Keflavík tók í kvöld á móti Stjörnunni í oddaleik liðanna í undanúrslitum Domino’s deildar kvenna. Eins og frægt er orðið unnu Stjörnukonur fyrstu tvo leiki einvígisins, en með góðum sigrum í leikjum þrjú og fjögur náði Keflavík að jafna einvígið og knýja fram oddaleik.
Það verður að segjast eins og er að Stjörnukonur virtust enn vera á Reykjanesbrautinni þegar leikurinn hófst, en þeim gekk bölvanlega að ráða við heimakonur á báðum endum vallarins fyrstu mínúturnar. Bryndís Guðmundsdóttir skoraði að vild inni í teig og hinum meginn var sóknarleikur Garðbæinga stirður og hugmyndasnauður. Keflavík hafði 15-6 forystu þegar fjórar mínútur voru liðnar af leiknum, þegar Pétur þjálfari Stjörnunnar tók leikhlé. Í kjölfarið komust gestirnir betur inn í leikinn og hafði Keflavík fjögurra stiga forskot að loknum fyrsta leikhluta, 25-21.
Annar leikhluti var jafn framan af en í stöðunni 27-27 tók Keflavík öll völd á vellinum með góðu 12-2 áhlaupi. Þá virtist engu máli skipta þótt Keflavík hitti ekki úr skotunum sínum, þær tók bara sóknarfrákastið þangað til boltinn rataði ofan í. Keflavík tók hvorki fleiri né færri en 6 sóknarfráköst í þessu áhlaupi sínu, og voru með 9 alls í fyrri hálfleik. Gestirnir náðu örlítið að rétta úr kútnum fyrir hálfleik, og var staðan 41-35 að loknum öðrum fjórðungi.
Stjörnukonur voru aftur ekki lengi að vinna þann mun upp, og voru komnar yfir, 61-62, eftir þrist frá Dani Rodriguez þegar 7 mínútur lifðu af leiknum. Lengra komust gestirnir hins vegar ekki. Heimakonur léku á als oddi síðustu mínúturnar og virtust hitta úr hverju skoti. Svo fór að Keflavík lauk leiknum með 24-7 áhlaupi, og vann leikinn 85-69.
Lykillinn
Óhætt er að segja að liðsmenn Keflavíkur hafi einfaldlega stigið upp þegar á reyndi, en áhlaup þeirra í lokin bar þess merki að þær hefðu engan áhuga á að fara í sumarfrí. Á meðan gekk lítið upp hjá gestunum sem þurftu að horfa á eftir hverju skotinu á fætur öðru rata ofan í hjá Keflavík.
Hetjan
Erfitt er að festa hendi á það hver var best hjá Keflavík, en fjölmargar gera tilkall til þess titils. Bryndís Guðmundsdóttir kom heimakonum á bragðið með 13 stigum í fyrsta leikhluta, Þóranna Kika Hodge Carr tók hvert sóknarfrákastið á fætur öðru í öðrum leikhluta og Birna Valgerður setti niður stig á mikilvægum augnablikum. Sannkallað liðsframlag hjá Keflavík.
Framhaldið
Keflavík eru komnar í úrslitaeinvígi Domino’s deildarinnar þar sem þær mæta Val.
Stjörnukonur eru hins vegar komnar í sumarfrí, en geta þó verið stoltar af sínum árangri í vetur, eftir að liðið komst í bikarúrslit í fyrsta skipti í sögu kvennaliðs Stjörnunnar, auk þess sem árangurinn í deild er sá besti í sögu félagsins, þriðja sæti. Þá vann liðið auk þess fyrsta úrslitakeppnisleikinn í sögu kvennaliðs Stjörnunnar. Það verður spennandi að sjá Stjörnuliðið á næsta tímabili, en þær fara ekki lengra þetta árið.