Gestir kvöldsins á Ísafirði voru lið Keflavíkur, sem hefur átt erfitt uppdráttar í fyrstu leikjum deildarinnar. Það er ekki staða sem leikmenn liðsins eða stuðningsmenn hafa átt að venjast og enginn vafi að hungrið væri til staðar. Það var hins vegar dálítið ruglingslegt fyrir áhorfendur þegar þeir mættu í salinn og sáu tvö lið í KFÍ búningum. Lið Keflavíkur gleymdi búningunum og fékk lánað útileikjasett heimamanna. Óvenjuleg uppákoma, ekki satt?
Byrjunarliðin skipuðu þeir: Jón Hrafn, Mirko Stefán, Chris, BJ og Guðmundur Jóhann frá KFÍ. Frá Keflavík voru mættir þeir: Almar Guðbrandsson, Michael Graion, Darrel Lewis, Kevin Giltner og Valur Valsson.
Heimaliðið var ákveðið í upphafi leiks og skoruðu þeir fyrstu körfurnar. Virtist sem stefndi í þægilegan leik fyrir KFÍ þangað til Kevin Giltner mundaði byssurnar og leiddi sókn gestanna með 10 stigum á 5 min. Staðan varð því 6:16 fyrir Keflavík og vörnin virtist nokkuð þétt á þessum kafla. Mestur varð munurinn 13:24, en Pance náði að klóra í bakkann með þrist rúmlega tveimur mínútum fyrir lok fyrsta leikhluta og var þá kominn með 8 stig. Ekki voru fleiri stig skoruð fyrir leikhlé. Meira jafnræði var með liðunum í öðrum leikhluta sem fór 23:19 fyrir heimamenn og allt í járnum í stöðunni 39:43.
Leikurinn hófst á svipuðum nótum í þriðja leikhluta og liðin skiptust nokkurn vegin á stigum. Staðan var orðin 46:52 eftir 3:41 mín. leik, en þá hitnaði heldur betur Keflavíkur eimreiðin og náðu þeir 13 stiga áhlaupi án þess að heimamenn kæmu nokkrum vörnum við. Staðan var þá orðin 46:65, eftir að Magnús Gunnarsson setti niður sinn annan þrist í leiknum. Útlitið var því ekki gott hjá heimamönnum og tók Pétur þjálfari leikhlé til að ræða við leikmenn KFÍ og sparaði greinilega ekki hvatningarorðin. Tókst þeim að setja í lekann á vörninni og setja niður 3 stig það sem eftir lifði, þannig að staðan var 49:65 fyrir lokaleikhlutann. KFÍ liðið var ekki á þeim buxunum að gefast upp og var Momcilo potturinn og pannan í leik liðsins framan af fjórða leikhluta. Enginn má sín við margnum, enda sá reynslan í Keflavíkurliðinu við Momcilo með samvinnu. Það vantaði sárlega framlag og samspil margra annarra lykilleikmanna KFÍ liðsins á lokakaflanum, enda þótt sumir hafi vissulega ekki dregið af sér við skottilraunir. Keflavík landaði sigri 69:79 og fögnuðu eins og eftir úrslitaleik, sem þetta kannski var?
Rétt er að óska Keflvíkingum til hamingju með sigurinn! Um leikinn er kannski ekki margt annað að segja, en hann var vægast sagt ekki innblásinn, ef svo má að orði komast. Mikið af mistökum og óöryggi á báðum endum vallarins einkenndi leik beggja liða. Óhætt að segja að bæði lið eigi nokkuð inni og enda þótt sigurreifir Keflvíkingar haldi heim á leið, er líklegt að þjálfarar beggja liða muni einbeita sér að því að bæta leik sinna manna á næstunni. Til dæmis var vítanýting Keflavíkur um 61% og 3ja stiga nýting KFÍ 26%, KFÍ tapaði frákasta einvíginu á heimavelli 36:46, og til að ljúka þessari upptalningu þá lét Keflavík stela af sér boltanum 19 sinnum.
KFÍ: Momcilo Latinovic 25, Bradford Harry Spencer 15/5 fráköst, Mirko Stefan Virijevic 11/5, Pance Ilievski 8/4 fráköst, Jón Hrafn Baldvinsson 4/7 fráköst, Óskar Kristjánsson 4, Christopher Miller-Williams 2/5 fráköst, Guðmundur J. Guðmundsson 0, Leó Sigurðsson 0, Haukur Hreinsson 0, Hákon Ari Halldórsson 0.
Keflavík: Kevin Giltner 24/5 fráköst, Michael Graion 18/17 fráköst, Darrel Keith Lewis 15/5 fráköst, Magnús Gunnarsson 9/4 fráköst, Snorri Hrafnkelsson 4, Valur Valsson 4/6 fráköst og 5 stoð, Ragnar Albertsson 3, Almar Guðbrandsson 2/5 fráköst, Hafliði Brynjarsson 0, Sigurður Guðmundsson 0, Andri Daníelsson 0, Andri Skúlason 0.
Dómarar: Björgvin Rúnarsson, Rögnvaldur Hreiðarsson og Jón Bender.
Texti: Helgi Kr. Sigmundsson
Mynd: Halldór Sveinbjörnsson