spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaUmfjöllun: Frábær frammistaða Hauka í 40 mínútur

Umfjöllun: Frábær frammistaða Hauka í 40 mínútur

Keflvíkingar rúlluðu eftir Reykjanesbrautinni að Schenker-höll Hauka í kvöld í von um að finna þar 2 stig og jafna Stólana á toppi deildarinnar. Spár um hrakfarir Hauka þetta tímabilið virðast ekki ætla að rætast og ljóst að gestirnir þurfa að mæta með hausinn rétt skrúfaðan á ætli þeir sér að ná markmiðum sínum. Fyrirfram mátti því alveg búast við spennandi og skemmtilegum leik.

Spádómskúlan:  Kúlan leggur metnað í spádóminn að þessu sinni. Hún sér fyrir sér stolta en þó ekki brosandi heimamenn að leik loknum. Það hefur þá merkingu að öflugt lið Keflavíkur fer með sigur af hólmi eftir jafnan og spennandi leik. Lokatölur 89-93.

Byrjunarlið:

Haukar: Oliver, Hilmar, Haukur, Hjálmar, Arnór

KEF: Hörður, Craion, Javier, Reggie, Gunnar

Gangur leiksins

Heimamenn mættu greinilega tilbúnir til leiks og leikplanið var augljóslega að kæfa Craion undir körfunni með eins mörgum varnarmönnum og þyrfti. Heimamenn áttu fyrstu 3 stigin en Hörður og Gunnar byrjuðu að svara varnaraðferð Hauka með þristum. Um miðjan leikhlutann leiddu gestirnir 4-10 og ljóst að Haukar gætu ekki sigrað leikinn eingöngu varnarlega. Hjálmar svaraði kallinu og eftir fyrsta leikhluta höfðu heimamenn komið 15 stigum á töfluna á móti 19 stigum gestanna frá Bítlabænum.

Keflvíkingar áttu fyrstu 4 stig annars leihluta og virtist ætla að taka á stökk. Heimamenn hertu þá enn á vörninni og Daði Lár og Arnór Bjarki byrjuðu að setja stig á töfluna. Gestirnir héldu nokkurra stiga forskoti fram eftir leikhlutanum en síðustu tvær mínúturnar voru eign Hauka og það lifnaði heldur betur yfir stemmningunni þeirra megin. Heimamenn leiddu nokkuð óvænt 44-38 í hálfleik. Hjálmar var kominn með 12 stig fyrir sína menn og athygli vakti að Craion hafði aðeins sett 6 stig fyrir Keflavík.

Þriðji leikhluti var alger martröð fyrir gestina frá KEF-City. Haukar héldu algerlega dampi varnarlega og gott betur og sóknarleikur Keflavíkur var átakanlega vondur. Þegar 2:13 voru eftir af þriðja skoraði Gunnar Ólafs fyrstu stig gestanna og staðan 62-40! Daði og Arnór Bjarki spiluðu gríðarlega vel á báðum endum sem breikkaði sóknarbúr heimamanna mikið. Að leikhlutanum loknum leiddu heimamenn með 20 stigum, 64-46 og úrslitin nánast ráðin.

Ljóst var að Keflvíkingar þurftu á vægast sagt mögnuðum lokafjórðungi að halda en sú veika von hvarf strax á fyrstu mínútunum. Haukar settu fyrstu 7 stigin í leikhlutanum, staðan 71-46 og gestirnir áttu ekki annað eftir en að sækja í stolt-bankann eftir hvatningu. Það virkaði að einhverju leyti og lokatölur urðu 81-64. Algerlega frábær sigur hjá Haukum, ekki síst í ljósi þess að bæði Kristinn Marínósson og Kristján Leifur voru báðir fjarri góðu gamni og Kiddi Jónasar dró fram rykfallna skóna til að hjálpa sínum mönnum í kvöld og gerði það vel!

Menn leiksins

Það var án nokkurs vafa varnarleikurinn sem skóp þennan sigur fyrir Hauka. En það þarf líka að skora stig til að sigra leiki. Hjálmar var duglegastur í þeirri deildinni með 21 stig og tók 4 fráköst. Oliver setti 16 og tók 13 fráköst. Daði setti 15 stig og Arnór Bjarki 10 sem var afar góð viðbót við stig Hauks og fyrrnefndra kappa.

Kjarninn

Keflvíkingar hafa aðeins tapað tveimur leikjum þrátt fyrir allt á tímabilinu. Sverrir hefur þó eðlilega áhyggjur af stöðu mála eins og fram kemur í viðtali við kappann eftir leikinn. Andlegt ástand piltanna frá Sunny-Kef virðist bara ekki vera gott. Þeir líktust nokkuð KR-liðinu gegn Grindavík í gær og kannski ættu Sverri og Ingi Þór að skipuleggja hópeflisfund í landsleikjahlénu.

Haukar horfa á það sem þeir hafa en ekki það sem þeir hafa misst. Það er án nokkurs vafa afar jákvætt, jafnvel heimspekilega séð! Það verður spennandi að sjá hvernig þeim mun farnast í næstu leikjum og e.t.v. verður Kristján og Kiddi M. aftur mættir til leiks þá – nái þeir að slá Kidda J. út úr liðinu!

Tölfræði leiksins

Myndasafn (Væntanlegt)

Umfjöllun: Kári Viðarsson

Fréttir
- Auglýsing -