spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaUmfjöllun: Grindvíkingar trúa!

Umfjöllun: Grindvíkingar trúa!

Grindvíkingar jöfnuðu seríuna við Stjörnuna á ótrúlega dramatískan hátt með buzzer-körfu Ólafs Ólafssonar en stuttu áður hafði Brandon Rozzel jafnað leikinn með „and 1“-þristi!  Grindvíkingar leiddu allan leikinn og virtust vera með öruggan sigur í pokahorninu en þessi íþrótt hættir ekki að koma manni á óvart og úr varð æsispennandi lokasprettur!

Leikurinn byrjaði á furðulegan máta en mjög fljótlega fékk Jóhann Þór þjálfari Grindavíkur tæknivillu en oft á tíðum höfum við séð dómarana gefa aðvörun en Einar Skarphéðinsson hélt ekki, T á Jóa!  Stjörnumenn voru aðeins á undan upp úr startblokkunum en um miðjan 1. leikhluta nýttu heimamenn sér stuðninginn úr stúkunni og tóku völdin.  Vörnin var mjög þétt og áttu Stjörnumenn í stökustu vandræðum með að skora og hefði ekki verið fyrir þrist Ægis í lokin eftir ótímabært skot heimamanna, þá hefðu Stjörnumenn labbað með 15 stig eftir opnunina, hvenær kom það síðast fyrir?

Sama keyrsla var á heimamönnum í byrjun 2. leikhluta og var bláklæddum fyrirmunað að skora og voru með sömu 18 stigin þar til rétt rúmar 5 mínútur lifðu fyrri hálfleiks.  Á sama tíma áttu gulir greiða leið að körfunni með „vagg og veltu“ a la Stockton/Malone en Lewis Clinch og aðrir Grindvíkingar fundu Jordy Kuiper oft þannig undir körfunni og var Hollendingurinn kominn með 15 stig í hálfleik.  Munurinn fór mest yfir 20 stig en 16 stigum munaði í háflleik, 48-32.  Stjörnumenn með „heil“ 14 stig í 2. leikhluta……

Margir héldu kannski að Stjörnumenn myndu koma dýrvitlausir til leiks í seinni hálfleik en Grindvíkingar ætluðu sér greinilega að halda í horfinu hið minnsta og Sigtryggur Arnar tók við skorkeflinu og fann loksins fjölina sína.  Liðin héldust nánast hönd í hönd út 3. leikhlutann en Stjarnan vann hann 19-21 og því munaði 14 fyrir lokabardagann. 

Allir vita að 14 stig er enginn munur í körfubolta og getur verið fljótur að hverfa en það virtist ekki ætla verða raunin og þegar rúmar 2 mínútur lifðu leiks leyfði undirritaður sér að slaka aðeins á og hélt ég að þetta væri komið….  Sérstaklega þegar Arnar setti enn einn þristinn og í næstu sókn var brotið á honum í 3. stiga en hann setti bara 1/3 ofan í og kom muninum upp í 9 stig.  Áður en maður gat blikkað auga var munurinn kominn niður í 4 stig og Jóhann tók leikhlé og tæp mínúta eftir…..  Þessi íþrótt!  Gulir náðu ekki að skora og Stjarnan sótti þegar 36 sekúndur lifðu leiks.  Rozzel virtist ætla lenda í veseni og þegar 8 sekúndur lifðu skotklukkunnar var hann inni í eigin teig, óð af stað sem endaði með þristi og Sigtryggur Arnar braut á honum!  Vítið niður og jafn leikur!  Jóhann Þór tók leikhlé og teiknaði upp 2 kosti, Óli bró var annar þeirra og fékk hann boltann þegar ca 7 sekúndur lifðu, Óli tók sér tíma og tók svo skot af kantinum með Pryor í andlitinu og í þetta skiptið brostu körfuboltaguðirnir við gulum því boltann skoppaði af hringnum og svo ofan í!  1-1

Skv. tölfræðinni voru Jordy Kuiper og Sigtryggur Arnar bestir með 32 og 26 í framlag.  Jordy með 24 stig og 11 fráköst og Arnar með 26 stig.  Hetja liðsins var samt Óli með sigurkörfunni en hann skilaði sömuleiðis flottri tvennu, 14 stig og 12 fráköst.  Lewis Clinch sem hefur ekki alltaf þótt vera besti varnarmaðurinn hristi það slyðruorð af sér og hélt Rozzel vel í skefjum og setti líka mikilvægar körfur þegar á þurfti að halda.

Stjarna Hlyns Bærings skein skærast í kvöld hjá Stjörnumönnum en hann var með 29 í framlag (20 stig og 12 fráköst).  Hlynur er orðinn eitruð 3-stiga skytta og setti 3/7 í kvöld.  Anti Kanervo skilaði sömuleiðis 20 stigum og er einfaldlega frábær skytta!  Brandon hefur oft fundið sig betur en hann hitti einungis úr 4/21 skotum sínum en þó má segja honum til varnar að körfuboltaguðirnir virtust ekki vera með honum í liði því mörg skotanna fóru „í og úr“.  Svoleiðis er bara boltinn stundum.  Ægir Þór skilaði 12 stigum og 9 stoðsendingum en 3-stiga skotið sem hann virtist vera búinn að finna svo vel virðist að einhverju leyti vera búið að yfirgefa hann en nokkur skota hans voru víðsfjarri.

Staðan 1-1 eins og áður sagði og næsti leikur í Ásgarði í Garðabæ á miðvikudagskvöld.  Grindvíkingar munu þurfa mæta á þann leik m.v. upplegg Stöð 2 Sport en fyrirfram var búið að ákveða að sýna alla leikina á milli Njarðvíkur og ÍR.  Hvort sem Stöð 2 Sport breyti eða ekki þá breytir það engu, ljóst að Grindvíkingar munu mæta fylktu liði í Garðabæ á miðvikudagskvöld!

Tölfræði leiksins

Umfjöllun og viðtöl: Sigurbjörn Daði Dagbjartsson

Myndir: Eva Björk

Viðtöl eftir leik:

Fréttir
- Auglýsing -