spot_img
HomeNeðri deildir2. deild karlaUmfjöllun: ÍR (b) tók Fjölni (b) í hörkuleik

Umfjöllun: ÍR (b) tók Fjölni (b) í hörkuleik

ÍR b heimsótti Fjölni b í Dalhús á sunnudaginn í leik sem verður endurtekinn milli A-liðanna á miðvikudaginn næstkomandi í Hertz-hellinum. Gestirnir úr Breiðholtinu höfðu betur eftir að hafa tekið forystuna snemma í leiknum og náðu að bægja heimamönnum frá sér allan leikinn. Leikurinn fór að lokum 72-79.

Fjölnir b var fyrir viðureignina efstir í deildinni með fimm sigra og engin töp á meðan að ÍR b hafði unnið þrjá leiki en tapað gegn Njarðvík b og Stál-úlfi.

Breiðhyltingar byrjuðu leikinn betur og höfðu fljótlega náð tíu stiga forystu. Fjölnismenn örvæntu þó ekki og náðu að vinna upp muninn aðeins svo að staðan eftir fyrsta leikhluta var 16-22, ÍR b í vil.

Gulklæddu Grafarvogsdrengirnir gátu í næstu tveim leikhlutum (2. og 3.) mjatlað niður forystuna hjá ÍR-ingum svo að þegar 10 mínútur lifðu leiks var staðan 56-57.

Þjálfari ÍR b, Pance Ilievski (bróðir Borche Ilievski), henti þá í svæðisvörn í fjórða leikhluta sem að virtist slá Fjölni alveg gjörsamlega út af laginu. ÍR b landaði því sigri eins og áður sagði; 72-79.

Stigahæstu menn leiksins hjá ÍR b voru Tómas Aron Viggóson með 20 stig, Dzemal Licina með 19 stig og Jón Orri Kristinsson með 14 stig. Hjá Fjölni b var Daníel Freyr Friðriksson með 24 stig sem skemmtilegt nokk er sama tala og treyjunúmerið hans í leiknum.

Fréttir
- Auglýsing -