Þetta er án efa leikurinn sem Snæfell hefur beðið eftir lengi. Þeir horfa væntanlega á þennan leik sem fyrsta sigurleikinn á tímabilinu. Sindramenn fóru með sigur að hólmi í síðasta leik liðanna en þá vantaði marga mikilvæga leikmenn í lið Snæfells.
Gangur leiksins
Heimamenn í Snæfell byrjuðu af miklum krafti og voru Domo og Ísak Örn öflugir sóknarlega. Snæfell keyrðu á Sindra, sem virtust þungir, og uppskáru margar villur á Sindramenn í byrjun leiks. Heimamenn voru búnir að fá 12 vítaskot á fyrstu 6 mínútum leiksins og hitta úr 10. Sindramenn voru í basli sóknarlega og komnir með fjóra tapaða bolta eftir 6 mínútur. Sindri lokaði leikhlutanum með góðri vörn og fínni sókn og náðu fínu forskoti heimamanna niður í sex stig áður en leikhlutinn kláraðist.
Annar leikhluti byrjaði betur fyrir gestina og var leikurinn orðinn jafn þegar tvær og hálf mínúta liðu af öðrum leikhluta. Sindramenn gerðu ser lítið fyrir og unnu leikhlutann með 10 stigum. Vörnin var frábær hjá þeim á meðan hittni heimamanna var afleidd í leikhlutanum.
Hálfleiksræðan hjá Vladimir hefur virkað á heimamenn og til að hafa langa sögu stutta þá má segja að Snæfell hafi kjöldregið gestina frá Höfn í leikhlutanum og náðu 10 stiga forskoti í lok þriðja leikhlutans.
Síðasti leikhlutinn var í járnum og náðu gestirnir ekki að saxa á forskot heimamanna. Fyrsti sigur Snæfell orðinn að veruleika og vonandi ekki sá síðasti. Ungu strákarnir spiluðu virkilega vel og verður að taka þá Ísak Örn og Aron Inga út fyrir mengið. Þeir spiluðu frábærlega og voru eins og þeir best geta orðið á löngum köflum leiksins. Frábært fyrir þessa ungu stráka að fá tækifæri til að spila mikilvægar mínútur vikulega.
Helstu punktar
- Darrell Flake spilaði 40 mínútur
- Ísak Örn (16 ára) skoraði 23 stig 7/10 í tveggja
- Dominykas var frábær í leiknum með 36 stig
- Snæfell töpuðu 8 boltum á móti 17 hjá Sindra
- sex leikmenn Sindra skoruðu 10 eða meira
- Liðin eru nú jöfn að stigum í 1. deild
Leikurinn á Snæfell TV
Umfjöllun / Gunnlaugur Smárason
Myndir / Sumarliði Ásgeirsson