spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaUmfjöllun: Dýrari gerðin í El Clasico

Umfjöllun: Dýrari gerðin í El Clasico

Tímabilið er hafið og fyrsta umferðin er sannkallað sælgæti. Að öðrum leikjum ólöstuðum er leikur Njarðvík og Keflavík súkkulaðið með gómsætri fyllingu. Það eru allir heilir í báðum liðum og Ljónagryfjan er full. Njarðvíkingar áttu fyrstu stiginn í leiknum en það voru Keflvíkingar sem leiddu leikinn að mestu fram að 4. leikhluta. Það var hnífjafnt milli liðanna í byrjun 4. leikhluta og ljóst að síðustu 10 mínúturnar myndu ráða úrslitum í spennandi körfuboltaleik. 4. leikhluti olli engum vonbrigðum nema kannski Keflvíkingum. Sætur sigur heimamanna  97 – 90 eftir að hafa tapað öllum deildarleikjum á móti Keflavík í Ljónagryfjunni síðan 2012.

Byrjunarlið:

Njarðvík: Jeb Ivey, Kristinn Pálsson, Mario Matasovic, Maciek Baginski og Ólafur Helgi Jónsson

Keflavík: Hörður Axel Vilhjámsson, Magnús Traustason, Reggie Dupree, Gunnar Ólafsson og Michael Craion

Þáttaskil:

Tveir ískaldir þristar Loga Gunnarssonar á lokamínútunum ásamt frábæri vörn heimamanna á lokamínútunum gerði út um þennan æsispennandi leik.

Tölfræðin lýgur ekki:

Keflvíkingar hittu mun betur framan af leik en um leið og skotin fóru að klikka hjá þeim, þá komust Njarðvíkingar fljótt á bragðið.

Hetjan:

Jeb Ivey sem átti stórkostlegan endasprett og Julian Rajic sem kom sterkur af bekknum áttu flottan leik. En  Maciek Baginski sem spilaði flottan varnaleik að venju raðaði niður 5 þristum og skilaði 23 stigum og 8 fráköstum var ferskastur Njarðvíkinga á vellinum. Logi Gunnarsson skellti niður tveim þristum í lokinn, það ásamt frábæri vörn heimamanna kláraði leikinn.

Kjarninn:

Lína dómarana var nokkuð óskýr í leiknum. Þeir leyfðu ákveðinn barning en dæmdu svo á smáatriði. Hörku leikur milli tveggja góðra körfuboltaliða. Fyrsti heimasigur Njarðvíkinga í deildinni á móti Keflavík í 6 ár í höfn.

Tölfræði leiksins

Myndasafn (Skúli B. Sigurðsson)

Umfjöllun: Þormóður Logi Björnsson

Fréttir
- Auglýsing -