Snæfell nældi sér í tvö stig þegar liðið heimsótti nýliða Vals í Iceland Express deild kvenna í kvöld. Lokatölur að Hlíðarenda voru 70-79 Snæfell í vil. Hannes Birgir Hjálmarsson fylgdist með leiknum að Hlíðarenda í kvöld:
Valur skorar fyrstu körfuna en leikmenn Snæfells virka öruggari í upphafi leiksins og skora næstu 9 stig og Ágúst Björgvinsson tekur leikhlé strax eftir 2 mínútur. Valsliðið kemur ákveðið úr leikhlénu og skorar þrjár körfur í röð (staðan 8-9). Liðin skiptast á körfum næstu mínútur og staðan 12-13 um miðjan fjórðunginn. Bæði lið reyna að keyra hraðan upp í leiknum en Snæfell er alltaf aðeins á undan og kemst 8 stigum yfir 14-22 þegar 3 mínútur eru eftir af fjórðungnum. Valsliðið átti góðan kafla og komst í 19-22 þegar mínúta er eftir en Snæfell skoraði næstu 6 stig og leiða 19-28 eftir 10 mínútur. Melissa Leichlitner er stigahæst hjá Val með 8 stig en Hildur Kjartansdóttir er með 8 hjá Snæfelli.
Berglind Ingvarsdóttir skorar fyrstu körfu annars fjórðungs er hún setur þrist eftir rúma mínútu en Valsliðið byrjar fjórðunginn á að spila hörku vörn. Meiri hraði er kominn í sóknarleik Vals sem skorar fyrstu 5 stig fjórðungsins og það er ekki fyrr en eftir þrjár og hálfa mínútu sem Snæfell skorar fyrsta stigið þegar Berglind skorar úr einu víti og staðan 24-29. Bæði lið klúðra upplögðum færum á víxl þangað til Hildur Sigurðardóttir skorar tvær körfur í röð og Sara Mjöll Magnúsdóttir bætir einni við og kemur Snæfelli í 24-35 og rúmar 4 mínútur eftir til hálfleiks. Liðin skiptast á körfum og Snæfell alltaf yfir. Þegar 20 sekúndur eru til hálfleiks fá Valskonur boltann undir eigin körfu og Ágúst þjálfari Vals tekur leikhlé en Valskonur ná ekki að nýta tímann til að skora og staðan því 32-39 fyrir Snæfell í hálfleik.
Melissa skorar fyrstu körfu seinni hálfleiks fyrir Val eftir gegnumbrot en Hildur Sigurðar svarar að bragði fyrir Snæfell. Talsverður hraði er á leiknum og liðin skiptast á að skora og Snæfell enn í bílstjórasætinu staðan 40-49 eftir þrjár mínútur og Kristrún Sigurjóns (15 stig) hjá Val og Hildur Sigurðardóttir (14 stig) hjá Snæfelli eru að draga vagninn fyrir sín lið. Staðan um miðjan fjórðunginn 43-53 fyrir Snæfell. Valsliðið tekur smá kipp með Kristrúnu í fararbroddi sem skorar nánast að vild og er komin með 19 stig þegar 3 mínútur eru eftir og staðan orðin 49-55. Ingi Þór þjálfari Snæfells tekur leikhlé þegar 7 sekúndur eru eftir af fjórðungnum og Snæfell með knöttinn undir körfu Vals í stöðunni 50-57. Kieraah Marlow hjá Snæfelli fær boltann og reynir að hnoðast fram hjá Signýju Hermannsdóttur sem blokkar skottilraunina og leikhlutanum lýkur. Jafn leikhluti þar sem bæði lið berjast á fullu en ná ekki að hrista af sér andstæðinginn.
Hildur Sig. skorar í fyrstu sókn fyrir Snæfell í fjórða leikhluta og nafna hennar í þeirri næstu áður en Signý Hermannsdóttir skorar fyrir Val. Hildur Sig. er óstöðvandi og skorar enn efir gegnumbrot og kemur Snæfelli aftur 11 stigum yfir þegar 1:30 eru liðnar af fjórðungnum. Valur tekur leikhlé og skorar næstu 5 stig, Berglind með þrist og Melissa með tvö víti. Kieraah fær dæmda á sig sína fjórðu villu þegar 7 mínútur eru eftir af leiknum sem gæti haft áhrif á leikinn. Valsliði spila ákveðið svæðisvörn og nær að minnka muninn í 8 stig að nýju og Ingi Þór tekur leikhlé. Kieraah sest á bekkinn og Valsliðið stelur boltanum í tvígang og minnkar muninn í 4 stig 63-67. Snæfell skorar næstu 4 stig en María Ben setur sniðskot og munurinn 6 stig 65-71 þegar 2:51 eru eftir af leiknum. Kieraah kemur aftur inná og skorar strax úr sniðskoti 8 stiga munur og 2:30 eftir. Valur á skotrétt og Berglind Ingvarsdóttir fer á vítalínu eftir að nafna hennar í Snæfellsliðinu brýtur á henni og setur bæði vítin niður. Sex stiga munur Snæfelli í vil og Melissa klikkar á stuttu stökkskoti eftir að Valsvörnin náði að stela boltanum. Valsliðið brýtur nokkrum sinnum af sér og Hildur Sigurðar skorar úr tveimur vítum þegar 47 sekúndur eru eftir og kemur Snæfelli 8 stigum yfir á ný. Liðin skiptust síðan á að skora af vítalínunni og Snæfell hefur sigur 70-79.
Það var svolítill haustbragur af þessum leik, bæði lið gerðu sig sek um klaufaleg mistök á köflum en fyrsti leikhlutinn gerði í raun út um leikinn fyrir Valsliðið þegar Snæfell skoraði 28 stig gegn 19 stigum Vals. Valsliðið var alltaf að elta og náði aldrei að komast yfir í leiknum og sanngjarn sigur Snæfells með Hildi Sigurðardóttur sem var að öðrum ólöstuðum besti leikmaður leiksins var staðreynd.
Stigaskor:
Valur: Kristrún Sigurjónsdóttir 20/5 fráköst, Melissa Leichlitner 17, María Ben Erlingsdóttir 15/5 fráköst, Berglind Karen Ingvarsdóttir 8, Signý Hermannsdóttir 6/6 fráköst, Þórunn Bjarnadóttir 2/10 fráköst, Guðbjörg Sverrisdóttir 2/4 fráköst, Unnur Lára Ásgeirsdóttir 0, Ragnheiður Benónísdóttir 0, Hallveig Jónsdóttir 0, Brynja Pálína Sigurgeirsdóttir 0, Adda María Óttarsdóttir 0.
Snæfell: Hildur Sigurdardottir 24/9 fráköst, Hildur Björg Kjartansdóttir 16/6 fráköst, Kieraah Marlow Antonsdóttir 16, Helga Hjördís Björgvinsdóttir 8/8 fráköst, Berglind Gunnarsdóttir 7, Alda Leif Jónsdóttir 4/8 fráköst, Ellen Alfa Högnadóttir 2, Sara Mjöll Magnúsdóttir 2, Aníta Sæþórsdóttir 0.
Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Davíð Tómas Tómasson
Umfjöllun: Hannes Birgir Hjálmarsson