spot_img
HomeNeðri deildir1. deild kvennaUmfjöllun: Grindavík lagði heimakonur í Hamri

Umfjöllun: Grindavík lagði heimakonur í Hamri

Hamarskonur tóku á móti Grindavík í Frystikistunni í dag. Leikurinn fór jafn af stað, liðin skiptust forystu allan fyrri hálfleikinn og var jafnt í hálfleik 27-27. Hamarskonur voru sprækar og létu ekki óvænt forföll liðskvenna á sig fá en Marín Laufey, Álfhildur og Dagrún Inga voru allar frá vegna meiðsla og veikinda. Gígja Marín fór svo útaf í þriðja leikhluta vegna ökklameiðsla.

Fljótlega í þriðja leikhluta fór Grindavík að síga fram úr, þær stálu mörgum boltum (19 samtals í leiknum) og fengu hraðaupphlaup sem smám saman jók á forskot þeirra. Í þriðja leikhluta var staðan 36-50 fyrir Grindavík og Grindavík jók svo smám saman forskotið og endaði leikurinn 53-73.

Hamarskonur börðust þó allan leikinn og áttu virkilega góðan fyrri hálfleik á móti sterku liði Grindavíkur sem situr á toppi deildarinnar ásamt Fjölni.

Í liði Hamars var Íris Ásgeirsdóttir atkvæðamest með 19 stig og 12 fráköst. Hún lenti snemma í villuvandræðum en náði að spila vel allan leikinn þrátt fyrir það. Þórdís Jóna Kristjánsdóttir átti jafnframt flottan leik, var með 11 stig, 9 fráköst og 3 stoðsendingar.

Þórdís var að spila sinn fyrsta leik með Hamri en hún spilar með Breiðablik í úrvalsdeildinni og er því á venslasamningi. Gígja Marín var með 7 stig og aðrar minna.

Í liði Grindavíkur var Hrund Skúladóttir atkvæðamest en hún var með 17 stig, 11 fráköst og 4 stolnabolta. Natalía Jenný Lucic Jónsdóttir og Ólöf Rún Óladóttir áttu báðar góðan leik með 14 stig hvor. Aðrar voru með minna en stigaskorið dreifðist nokkuð vel hjá Grindavíkurkonum.

Tölfræði leiks

 

Umfjöllun / Bjarney Sif

Fréttir
- Auglýsing -