spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaUmfjöllun: Kærkominn sigur Blika gegn Sköllum

Umfjöllun: Kærkominn sigur Blika gegn Sköllum

Blikar leita enn að sínum fyrsta sigri á tímabilinu og fundu leiðinlega mikið fyrir óréttlæti heimsins í síðasta leik gegn Haukum. Gestirnir úr Nesinu fagra eru öllu kátari og hafa halað inn fjórum stigum af átta mögulegum – nú síðast í geggjuðum leik heima gegn ÍR. Skallar hafa reyndar aldrei unnið Breiðablik í úrvalsdeildinni í Kópavogi en Blikar hafa ekki unnið einn einasta leik í úrvalsdeildinni í mörg ár svo eitthvað hlýtur undan að láta í kvöld.

 

Spádómskúlan: Kúlan þarf djúpan trans til að ráða við þennan leik. Hún sér mikinn hraða og mikið af stigum beggja megin og þykist sjá glitta í gegnum hitamóðu leiksins bros á vörum gestanna frá Borgarnesi að leik loknum. Lokatölur 90-95.

 

Byrjunarlið:

Blikar: Covile, Erlendur, Snorri H., Snorri V., Arnór

Skallar: Jackson, Davíð, Bjöggi, Bjarni, Eyjó

 

Gangur leiksins

Skallar virtust ekki vera með einbeitinguna í lagi í byrjun leiks og varnarleikurinn var hrein hörmung. Blikar pressuðu gestina allan völlinn og gerðu gestunum erfitt fyrir sóknarlega. Finni leist ekkert á blikuna og tók strax leikhlé í stöðunni 9-5. Það virtist ekki hafa tilætluð áhrif og um miðjan leikhlutann leiddu Blikar 20-7. Gestunum til happs hafa Blikar ekki verið þekktir fyrir góðan varnarleik og liðin skiptist á körfum fram að fjórðungaskiptum, staðan 34-23.

 

Leikurinn var í mjög svipuðum takti í öðrum leikhluta. Blikar fengu margar körfur á rýmingarsöluverði þar sem menn mættu ekki til baka. Sóknarleikurinn var öllu skárri hjá gestunum sem hélldu sér þannig inn í leiknum. Að sama skapi má segja að með lítið eitt þéttari varnarleik hefðu heimamenn getað nánast gengið frá leiknum fyrir hálfleik. Eftir góðan þrist frá Árna Elmari gengu Blikar til búningsherbergja með 14 stiga forskot, staðan 53-39.

 

Blikar byrjuðu betur í síðari hálfleik og Snorri Hrafnkels opnaði hann með einum af sínum fjölmörgu þristum á þessu tímabili. Enn syrti í álinn hjá gestunum og ekkert gekk upp hjá þeim. Þegar rúmar 3 mínútur voru liðnar af leikhlutanum var staðan orðin 63-44 og stutt í 20 stiga forskotið sem Pétur talaði um eftir síðasta leik, í hálfkæringi þó! Eitthvað þurfti að breytast hjá Sköllum og þeir smelltu sér í svæðisvörn. Hún var í raun ekkert sérstaklega frábær en það vildi piltunum frá höfuðstað Vesturlands til happs að Blikar snöggkólnuðu fyrir utan þriggja stiga línuna. Synir Egils gengu á lagið og náðu sínum besta kafla í leiknum, settu m.a. 2 snögga þrista og löguðu stöðuna umtalsvert fyrir lokaleikhlutann, staðan 74-65.

 

Það er hjarta og barátta í Skallagrímsliðinu og fjórði leikhluti hefur ekki beint verið uppáhald heimamanna það sem af er tímabili. Þó héngu Blikar á forskotinu eins og hundur á roði fram eftir leikhlutanum. Þegar 1:23 voru eftir af leiknum setti Eyjó þrist fyrir gestina og minnkaði muninn í 86-81 en svo nálægt heimamönnum höfðu Skallar ekki verið síðan í fyrsta leikhluta. Eflaust fór þarna nokkuð um Blika en að þessu sinni héldu þér út og enduðu leikar með 93-83 sigri heimamanna.

 

Menn leiksins

Covile var mjög góður í þessum leik þrátt fyrir ekkert frábæra skotnýtingu. Hann setti 26 stig, tók heil 22 fráköst og gaf 7 stoðsendingar. Þó verður að segja að það er breiddin sem er helsti styrkur Blika og margir lögðu í púkkið. Til að taka einhvern annan út má benda á að Snorri Hrafnkels hefur spilað mjög vel í vetur og í kvöld skilaði hann 16 stigum, 3 fráköstum og voru Blikar +19 með hann á vellinum.

 

Kjarninn

Skallagrímsmenn hafa á að skipa skemmtilegu og ungu liði og margir heimamenn fá að láta ljós sitt skína. Ef liðið nær að finna svör varnarlega verður það skeinuhætt enda hefur sóknarleikurinn verið prýðilegur hingað til. Fjögur stig eftir fimm leiki er alveg ásættanlegt hjá nýliðunum þó menn vilji auðvitað alltaf meira eins og Finnur nefndi í viðtali eftir leikinn.

 

Kærkominn var þessi sigur fyrir Blika. Nú eru þeir orðnir hættulegir, þeir hafa áttað sig á að það er ennþá skemmtilegra að spila körfubolta ef maður vinnur. Og það geta þeir vel gert. Það verður mjög spennandi að fylgjast með þeim í framhaldinu og allt tal um að þeir muni örugglega falla og vinna kannski 2-3 leiki í vetur er mesta bull sem undirritaður hefur heyrt.

 

Tölfræði leiks

Myndasafn

 

Umfjöllun / Kári Viðarsson

Myndir / Bjarni Antonsson

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Fréttir
- Auglýsing -