Í Síkinu í kvöld mættust tvö lið án stiga þegar Tindastóll tók á móti Fjölni. Báðum spáð í neðri hluta deildarinnar og leikurinn því mikilvægur fyrir bæði lið upp á framhaldið. Byrjunarlið heimamanna skipuðu; Miller, Helgi Freyr, Svavar, Hampton og Hreinn Gunnar. Fyrir gestina byrjuðu Ægir Þór, Trausti, Árni, O´Neal og Walkup.
Bæði lið byrjuðu ágætlega sóknarlega, en varnarleikurinn var að sama skapi ekki öflugur. Staðan var jöfn fram í miðjan fyrsta leikhluta, en þá slökknaði á sóknarleikum hjá heimamönnum og Fjölnismenn skoruðu 14 stig í röð án svars. Staðan orðin 13 – 29 og útlit fyrir að enn ætlaði slakur fyrsti fjórðungur að reynast Stólunum erfiður. Þeir náðu aðeins að klóra í bakkann og að loknum fyrsta leikhluta munaði 11 stigum, 19 – 30.
Svipaður munur hélst framan af öðrum leikhluta, en í stöðunni 25 – 35 náðu Stólarnir góðum spretti, settu niður 9 stig í bunu og munurinn orðinn eitt stig. Fjölnir lét þó ekki forystuna af hendi svo auðveldlega og komu muninum aftur upp í 5 stig. Í hálfleik var staðan síðan 44 – 48. Hjá Fjölni var Nathan Walkup kominn með 16 stig, en hinu megin var Trey Hampton einnig með 16 og Svavar 11.
Eftir hlé gerðu heimamenn góðar atlögur að forystu Fjölnis, en gestirnir héngu á henni og virtist Stólum fyrirmunað að komast yfir. Þegar rúmar tvær mínútur lifðu af þriðja leikhluta náði Tindastóll loksins að brjóta múrinn þegar Helgi Freyr setti niður góðan þrist og kom stöðunni í 67 – 65. Árni Ragnarsson sem hafði heldur hitnað eftir hálfleik var ekki lengi að svara með öðrum þristi og enn leiddi Fjölnir með einu stigi þegar síðasti leikhlutinn var blásinn á, staðan 69 – 70. Tindastóll hafði breytt í svæðisvörn í seinni hálfleik sem virkaði ágætlega á köflum.
Fjórði leikhluti hófst á sömu nótum. Sama hvað Tindastóll reyndi þá svöruðu gestirnir alltaf fyrir sig í næstu sókn. Þegar leikhlutinn var rúmlega hálfnaður var staðan 76 – 79. Þá má segja að vendipunktur leiksins hafi komið. Eftir langa sókn gestanna og góðan varnarleik Tindastólsmanna reyndi Fjölnir erfitt skot sem fór ekki á körfuhringinn, Arnþór Guðmundsson náði að blaka boltanum út undir miðju þar sem Ægir Þór lét vaða erfitt þriggja stiga skot af löngu færi. Boltinn fór spjaldið ofaní um leið og skotklukkan gall og heimamenn fengu á tilfinninguna að sama hvað þeir reyndu þá væri þetta ekki að ganga upp í kvöld. Í kjölfarið sigu gestirnir framúr og þó Natahan Walkup fengi sín fimmtu villu þegar tvær og hálf mínúta var eftir þá náðu Stólarnir ekki að nýta sér það og Fjölnir landaði að lokum 8 stiga sigri, 89 – 97.
Leikurinn í kvöld var á köflum þokkalega leikinn og sérstaklega áttu gestirnir fína spretti. Heimamenn gerðu hlutina erfiða fyrir sig með slökum varnarleik á köflum og það er alltof mikið að fá á 97 stig á heimavelli. Stigahæstur Tindastóls var Trey Hampton með 28 stig, en má laga vítanýtingu sína. Næstur kom Maurice Miller með 18 stig og 14 fráköst og 10 stoðsendingar, Svavar með 13 stig og svo var Helgi Rafn með 10 fráköst. Hjá Fjölni báru tveir menn af stigaskori, Nathan Walkup með 24 stig og 11 fráköst og Árni Ragnarsson með 23 stig. Ægir Þór Steinarsson átti líka afbragðsleik með 16 stig og skoraði nokkrar mikilvægar körfur.
Leikurinn í tölum: 7-7, 13-18, 15-29, 19-30 – 25-35, 34-37, 38-45, 44–48 – 52-55, 57-59, 64-64, 69-70 – 75-77, 80-84, 85-93, 89-97.
Dómarar leiksins voru þeir Rögnvaldur Hreiðarsson og Jón Bender.
Eftir leik hafði Örvar Þór Kristjánsson þjálfari Fjölnis þetta að segja þegar hann var spurður út í leikinn:
,,Við vissum það að það yrði mikið stríð hérna, tvö lið sem ekki hafa náð fram sigri og það sýndi sig. Við byrjuðum mikið betur og það hefur verið vandamál hjá báðum þessum liðum að byrja illa og við ætluðum okkur að byrja vel. Tindastólsmenn sýndu síðan alveg gríðarlegan karakter og komust aftur inn í leikinn og svo var þetta bara hálfgert stríð síðustu þrjá fjórðungana, en við sigum framúr i restina og mér fannst við vinna verðskuldað.”
Texti: JS.
Myndir: Hjalti Árnason.