spot_img
HomeFréttirUmfjöllun: ÍR með sigur eftir hörkuleik framan af

Umfjöllun: ÍR með sigur eftir hörkuleik framan af

ÍR fengu Ármenninga í heimsókn í Hertz-hellinn eftir vægast sagt strembna leikjarunu undanfarna 11 daga. Seinast þegar þessi lið mættust í Hellinum unnu ÍR-ingar á flautukörfu í framlengingu og ljóst að von væri á jöfnum og spennandi leik. Eftir miklar sveiflur í báðar áttir stóðu ÍR-ingar uppi sem sigurvegarar eftir góðan leik, 66-59.
 

Gangur leiksins

Liðin byrjuðu á rólegu nótunum, en hvorugt þeirra var að hitta sérlega vel í fyrstu. Leikhlutinn einkenndist af því að bæði lið gátu ekki passað vel upp á boltann og Ármann steig ÍR ekki nægilega vel út sem varð til þess að meirihluti stiga heimastúlkna komu úr sóknarfráköstum. Það var nokkuð jafnt á liðunum þegar leikhlutanum lauk, 9-10 fyrir gestunum.

Ármann fóru að spila ágengari vörn í öðrum leikhlutanum og uppskáru mörg léleg skot hjá ÍR og fleiri varnarfráköst. Sóknarmegin voru þær grimmar að sækja á körfuna og áttu ekki í miklum erfiðleikum með að brjóta pressu sem ÍR setti upp í miðjum leikhlutanum. Gestirnir úr Laugardalnum uppskáru 10 fiskaðar villur í leikhlutanum og fengu 15 vítaskot sem að þær nýttu sæmilega (10 vítaskot hitt, 66.7% nýting). Heimalingarnir gátu lagað stöðuna aðeins með nokkrum góðum skotum í lok fyrri hálfleiks. Staðan var orðin 23-31 þegar liðin héldu í búningsklefann í hálfleikshléinu og Ármenningar eygðu möguleika á sínum fyrsta sigri.

ÍR breyttu pressunni hjá sér fyrir seinni hálfleikinn og fóru að tvídekka kantana þegar þær bláklæddu komu upp með boltann. Ármannsstelpurnar hafa komið heldur afslappaður úr hléinu því að þær fóru að tapa ansi mörgum boltum og tóku ekki mikið af góðum skotum. ÍR-ingar gengu á lagið og áttu sinn besta leikhluta, en þær voru fjórum framlagsstigum frá því í leikhlutanum að jafna framlag Ármenninga í öllum leiknum. Þær skoruðu 29 gegn 11 stigum Ármanns og staðan fyrir lokafjórðunginn var skyndilega orðin 52-42, ÍR í vil. Vægast sagt viðsnúningur.

Heimaliðið hélt áfram að herja á Ármann og komu muninum upp í 16 stig áður en þær virtust slaka aðeins á í sömu andrá og Ármenningar tóku smá áhlaup til að laga stöðuna. Leiknum lauk á endanum með sigri ÍR, 66-59.
 

Þáttaskil

ÍR virtust eitthvað vanstilltar í fyrri hálfleik en gerðu nokkrar lagfæringar í hálfleik og að sögn nokkurra leikmanna breyttu þær aðallega hugarfarinu. Það hefur skilað sér þar sem þær skoruðu meira á fyrstu 10 mínútum seinni hálfleiks en á öllum 20 mínútum fyrri hálfleiksins. Allt virtist ganga upp hjá þeim og þær settu met hjá sér í stigaskori í þessum leikhluta (29 stig), en hæsta stigaskor þeirra í stökum leikhluta áður var 23 stig (fyrsti leikhluti í heimaleik gegn Grindavík 14. október).
 

Frammistaða leiksins hjá báðum liðum

Hlín Sveinsdóttir átti góðan leik fyrir heimastúlkur í dag, en hún var funheit í skotum og hitti mjög vel frá þriggja stiga línunni, en hún setti þrjá þrista í fimm tilraunum (60% þriggja stiga nýting). Hún lauk leik með 14 stig, eitt frákast, tvær stoðsendingar, einn stuld og eitt varið skot. Hún var framlagshæst í liðinu sínu með 15 framlagspunkta. Í Ármanni átti Stefanía Ósk Ólafsdóttir flotta innkomu af bekknum, en hún skoraði 18 stig, tók 7 fráköst, stal þremur boltum og varði eitt skot. Hún var framlagshæst í sínu liði með 13 framlagspunkta.
 

Tölfræðin lýgur ekki

ÍR-stelpur spiluðu betur saman í leiknum og nýttu skotin betur, en þær gáfu 17 stoðsendingar gegn 9 stoðsendingum hjá Ármanni og hittu betur í tveggja stiga skotum (41.7% vs. 32.7%), þristum (38.5% vs. 23.1%) og vítaskotum (64.7% vs. 62.9%). Gestirnir náðu að halda sér inni í leiknum með því að sækja miklu fleiri villur sem leiddi af sér tvöfalt fleiri vítaskot fyrir þær (35 vítaskot vs. 17 hjá ÍR).
 

Kjarninn

Þá er erfið leikjahrina búin hjá ÍR, en á seinustu 11 dögum fyrir leikinn höfðu heimastúlkur spilað fjóra aðra leiki. Það verður að teljast gott að geta mætt vel stemmdar í fimmta leikinn og sækja sigur. Ármann hljóta að vera drullusvekktar eftir leikinn, en þær voru í góðu færi á að sigra sinn fyrsta leik í kvöld. Þær verða þá bara að læra af þessum leik og mæta beittari í þann næsta.
 

Tölfræði leiksins

Viðtöl eftir leikinn:

"Hættum að spila eins og tussur í seinni hálfleik."
"Vorum að spila virkilega vel í fyrri hálfleik."

Umfjöllun og viðtöl / Helgi Hrafn Ólafsson

Fréttir
- Auglýsing -