Haukar sóttu Breiðabliksstúlkur heim í kvöld með það fyrir sjónum að hefna fyrir tapið í Smáranum seinast. Það gekk ekki eftir og Blikar unnu 70-66 eftir æsispennandi leik sem var jafn allan tímann.
Breiðablik byrjaði ekki leikinn nógu vel á meðan að Haukar settu 7 fyrstu stigin og litu í fyrstu út fyrir að ætla taka leikinn föstum tökum. Það varði ekki lengi því heimamenn fóru fljótlega í gang og voru ýmist rétt á eftir gestunum í stigum eða jöfn. Heimastúlkurnar náðu þó aldrei að komast yfir í fyrsta leikhluta og honum lauk 18-21, Haukastúlkum í vil.
Haukar byrjuðu annan leikhlutann næstum jafn vel og þann fyrsta en þær skoruðu 5 stig í röð á fyrstu mínútunni. Aftur keyrðu Blikastelpur sig í gang og náðu með harðfylgi að taka fyrstu forystuna sína í leiknum tveimur mínútum seinna með glæsilegum þristi hjá Lovísu Falsdóttur. Þær voru þó ekki hættar og á sex mínútna kafla skoruðu þær 7 stig í viðbót án þess að Haukar gætu svarað, alls 14-0 áhlaup. Þær rauðklæddu gátu þó aðeins lagað stöðuna á seinustu mínútu fyrri hálfleiks með tveim þriggja stiga skotum frá Helenu Sverrisdóttur og Þóru Kristínu Jónsdóttur. Staðan í hálfleik því 37-34, heimammönum í vil.
Næsti fjórðungur var æsispennandi en Breiðabliksstúlkur höfðu alltaf smá forystu þrátt fyrir ítrekuð áhlaup Haukanna. Staðan var því óbreytt þegar komið var að lokaleikhlutanum. Haukar tóku lítið áhlaup í byrjun og náðu forystunni aftur í örskamma stund áður en Blikar náðu tæpri forystu aftur. Þá komust gestirnir aftur fram úr í nokkrar mínútur en það var í seinasta skiptið sem þær voru yfir. Leiknum lauk með glæsilegri vörn Breiðabliks á lokamínútum til að skila liðinu 70-66 sigri.
Þáttaskil
Þegar tæpar þrjár mínútur lifðu leiks höfðu Haukar eins stiga forystu og Cherise Daniel setti stóran þrist til að koma sínu liði fjórum stigum fram úr Blikum. Hildur Sigurðardóttir tók þá leikhlé og ræddi aðeins við stelpurnar sínar. Hvað sem hún sagði hlýtur að hafa virkað því að Breiðablik skoraði næstu 8 stig leiksins án þess að Haukar næðu að svara með einu einasta stigi.
Hetjan
Ivory Crawford fær hetjustimpilinn í þessum seiglu sigri hennar liðs. Hún lauk leik með 21 stig, 11 fráköst, 4 stoðsendingar og 5 stolna bolta og skoraði 4 af seinustu 8 stigum liðsins til að klára leikinn. Sömuleiðis áttu þær Sóllilja Bjarnadóttir og Isabella Ósk Sigurðardóttir góðan leik, en Sóllilja fann alltaf samherja sína tilbúna að skora (9 stoðsendingar) og Isabella var að frákasta vel og skora fyrir sitt lið (12 stig og 10 fráköst).
Tölfræðin lýgur ekki
Breiðablik spilaði góða vörn í þessum leik, létu Hauka tapa 17 boltum og voru duglegar að refsa Haukum í hraðaupphlaupum (12 hraðaupphlaupsstig hjá Blikum á móti einungis 3 hjá Haukum). Það eru ekki mörg lið sem geta takmarkað sterkt lið Hauka, en gestirnir skoruðu tæplega 10 stigum minna en þær skora að meðaltali í úrvalsdeild kvenna hingað til (75.71 að meðaltali í leik). Þar liggur tölfræðin og stór hluti sigursins.
Kjarninn
Breiðablik eru þá komnar í 8-liða úrslit Maltbikars kvenna en það sem skiptir kannski meira máli er að þær eru með þessum leik að sýna fram á ákveðin stöðugleika með því að vinna sama liðið tvisvar. Þetta er gott veganesti fyrir þær í fríið sem þær fá meðan landslið kvenna spilar í fyrsta landsliðsglugga tímabilsins. Haukar þurfa aftur á móti að skoða sig aðeins, þær hafa verið í lægð eftir gott upphaf á tímabilinu og verða að rétta hausinn af ef þær eiga að halda sér ofarlega í efstu deild kvenna. Í bili þá eru þær dottnar út úr Maltbikar kvenna að þessu sinni.
Tölfræði leiksins
Viðtöl eftir leikinn:
Hildur Sig: Settum markmið fyrir leikinn að halda þeim undir 70 stigum
Ivory Crawford: Ætluðum að verða ákafari í vörninni
Ingvar Þór: Vorum ekki nógu fókúseraðar