spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaUmfjöllun: Jeb Ivey reið baggamuninn í Hellinum

Umfjöllun: Jeb Ivey reið baggamuninn í Hellinum

Njarðvík vann góðan útisigur á ÍR í tíundu umferð Dominos deildar karla. Leikurinn var í járnum framan af en Njarðvík með Jeb Ivey í broddi fylkingar sigu framúr í lokin og unnu 88-94 sigur.

Langur leikur

Mikið var um stopp og slíkt í leiknum sem gerði það að verkum að áhorfendur í Hellinum misstu algjörlega af Landanum í kvöld. Leikurinn tók nærri tvo tíma í spilun en dæmdar voru 48 villur í honum. Mikill hiti og einfaldlega væl var á leikmönnum, sérstaklega í fyrri hálfleik sem hægði einnig á leiknum.

ÍR-ingar seigir

Njarðvík virtist alltaf vera líklegra til að vinna en ÍR gerði heldur betur atlögur að sigrinum og áttu heilt yfir fínan leik. Borce og liðið er alveg ótrúlega gott að spila á sínum styrkleikum og það sem meira er að draga andstæðinga sína á sama plan. ÍR tókst framan af að éta vel af skotklukkunni og “grinda” vel en að lokum voru það aðrir þættir vógu þungt í lokin.

Gæði og breidd gerðu gæfumuninn

Þegar á hólminn var komið höfðu Njarðvíkingar einfaldlega yfir meiri gæðum og breidd að ráða í lokin. ÍR spilaði einungis á sjö leikmönnum en í samtali við Körfuna sagði Borce að bæði Sigurkarl og Justin hefðu meiðst á síðustu dögum og því ekki heilir. Njarðvík átti meira eftir af tanknum og framkvæmdu lokasóknir sínar betur.

Jeb Ivey steig upp

Leikstjórnandinn reynslumikli var með 11 stig og fjórar stoðsendingar í lokafjórðungnum en hann hafði ekki gert mikið sóknarlega fram að því. Ivey steig svo sannarlega upp og sótti þennan sigur að lokum með reynslu sinni og gæðum.

Orðræða úr stúkunni

Það var ekki mikill sunnudagsmessubragur í stúkunni í kvöld, enda væri það ósanngjörn krafa. Fínasta mæting var í Seljaskóla og hafa ÍR-ingar gert ótrúlega vel í umgjörð sinni í kringum leikina. Stuðningsmenn mættu þó vanda orðræðu sína örlítið en hróp líkt og „vangefinn“, „þroskaheftur“ sem var beint að dómurum og andstæðingum í kvöld eru í besta falli ömurleg. Ástríðan fyrir leiknum má ekki hverfa úr stúkunni en það er þó eðlileg krafa að orð líkt og þessum verði útrýmt þaðan, helst fyrir nokkrum árum.

Tölfræði leiksins

Myndasafn

Viðtöl

Fréttir
- Auglýsing -