Í kvöld mættust lið Fjölnis og Hamars í fyrsta leik liðanna í úrslitaeinvígi þeirra um sæti í efstu deild á næsta tímabili. Leikið var í Dalhúsum í Grafarvogi en Fjölnir höfðu tryggt sér annað sætið í deildinni og þar með heimavallaréttinn í úrslitakeppninni.
Fjölnir mætti Vestra í fyrstu umferð úrslitakeppninnar og fóru frekar létt með þá en lauk einvígi liðanna með 3-0 sópi Grafarvogsmanna. Hamar áttu öllu erfiðari leið í þetta úrslitaeinvígi en barátta þeirra við Hött lauk með 3-2 sigri Hamars manna eftir oddaleik í Hveragerði síðastliðinn þriðjudag.
Þetta er þriðja tímabilið í röð sem Hamar kemst í úrslitaeinvígið um sæti í efstu deild en í fyrra laut liðið í lægra haldi gegn Breiðablik og árið áður gegn Val. Fjölnir lék ekki í úrslitakeppninni á síðasta tímabili þegar liðið endaði í 7. Sæti í deildinni.
Fjölnis menn mættu töluvert beittari til leiks og náðu strax forystu sem varð mest 12 stig í fyrsta leikhluta. Hamars menn náðu þó að minnka muninn niður í fimm stig og var staðan 30-25 eftir fyrsta leikhluta.
Meira jafnræði var meðal liðanna í öðrum leikhluta þar sem bæði lið spiluðu betri vörn en staðan í hálfleik var 51-47 fyrir Fjölni. Atkvæðamestur meðal Fjölnismanna í fyrri hálfleik var Marques Oliver með 20 stig en Everage Richardson leiddi stigaskorið hjá Hamars mönnum með 18 stig.
Þriðji leikhluti var Fjölnismanna frá fyrstu sekúndu. Hamarsmenn voru linir í vörninni og hugmyndasnauðir í sókninni. Marques Oliver hélt áfram að láta til sín taka auk þess sem skotnýting Fjölnismanna fyrir utan var afar góð framan af. Eftir þriðja leikhluta var staðan 82-67 Fjölnismönnum í vil og ljóst að mikið þyrfti að breytast í leik Hamars manna ef þeir ætluðu að eiga einhvern möguleika á endurkomu í þessum leik.
En Fjölnismenn voru alls ekkert á því að sleppa tökum sínum á leiknum og sigldu að lokum heim afar öruggum 26 stiga sigri, 108-82.
Hamars menn mættu afar flatir til leiks og voru eins og áður segir slakir í vörn sinni á sama tíma og þeir voru bitlausir fram á við. Á móti voru Fjölnismenn afar sprækir frá fyrstu mínútu, hreyfðu boltann vel, spiluðu þétta og góða vörn og refsuðu fjölmörgum mistökum Hamars manna án mikillar vægðar. Stemningin í liði Fjölnismanna var góð á meðan Hamars menn hengdu hausinn og var sigur Fjölnismanna í raun aldrei í hættu.
Ágætis mæting var í Dalhús og þónokkuð um stuðningsmenn Hamars sem fóru mikla fýluferð.
Stigin komu úr ýmsum áttum hjá Fjölni en atkvæðamestir voru fjórir leikmenn:
Marques Oliver var með 28 stig, 10 fráköst, 4 stoðsendingar og fjögur varin skot á aðeins 28 mínútum.
Srdan Stojanovic var með 22, stig, 4 fráköst og 2 stoðsendingar.
Róbert Sigurðsson var með 20 stig, 2 fráköst og 6 stoðsendingar.
Vilhjálmur Theodór Jónson var með 17 stig, 9 fráköst og 2 stoðsendingar.
Hjá Hamri fundu færri sinn leik en aðeins Everage Richardson var með einhverja tölfræði til að tala um:
Everage Lee Richardson var með 27 stig, 4 fráköst og 4 stoðsendingar.
Næsti leikur liðanna er næstkomandi þriðjudagskvöld klukkan 19:15 í Hveragerði.
Umfjöllun, viðtöl / Jóhannes Helgason