Grindvíkingar mættu í Schenkerhöll Hauka í kvöld í þriðja síðasta leiknum fyrir úrslitakeppni.
Leikurinn snerist einmitt um það að komast í úrslitakeppnina en bæði lið hljóta að líta á
þennan leik sem úrslitaleik um sæti í henni. Fyrir utan þennan leik eiga Grindvíkingar
Stjörnuna eftir á útivelli og ÍR á heimavelli en heimamenn Stjörnuna heima og Þór úti. En
hvað sem því líður og lýkur er Haukar-Grindavík fyrst og spennandi að sjá hvað kúlan sér í
spilunum.
Spádómskúlan: Kúlan vill meina að andlegt ástand Grindjána sé ekki upp á marga fiska og
flestir í Grindavík bara byrjaðir að bíða eftir næsta tímabili. Haukar hafa hins vegar allt aðra
sýn á lífið og vilja halda áfram að koma á óvart. Þess vegna sigra heimamenn leikinn 83-76.
Byrjunarlið:
Haukar: Woods, Hjálmar, Hilmar, Arnór, Haukur
Grindavík: Óli, Kuiper, Arnar, Ingvi, Clinch
Gangur leiksins
Woods var illviðráðanlegur undir körfunni í byrjun og heimamenn komust í 6-2.
Grindvíkingar hafa ekki verið feimnir við þriggja stiga skotin í vetur (eða nokkurn tímann) og þau vildu ekki niður í upphafi leiks. Um leið og þeir sýndu lítið eitt fjölbreyttari sóknarleik fóru hlutirnir að ganga betur og ekki var varnarleikur Hauka ýkja merkilegur. Gestirnir tóku frumkvæðið í leiknum og leiddu 22-27 eftir fyrsta fjórðung. Benda má á að Grindvíkingar voru 5/11 í þristum og ekki víst að slík nýting héldi áfram, ekkert frekar en í síðasta leik til dæmis.
Vörn Hauka var eins og áður sagði afspyrnu lin og ekkert í líkingu við þann varnarleik sem
færði þeim frábæra sigra gegn liðum á borð við Tindastól og Keflavík fyrr í vetur. Það
lagaðist ekki neitt í byrjun annars leikhluta og Grindvíkingar fengu opna þrista sem öll lið
eiga að taka allan daginn. Sóknarlega voru heimamenn einsleitir og Woods og Hjálmar þeir
einu með lífsmarki. Um miðjan leikhlutann voru gestirnir með frábæra stöðu, leiddu 24-41 og Jóhann Árni farinn að setja þrista! Ívar tók leikhlé og það hefur jafnan góð áhrif á Haukana. Allt annað lið mætti inn á völlinn, vörnin fór að líkjast vörn og Daði Lár átti flotta innkomu sóknarlega. Haukar minnkuðu muninn í 36-42 en þá var eins og gestirnir áttuðu sig á því að enn var bara fyrri hálfleikur og staðan í hálfleik var 38-48.
Lítið var skorað í þriðja leikhluta og liðin skiptust á örfáum körfum. Gestirnir héldu um 10
stiga forskoti sínu fram eftir leikhlutanum þrátt fyrir að Clinch og Kuiper höfðu ansi hægt um sig sóknarlega. Haukar misstu Hjálmar útaf með 4 villur um miðjan leikhlutann en þrátt fyrir það áttu þeir mun betri lokamínútur, einkum vegna þess að Daði Lár setti mikilvæg stig á töfluna og það var einmitt það sem vantaði upp á hjá Haukum. Forskot Grindvíkinga var mest 17 stig en þurfu að sætta sig við 56-59 stöðu fyrir lokafjórðunginn.
Heimamönnum gekk afleitlega að skora framan af fjórða leikhluta. Á sama tíma vaknaði
Clinch aftur til lífsins, setti djúpan tvist og svo víti og körfu góða í kjölfarið. Kuiper fékk svo
auðvelda troðslu eftir að vörn Hauka sofnaði á verðinum og í framhaldi af því setti Kristófer
Breki ansi þungan þrist. Þá var um 5 mínútur eftir og staðan 60-73. Þrátt fyrir leikhlé Ívars og fullan vilja Hauka varð leikurinn því miður aldrei spennandi. Eftir óþarflega langar
lokamínútur lauk leik með nokkuð öruggum sigri gestanna, 73-83.
Maður leiksins
Lewis Clinch fær vafalaust nafnbótina maður leiksins. Hann var á deginum sínum, setti 27
stig og tók 7 fráköst. Aðrir byrjunarliðsmenn Grindvíkinga áttu einnig ágætan dag fyrir utan
Arnar sem fann alls ekki fjölina sína.
Kjarninn
Haukar spiluðu alls ekki nægilega góða vörn of stóran hluta leiksins. Þeir lentu 17 stigum
undir sem er óþægilega djúp hola þó það hafi verið í fyrri hálfleik. Ívar vildi nú ekki kenna
vörninni mikið um í viðtali eftir leik og benti frekar á ansi slaka hittni sinna manna. Það er
vissulega góður punktur. Einnig verður að benda á að Kiddi M var ekki með, Haukur var
aðeins hálfur maður og Kristján Leifur rétt að byrja að sprikla aftur. Óheppni Hauka hefur
verið mikil í vetur og þeirra bíður erfitt verkefni í næstu tveimur leikjum.
Grindvíkingar eru nú líklegir til að ná sæti í úrslitakeppninni. Leikur þeirra í kvöld var
kannski ekkert stórkostlegur þrátt fyrir sigur og Jóhann Þór sagði í viðtali eftir leik skilja vel
að fáir hafa trú á afrekum þeirra gegn Njarðvík eða Stjörnunni í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. En miði er möguleiki og Jóhann sagðist ekki hugsa hlutina of langt fram í
tímann, næsti leikur er næsta verkefni og svo er spennandi að sjá hvað gerist í framhaldinu.
Umfjöllun / Kári Viðarsson
Viðtöl / Sigurbjörn Daði