Nýliðar Tindastóls gerðu sér lítið fyrir og skelltu Stjörnumönnum í Ásgarði í kvöld í ansi kaflaskiptum leik.
Heimamenn létu ekki staðar numið í seinni hálfleik og náðu mest 23 stiga forystu 59-36. Við það fór allt í baklás hjá Stjörnunni og gestirnir gengu á lagið, hertu tökin í vörninni og skoruðu 22 stig gegn 3 stigum Stjörnunnar.
Fjórði leikhluti var æsispennandi, Stjörnumenn leiddu lengstum en gestirnir voru aldrei langt undan. Þegar réttar 3 mínútur lifði leiks náðu gestirnir forystunni í fyrsta sinn í leiknum og sigldu æsispennandi sigri í hús, 80-85.
Gestirnir fara eflaust fegnir heim með 2 stig úr Ásgarði, enda voru þeir 23 stigum undir þegar 16 mínútur voru eftir af leiknum. Þessar 16 mínútur unnu þeir með 28 stigum, 49-21. Að sama skapi eru heimamenn væntanlega súrir að hafa hent þessum sigri frá sér, og geta einungis kennt sjálfum sér um.
Dagur Kár Jónsson leiddi heimamenn með 19 stig og 5 stoðsendingar, en Jarrid Frye 18/10/5 og Justin Shouse 18/7 komu honum næstir. Hjá gestunum var Myron Dempsey öflugur, sér í lagi í seinni hálfleik með sín 22 stig og 10 fráköst. Helgi Rafn Viggóson skoraði 18/7 og Helgi Freyr Margeirsson setti 15 stig.