Íslands- og bikarmeistarar KR mega prísa sig sæla með tvö stig eftir rimmuna gegn nýliðum Þórs úr Þorlákshöfn í fyrstu umferð Iceland Express deildar karla. Lokatölur í DHL-Höllinni í kvöld voru 90-84 KR í vil eftir hraðan og fjörugan leik þar sem hart var barist. Mike Ringgold og Darrin Govens gerðu 50 af 84 stigum Þórs í kvöld á meðan KR-ingar höfðu breiðari hóp til að spila úr sem hafði allt að segja í jafn hátt stilltum leik og boðið var upp á. Edwart Lee Horton fór fremstur í flokki hjá KR með 24 stig og David Tariu bætti við 17.
Það var ekkert kúplað heldur kýlt beint í fimmta gír og allt í botn í DHL-Höllinni í kvöld. Græni drekinn úr Þorlákshöfn fór á kostum í stúkunni með baneitraðar kyndingar og inni á parketinu gerðust hlutirnir hratt. Hreggviður Magnússon mætti galvaskur með tvo þrista og stóðu leikar 10-10 á fyrstu augnablikum leiksins.
KR virtist ætla að leiða þægilega eftir fyrsta leikhluta þegar Þórsarar tóku á rás í stöðunni 20-12. Darrin Govens var þá allt í öllu og fann Guðmund Jónsson fyrir utan sem smellti niður drjúgum þrist og kom Þór í 24-25. Grænir og hvítir tóku því 4-13 áhlaup undir lok fyrsta leikhluta sem var hraður og skemmtilegur.
Hreggviður Magnússon var að finna sig fyrir utan og setti niður tvo þrista og kom KR í 34-32. KR hafði frumkvæðið í öðrum leikhluta sem var spilaður á ekki síðri hraða en sá fyrsti. Guðmundur Jónsson beitti svo kænskubragði þegar hálfleiksflautan var við það að hefja upp raust sína, þá plataði hann KR-inginn Emil Þór Jóhannsson upp í loftið og fiskaði villu, fékk þrjú víti, setti tvö niður og náði því að minnka muninn í 48-42 og þannig stóðu leikar í hálfleik.
Darrin Govens var með 17 stig í hálfleik hjá Þór og Darri Hilmarsson með 7 stig og 4 fráköst. Hreggviður Magnússon var með 15 stig hjá KR en kappinn nelgdi niður 5 af 6 þristum sínum í fyrri hálfleik. Næstur honum var Edward Lee Horton með 13 stig hjá röndóttum.
Aðeins hafði hægt á liðinum í upphafi síðari hálfleiks eftir mikla og langa spretti í þeim fyrri. Meistarar KR höfðu undirtökin í leikhlutanum og Darri Hilmarsson hvarf fljótt á tréverkið hjá Þór með fjórar villur.
Guðmundur Jónsson minnkaði muninn í 61-57 með þriggja stiga körfu en Edward Lee Horton hélt KR við efnið og var beittur í þriðja leikhluta. Bakverðir KR skiptu varnarhlutverkinu gegn Darrin Govens á milli sín og virkaði það ágætlega og eftir 30 mínútna leik var nokkuð dregið af Govens. KR leiddi 68-60 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
Erlendu leikmenn Þórs voru á löngum köflum að reyna of mikið sjálfir og núllstilltu oft aðra leikmenn Þórs á meðan KR gekk betur að halda fleiri leikmönnum inni í leiknum. Í stöðunni 77-75 var verulega farið að hitna í kofanum og bæði lið hárreittu sig yfir nokkrum dómum sem féllu þeim ekki í vil.
Þegar 1.15mín. voru til leiksloka átti KR innkast og staðan 83-78 KR í vil. Guðmundur Jónsson er þá með gætur á Edward Horton sem fær boltann í innkastinu og gerist augljóslega brotlegur við leikreglurnar þegar hann sveiflar öðrum olnboganum í átt að Guðmundi sem fellur og flækist í Horton fyrir vikið og fær dæmda á sig óíþróttamannslega villu sem Þórsarar mótmæltu hástöfum.
KR setti niður annað vítið sem Horton fékk og náðu að halda baráttuglöðum nýliðunum frá sér og kláruðu leikinn 90-84. Leikurinn var hin besta skemmtun, Þór vann baráttuna í stúkunni með miklum yfirburðum en meistarar KR tóku það sem skiptir mestu máli, stigin tvö.
Edward Horton gerði 24 stig í liði KR og David Tariu 17. Þeir Hreggviður og Finnur Magnússynir voru báðir með 15 stig og Emil Þór Jóhannsson bætti við 9. Hjá Þór var Darren Govens með 30 stig og 10 fráköst og Mike Ringgold gerði 20 stig og tók 15 fráköst. Guðmundur Jónsson var með 13 stig og Darri Hilmarsson 12 en aðrir leikmenn Þórs hefðu þurft að stíga betur upp gegn breiðum hóp KR.
Dómarar leiksins: Björgvin Rúnarsson og Ágúst Jensson… fengu krefjandi leik í fyrstu umferð.
Stiklur
-Græni drekinn var með læti frá fyrstu mínútu, vafalítið bestu stuðningsmenn deildarinnar!
-Mike Ringgold fór beint úr Hafnarfirði í Þorlákshöfn og kláraði leikinn með 22 stig og 15 fráköst.
-Ágúst Angantýsson var ekki í KR hópnum í kvöld en hann meiddist gegn Grindavík í meistara meistaranna um síðustu helgi.
Myndir og umfjöllun – Jón Björn Ólafsson, [email protected]