spot_img
HomeNeðri deildir1. deild kvennaUmfjöllun: Fjölnissigur í daufum leik

Umfjöllun: Fjölnissigur í daufum leik

Í dag mættust Fjölnir og Þór Akureyri í Dalhúsum, fyrir leikinn sátu Fjölnisstúlkur í fyrsta sæti fyrstu deildarinnar og Þór í því öðru. Búist var við hörku leik og stóðu lið leiksins við það á upphafs mínútum. En um miðjan fyrsta leikhluta tók Fjölnir öll völd og stungu af. Fjölnisstúlkur virtust ekkert ætla að gefa eftir, en Þór var heldur ekki tilbúinn að gefast upp og sýndu það með því að vinna annan og þriðja leikhluta. Í fjórða leikhluta var því miður orðið bensínlaust hjá Akureyringum, enda mætti liðið heldur þunnskipað til leiks. Fjölnir kláraði leikinn með 20 stiga sigri.

Fjölnir spilaði flottan körfubolta saman í dag, Fjölnisstúlkur voru mikið í svæðisvörn sem virkaði vel á köflum en Þórsarar voru duglegir að brjóta upp svæðisvörnina. Fjölnir var að hitta vel innan teigs og var reyndar að hitta ágætlega utan teigs líka. Stigaskorið dreifðist vel hjá báðum liðum, bæði lið með helling af stoðsendingum en Þórsarar unnu frákasta baráttuna með einu frákasti. Það sem stendur upp úr í tölfræðinni er að Þór tapar 23boltum, sem er alltof mikið. Það er því klárt mál að þetta er eitthvað sem liðið þarf að lagfæra hjá sér.

Fjölnir var afar sannfærandi í dag, þær spiluðu virkilega vel saman en hefðu mátt vera aðeins ákafari í baráttu um boltann. Hetjan þeirra í þessum leik var klárlega Brandi. Hún skilaði þeim 22 stigum ásamt því að taka 7 fráköst og senda 10 stoðsendingar. Hún gerði mikið af því að gefa frá sér í þessum leik og sendi frábærar sendingar á opna liðsfélaga. Hún var ekki mikið að halda boltanum fyrir sjálfa sig, sem sýnir helst hvernig leikmaður hún er. Brandi vill alltaf gefa frá sér og sigra með liðinu sínu. Hún á hrós skilið, það er virkilega gaman að horfa á hana spila.

Eftir tapið í kvöld datt Þór Akureyri niður um sæti eða réttara sagt þá deila þær sæti eins og er með Grindavík, sem er í þessu að spila gegn Njarðvík. Fjölnir situr sem fastast í fyrsta sæti með 22 stig, Grindavík og Þór eru því næst með 14 stig hvor en bæði lið eiga leiki til góða og verður því spennandi að sjá hvernig næstu leikir fara hjá fyrstu deildinni. Klárt mál að baráttan um úrslitakeppnina og sæti í úrvalsdeildinni verður fram á síðasta leik.

Tölfræði leiks

Myndasafn

 

Umfjöllun / Regína Ösp

Myndir Bára Dröfn

Fréttir
- Auglýsing -