spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaUmfjöllun: Haukar héldu Stólunum í 66 stigum

Umfjöllun: Haukar héldu Stólunum í 66 stigum

Haukar tóku á móti Tindastólsmönnum í 14. umferð Dominos-deildarinnar í kvöld. Spilamennska Hauka var ekki upp á marga fiska í síðustu umferð í Hertz-hellinum og nýju erlendu leikmenn þeirra voru eigi svo mjög heillandi. Stólarnir hafa ekki heldur átt góða leiki að undanförnu, þeir rétt mörðu sigur á Val á Króknum í síðasta leik og töpuðu í Þorlákshöfn þar á undan.

 

Spádómskúlan: Óvissa um þátttöku Péturs og King varpar skugga á kúluna að nokkru leyti. Þó má greina nokkuð ákveðna norðanátt í spákortunum og 70-85 sigur gestanna því niðurstaðan.

 

Byrjunarlið:

Haukar: Hilmar, Kiddi M, Hjálmar, Haukur, Russell

Stólar: Danero, Brilli, Helgi Rafn, Pétur, Dino

 

Gangur leiksins

Varnarleikurinn var í fyrirrúmi frameftir fyrsta leikhluta og var staðan 5-4 þegar hann var hálfnaður! Næstu tvær mínúturnar settu heimamenn lítið eitt fleiri stig á töfluna og voru helmingi yfir, 12-6. Þrátt fyrir það tók það Stólana skamman tíma að komast yfir en Brilli og Nesi sáu aðallega um það með hvor sínum þristinum, staðan 12-13. Að leikhlutanum loknum höfðu gestirnir nefið á undan, 15-18.

 

Stólarnir hafa e.t.v. lagt of seint af stað að norðan því þeir liðkuðust heldur í öðrum leikhluta. Útlitið var orðið svolítið dökkt fyrir Hauka þegar tæpar 5 mínútur voru til leikhlés en Viðar og Brilli voru þá búnir að skjóta Stólunum í 26-34. Ívar tók þá leikhlé og hjá honum eru þau sjaldnast eitthvað bull. Haukar náðu að svara spretti Stólanna glæsilega og Kiddi jafnaði leikinn í 36-36 með fögrum þristi. Heimamenn voru klaufar að missa gestina aftur með nefið framúr eftir körfu góða og víti frá Brilla – staðan 38-41 í pásunni.

 

Varnarleikurinn var áfram í forgrunni í þriðja leikhluta. Jafnræði var með liðunum og þau skiptust frekar á góðum varnartilþrifum en blússandi sóknaratrennum. Það voru heimamenn sem áttu betri lokamínútur og leiddu 57-52 fyrir síðasta fjórðunginn.

 

Spennan jókst í lokaleikhlutanum eins og við má búast og ekki bætti það sóknartilburði leikmanna. Nánast hefði mátt sleppa fyrri hluta leikhlutans en þá var staðan 60-56. Hjálmar setti þá þrist fyrir heimamenn og það lifnaði nokkuð yfir stúkunni. Sóknir gestanna voru í kjölfarið ekki merkilegar, hvert þriggja stiga skotið í misgóðum færum geigaði og það var greinilega farið að fara nokkuð um Stólana. Hjálmar kom sínum mönnum svo í ansi vænlega stöðu með körfu góðri og víti þegar rúmar 2 og hálf voru eftir og staðan 66-58. Allt í einu var tíminn orðinn ansi naumur fyrir norðanmenn – næst komust þeir Haukum þegar 42 sekúndur voru eftir í stöðunni 70-66 en allt kom fyrir ekki. Frábær sigur Hauka niðurstaðan, 73-66.

 

Menn leiksins

Það þarf ekki mikinn fræðing til að benda á að varnarleikur Haukaliðsins á mestan heiðurinn að þessum sigri. En það þarf líka að skora eitthvað og Hilmar Smári var duglegastur í þeirri deildinni, setti 20 stig og gaf að auki 4 stoðsendingar og tók 4 fráköst. Russell setti 19 stig og tók heil 17 fráköst. Hjálmar steig svo upp í lokin og setti afar mikilvæg stig.

 

Kjarninn

Stólarnir hljóta að hafa tekið eftir því að þeir voru hársbreidd frá því að tapa í síðustu umferð og sínum öðrum leik í röð ef svo hefði farið. En Tindastóll leit ekki út eins og lið sem ætlaði að rífa sig upp í þessum leik, það var dauft yfir mönnum og lítil stemmning. Pétur var með í kvöld en King var enn frá vegna meiðsla. Pétur vildi meina í viðtali eftir leik að svona mikið munar ekki um King en hefur þó engar áhyggjur af liðinu og framhaldinu.

 

Ori og Russell hafa ekki beint verið að heilla körfuboltaunnendur en lengi skal manninn reyna! Báðir spiluðu þeir frábærlega varnarlega sem og aðrir leikmenn liðsins og Russell frákastaði eins og berserkur. Haukar koma sífellt á óvart, ekki síst miðað við þau áföll sem liðið hefur mátt þola í vetur.

 

Tölfræði leiks

 

 

Umfjöllun, viðtöl / Kári Viðarsson

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Fréttir
- Auglýsing -