Bið eftir leik gærkvöldsins hefur verið löng og ströng, enda hafði honum verið ítrekað frestað vegna ófærðar. Ekkert gat þó stöðvað ferð Fjölnis manna vestur á firði í gær og leikmenn fengu loks langþráðan leik. Fjölnir hefur gengið í gegnum nokkrar mannabreytingar en þeir virðast eiga hæfileikaríka unga leikmenn í löngum röðum á hliðarlínunni og alltaf gaman að fylgjast með þessu liði, sem og heiðursmanninum, Örvari Þór Kristjánssyni þjálfara.
Gengi þeirra hefur verið nokkuð rysjótt í vetur, þeir eru þó í 5.-9. sæti IE- deildarinnar með 3 sigra í sex leikjum. Þeir unnu sætan sigur á Íslandsmeisturum KR í IE deildinni fyrir tæplega viku síðan. Fjölnir átti þó enn eftir að vinna sigur í Lengjubikarnum fyrir leikinn í gærkvöldi og voru til alls líklegir fyrir kvöldið.
Byrjunarliðin voru skipuð þeim Hauki, Árna, Clavin, Nathan og Arnþóri Frey úr Fjölni. KFÍ menn byrjuð með þá Jón Hrafn, Ara, Craig, Kristján Pétur og Chris. Fjölnir vann uppkastið og voru mjög ógnandi, vörn KFÍ hélt þó sæmilega og leikurinn var í járnum. Nokkuð um mistök og tapað bolta, en undirrituðum virtist það helst mark um að nokkur spenna væri í loftinu. Fljótlega varð ljóst að bæði lið voru mætt til þess að berjast af fullri hörku. Liðin skiptust á körfum og var leikurinn frekar jafn í fyrsta leikhluta, mesti munur varð 20-24 þegar rúmlega mínuta var eftir og endað svo í stöðunni 26-28. Boðið var upp á sömu háspennuna í öðrum leikhluta og liðin skiptust á að leiða með litlum mun. Í stöðunni 44:44 þegar 1 mín og 22 sek var staðan 44:44, en þá var eins og heimamenn hefðu fundið einhvern aukakraft. Staðan í hálfleik var því 50:44.
KFÍ héldu áfram við sömu iðju í þriðja leikhluta og virtust nokkuð sannfærandi. Fjölnismenn virtust á sama tíma vera að missa trúna á sigur í þessum leik, að minnsta kosti náðu þeir aldrei að saxa á forskot Ísfirðinga og staðan fyrir lokaleikhlutann 76:69, eftir að Craig setti niður laglegt sniðskot rétt fyrir flautuna. Til að gera langa sögu stutta má segja að 4. leikhluti einkenndist af því að KFÍ virtust alltaf eiga svar og voru kraftmeiri en gestirnir að þessu sinni. Forysta KFÍ jókst því jafnt og þétt og lokastaðan 101:83 í sannfærandi heimasigri.
Liðsheild KFÍ var sterk og komin góð samstaða í hópinn. Menn eru greinilega að læra hlutverk sín og hernaðaráætlun Péturs þjálfara gekk upp nær hikstalaust. Craig var öruggur í leikstjórnanda stöðunni og hann er eiginlega þannig eintak að æskilegt væri að fjölfalda manninn! Maður leiksins að þessu sinni var Chris sem var algjör máttarstólpi bæði í sökn og ekki síður vörn.
Um lið Fjölnis er það að segja að enginn má sín við margnum. Þeir hittu ekki á sinn besta leik í gær en eiga hrós fyrir baráttu sem sést t.d. í fráköstum þeirra. Í fljótu bragði er ekki eitthvað eitt sem undirrituðum dettur í hug að gagnrýna en vafalaust mun þessi reynsla verða þeim innblástur fyrir næstu leiki. Kannski var sigurvilji Ísfirðinganna meiri og stærsti munurinn á liðinum í leiknum.
Fjölnir: Nathan Walkup 27/6 fráköst (og 5 tapaðir!), Calvin O´Neal 24/10 fráköst (og 5 tapaðir!), Árni Ragnarsson 12/6 fráköst, Arnþór Freyr Guðmundsson 6/8 fráköst og 5 stoðsendingar, Björgvin H. Ríkharðsson 6/2 stolnir, Haukur Sverrisson 6/7 fráköst, Trausti Eiríksson 2.
KFÍ: Chris Miller-Williams 27/21 fráköst, Craig Schoen 21/9 fráköst, 9 stoð og 3 stolnir, Kristján Pétur Andrésson 19, Ari Gylfason 19/4 fráköst, Jón Hrafn Baldvinsson 7/9 fráköst, Sigurður Hafþórsson 6, Sævar Vignisson 2.
Dómarar: Davíð Tómas Tómasson og Jon Bender.
Mynd og umfjöllun/ Helgi Kr. Sigmundsson