spot_img
HomeFréttirUmfjöllun: Hver vill ekki sjá það?!

Umfjöllun: Hver vill ekki sjá það?!

Kiddi Gun talaði um einstakt afrek Grindvíkinga í leik þrjú í Vesturbænum er þeir tryggðu öllum körfuboltaaðdáendum til mikillar gleði, nema KR-ingum, fjórða leikinn. Hversu mikið afrek það yrði hjá gulum að tryggja sér/okkur oddaleik skal ósagt látið en ljóst að röndóttir gestirnir hafa gaman af því að lyfta bikurum á útivöllum. Hvað sem því líður var ekki annað að gera en að leggja spákúluna til hliðar og einfaldlega njóta.

 

Þáttaskil:
Það var algerlega sturluð stemmning í Röstinni í kvöld! Leikmenn Grindvíkinga voru greinilega í réttri stemmningu og einkum Dagur Kár byrjaði vel sóknarlega. Pavel kom samt sem áður gestunum yfir seint í fyrsta leikhluta 11-12 með þristi en líklega grunaði fáum að það yrði í síðasta skipti í leiknum sem meistararnir væru yfir í leiknum! Það var svo Dagur Kár sem setti þrist 10 mínútum síðar og kom heimamönnum í 36-26 – allt tryllt á pöllunum og Grindvíkingar að sýna að þeir höfðu bullandi trú á verkefninu! 

42-33 forskot heimamanna í hálfleik er auðvitað ekki mikið forskot og gestirnir byrjuðu af krafti. Jón Arnór var áberandi í þessum leikhluta og sóknin hjá KR var öllu liprari. Um miðjan leikhlutann var leikurinn orðinn jafn, 50-50 og það mátti finna fyrir smá stressi í heimamönnum. Það var mikilvægt fyrir þá að hleypa gestunum þó ekki lengra og leiddu 54-50 fyrir lokaátökin.

Það var í raun algert sturlunarástand í Röstinni í fjórða leikhluta! Það tók liðin eina og hálfa mínútu að skora og það var Ólafsson Þorleifur sem var þar á ferðinni með þrist – 57-50  og viðbrögðin í húsinu voru ólýsanleg! Um miðjan leikhlutann var staðan 60-56 og allt í járnum. En þá var komið að þætti Lewis Clinch! Hann er alger galdramaður og skoraði 8 stig á skömmum tíma og allt í einu leiddu heimamenn 73-59 og aðeins um 3 mínútur eftir. Grindvíkingar þorðu ekki að fagna alveg strax en þrátt fyrir öfluga brúarsmiði röndóttra voru úrslitin ráðin og boðið var upp á nákvæmlega eina ruslamínútu í lokin. Lokatölur 79-66 og geggjaður sigur Grindvíkinga staðreynd!    

Tölfræðin lýgur ekki:
Í svona leikjum er það kannski hjartalagið sem mestu skiptir og það er nákvæmlega ekkert að því hjá Ólafssonum og félögum. Benda má þó á að tveggja stiga nýting KR-inga var ekki mjög glæsileg eða 38%. 

Hetjurnar:
Lewis Clinch átti óneitanlega mikilvægustu körfur leiksins en það er samt ómögulegt að taka það eingöngu fyrir hér. Heimamenn fengu framlag frá meira og minna öllum – ekki bara í stigum heldur var baráttan algerlega til fyrirmyndar. 

Kjarninn:
KR-ingar hafa verið ólíkir sjálfum sér í síðustu leikjum. Darri og Pavel hafa verið afskaplega illa tengdir svo eitthvað sé nefnt. Liðið reynir mikið að nýta sér hæðarmuninn og komast að körfunni en það virðist á köflum koma niður á flæði sóknarleiksins. Ljóst er að KR-ingar eiga mikið inni en nú er staðan sú að liðið getur ekki beðið neitt með að taka út!

Grindvíkingar hafa komið mörgum á óvart í þessari seríu. Undirritaður ætlar ekki að þykjast hafa séð það fyrir að þeir myndu jafna metin og tryggja sér oddaleik en spyr ,,Hver vill ekki sjá það?“ eins og sagði á einu af skiltum Grindjána í stúkunni. 

Þú vilt örugglega sjá það, jafnvel þó þú sért KR-ingur og nú er bara að bíða eftir sunnudeginum!

Texti: Kári Viðarsson

Myndasafn: Skúli B. Sig.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -