spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaUmfjöllun: Garðbæingar á toppinn!

Umfjöllun: Garðbæingar á toppinn!

Stjarnan er komin á topp Domino´s-deildar karla eftir 82-76 sigur á Njarðvík í Ásgarði í kvöld. Allt ætlaði að sjóða upp úr þegar þrjú tæknivíti voru dæmd á Njarðvík með fimm mínútur til leiksloka. Garðbæingar nýttu meðbyrinn og tylltu sér á toppinn með betri innbyrðisstöðu gegn Njarðvík.

Njarðvíkingar leiddu 19-18 eftir fyrsta leikhluta. Ægir Þór Steinarsson var að hitta í liði heimamanna en í öðrum leikhluta voru gestirnir frá Njarðvík ögn beittari og leiddu 40-45 í hálfleik. Ægir Þór var með 9 stig hjá Stjörnunni í hálfleik en Elvar Már var með 11 stig í liði Njarðvíkinga. Athygli vakti að skormaskínan Brandon Rozzell var aðeins með 5 stig í hálfleik og hafði brennt af öllum fjórum teigskotum sínum.

Dómarinn Leifur Garðarsson varð frá að víkja þegar skammt lifði fyrri hálfleiks vegna meiðsla. Þeir Davíð Tómas Tómasson og Ísak Ernir Kristinsson kláruðu fyrri hálfleik tveir en í þeim síðari mætti til starfa Gunnlaugur Már Briem.

Þriðji leikhluti var í járnum eins og leikurinn til þessa. Vörn Stjörnunnar gaf ekki mörg færi á sér og heimamenn unnu leikhlutann 16-13 og staðan 56-58 fyrir Njarðvík fyrir fjórða og síðasta leikhluta.

Um miðbik fjórða leikhluta gerðist nokkuð sem hafði gríðarleg áhrif á gang leiksins þegar Mario Matasovic fékk T-villu í liði Njarðvíkinga. Hafði hann þá fengið högg úr blæddi og við þær aðstæður féllu líkast til einhver orð sem dómurum þótti ekki við hæfi. Í kjölfarið komu aðrar tvær T-villur á Njarðvíkinga og Garðbæingar fengu fimm vítaskot og Njarðvíkingar algerlega æfir enda um risavaxið inngrip að ræða í leik sem hafði verið í járnum fram að þessu.

Garðbæingar nýttu meðbyrinn sem þarna kom og lönduðu spennusigri 82-76 og þar með eru þeir komnir á topp deildarinnar og með betri innbyrðisstöðu gegn Njarðvíkingum þar sem þeir þurftu fjögurra stiga sigur eða meira í kvöld. Eins og maðurinn sagði, níu fingur á deildarmeistaratitililnn.

Tölfræði leiksins

Myndasafn

Fréttir
- Auglýsing -