Haukar tóku á móti mögulegum andstæðinguum sínum í undanúrslitunum í dag á Asvöllum. Ef að Skallagrímur ynnu myndu þær tryggja sig inn í úrslitakeppnina og vita það að þær gætu unnið Haukastelpur í heimavellinum þeirra. Í svefilukenndum leik sem fór í framlengingu unnu Haukar að lokum en Skallagrímur komst hins vegar í úrslitakeppnina vegna útkomu annars leiks í deildarkeppninni.
Gangur leiksins
Skallagrímur byrjaði leikinn betur og virtist sem að Carmen Tyson-Thomas væri staðráðin í að koma liðinu sínu í úrslitakeppni úrvalsdeildar kvenna. Hún skoraði 12 stig í fyrsta leikhluta, tók 9 fráköst og gerði Haukum mjög erfitt fyrir framan af. Eftir fyrsta leikhluta var staðan 16-22 fyrir Skallagrím og útlit fyrir að gestirnir hefðu tögl og höld í leiknum.
Haukar vöknuðu aðeins til lífsins eftir því sem að leið á annan leikhlutann og gátu aðeins klórað í bakkan eftir slappa byrjun. Skallagrímur voru hins vegar áfram að taka sóknarfráköst og voru duglegar að halda deildarmeisturunum frá sér. Þá náðu Haukar hins vegar að komast aðeins nær Skallagrími og staðan var 36-40 í hálfleik.
Í upphafi seinni hálfleiks voru Haukastúlkur áfram að nýta færin illa og það var sem þær gætu bara ekki fundið körfuna í fyrstu. Það breyttist þó fljótlega með þristi Þóru Kristínar úr horninu sem virtist opna fyrir flóðgáttirnar hjá þeim og eftir sex mínútur höfðu Hafnfirðingar jafnað stöðuna gegn Borgarnesi og komust yfir í fyrsta sinn í leiknum. Það varði ekki lengi og liðin tóku að skiptast á forystunni. Með góðu spili gátu þær hvítklæddu komist fram úr á lokametrum þriðja og staðan var 56-55 þegar liðin héldu inn í fjórða leikhlutann.
Skallagrímur komst aftur yfir í fjórða leikhluta með áframhaldandi sóknartilburðum Carmen og tveimur þristum hjá Sigrúnu Sjöfn í miðjum leikhlutanum til að koma Skallagrími 6 stigum yfir Hauka. Haukar hættu hins vegar ekki og voru duglegar að refsa mistökum Skallagríms með hraðaupphlaupum og góðum sóknum. Whitney Frazier og Helena reyndust happadrjúgar undir lokin og jöfnuðu stöðuna í 76-76 þegar 23.9 sekúndur voru eftir af leiknum. Gestirnir fengu lokasóknina og bæði Carmen og Sigrún Sjöfn fengu tækifæri til að klára leikinn en gátu ekki sett niður skotin sín. Leikurinn fór því í framlengingu.
Áður en framlengingin hófst komust einhverjir Borgnesingar í stúkunni að því að Skallagrímur væri komið í undanúrslitin og gáfu sér smá móment til að klappa og fagna því. Þær grænklæddu virtust líka aðeins léttari í bragði í upphafi framlengingarinnar en það breyttist fljótt. Haukar minntu á af hverju þær væru deildarmeistarar og með góðum lokaspretti náðu þær að innsigla fimm stiga sigur, 87-82.
Þáttaskil
Þáttaskilin urðu þegar að liðin fóru inn í framlenginguna og ljóst var að Skallagrímur kæmist í úrslitakeppnina. Þær slökuðu þá eitthvað aðeins á, hvort sem það var ómeðvitað eða ekki, og Haukastelpur gátu stigið aðeins á bensíngjöfina og gert út um leikinn.
Tölfræðin lýgur ekki
Sóknarfráköst Skallagríms voru mjög mikilvæg fyrir Skallagrím í dag, enda skoruðu þær 35 stig úr 28 sóknarfráköstum í leikjunum. Þær gul- og grænklæddu fengu 17 fleiri skot í leiknum en gátu samt ekki nýtt skotin jafn vel og Haukastelpur, sem hittu úr 38% skota sinna utan af velli og úr 89% vítaskota sinna, unnu þrátt fyrir að þær töpuðu frákastabaráttunni með 19 fráköstum.
Hetjan
Hetjur kvöldsins voru þær Helena Sverrisdóttir og Whitney Frazier, en þær skiptust á að halda Haukum í leiknum á köflunum þar sem lítið virtist ganga hjá heimamönnum. Helena hlóð í enn aðra þrefalda tvennu með 23 stigum, 12 fráköstum og 11 stoðsendingum og endaði með 37 framlagsstig í leiknum. Whitney skoraði 26 stig, tók 11 fráköst og stal 3 boltum (26 framlagsstig á heildina). Hjá Skallagrími var Carmen allt í öllu með 45 stig, 23 fráköst (þ.a. 12 sóknarfráköst), 4 stolna bolta og 2 varin skot.
Kjarninn
Haukar og Skallagrímur munu þá mætast í undanúrslitaviðureign úrvalsdeildar kvenna 2018. Haukar hafa unnið þrjár af fjórum viðureignunum milli liðanna og munu gera tilraun til að endurtaka leikinn á annan í páskum. Þær verða að takmarka sóknarfráköst og önnur tækifæri Skallagríms á meðan að Skallagrímur verður að fækka mistökum og takmarka hraðaupphlaup og auðveldar körfur Haukastelpna. Sjáumst í úrslitakeppninni!
Tölfræði leiksins
Viðtöl eftir leikinn:
"Vissum að þetta yrði erfitt og að þær myndu gefa allt í þennan leik."
"Allan leikinn vorum við að gefa þeim allt of mörg sóknarfráköst."
"Það var náttúrulega mikið undir hjá okkur."