilhlutverk í þeim sigrum sem liðið nær í vetur.
Haukar: Jovanni Shuler 28/9 fráköst, Christopher Smith 19/5, Haukur Óskarsson 15, Davíð Páll Hermannsson 13/4 fráköst, Guðmundur Kári Sævarsson 2, Andri Freysson 2, Helgi Björn Einarsson 2/3 fráköst, Emil Barja 1.
KFÍ: Chris Miller-Williams 27/17 fráköst, Craig Schoen 26, Ari Gylfason 25, Sigurður Hafþórsson 7, Kristján Pétur Andrésson 4, Jón Hrafn Baldvinsson 4.
Texti: Helgi Kr. Sigmundsson
Mynd: Halldór Sveinbjörnsson