spot_img
HomeFréttirUmfjöllun: Breiðablik komnir áfram í úrslitarimmuna, Vestri í sumarfrí

Umfjöllun: Breiðablik komnir áfram í úrslitarimmuna, Vestri í sumarfrí

Þriðji leikurinn í annarri undanúrslitarimmu 1. deildar karla fór fram í kvöld á milli Breiðabliks (3. sætisins) og Vestra (4. sætisins) í Smáranum. Ljóst var að Vestri yrði að vinna til að sleppa við að fara í sumarfrí og að Blikarnir gætu sópað Ísfirðingum út úr undanúrslitunum með þriðja sigrinum sínum í röð. Eftir góða byrjun hjá Vestra, sem hafði forystu mest allan leikinn, sigu Blikarnir fram úr í lokafjórðungnum og sendu gestina í sumarfrí.
 

Gangur leiksins

Breiðablik hófu leikinn dálítið flatir og áttu í basli með að klára opnu færin sín, sem sást í að Sveinbjörn Jóhannesson og Snorri Vignisson klikkuðu á galopnum sniðskotum. Ágúst Angantýsson var aftur á móti nokkuð öruggur framan af og spilaði mjög vel á báðum endum vallarins. Hann skoraði 9 stig í fyrsta leikhluta og gerði framherjum Breiðabliks erfitt fyrir. Vestri leiddi eftir fyrstu 10 mínúturnar, 17-25.

Það lifnaði aðeins yfir heimamönnum í byrjun annars leikhluta og Snorri, sem hafði verið ískaldur fram að þessu, skoraði m.a. 6 stig í röð. Vestri voru hins vegar ekki hættir og skoruðu 13 stig gegn næstu 2 stigum Blika til að breikka bilið aftur. Þó nokkrir leikmenn Vestra hittu úr þristum í fyrri hálfleiknum sem skilaði sér í því að þeir leiddu með 10 stigum þegar flautað var til hálfleiks; 36-46.

Breiðablik sýndi dýptina í seinni hálfleik með því að rúlla vel á mannskapnum gegn Vestra sem virtust þreyttari og þreyttari eftir því sem að leið á leikinn. Blikar fóru að spila þéttari vörn í þriðja leikhluta og uppskáru eftir því, en gestirnir gátu aðeins skorað 9 stig í leikhlutanum gegn 18 stigum heimamanna. Aðeins Nebojsa Knezevic og Ágúst gátu skorað hjá Vestra á þessum 10 mínútum leiksins. Það munaði því aðeins einu stigi á milli liðanna þegar einn fjórðungur var eftir af leiknum; 54-55.

Kópavogsbúarnir héldu áfram að spila vörn og skora auðveldar körfur í fjórða leikhluta. Á sama tíma gat Vestri ekki skorað fyrstu fimm mínútur lokafjórðungsins, staðan orðin 65-57 þegar hálfur fjórði leikhlutinn var liðinn og Blikarnir voru í bílstjórasætinu. Á lokamínútunum gátu Vestramenn ekki minnkað muninn og Breiðablik hafði svar við öllum körfum gestanna. Leiknum lauk eins og áður sagði 83-74, Blikum í vil.
 

Þáttaskil

Þáttaskilin urðu í upphafi fjórða leikhluta þegar Vestri gat skyndilega ekki skorað í tæpar fimm mínútur. Á meðan að fjölmargir Vestramenn skoruðu í fyrri hálfleik skoruðu aðeins Nebojsa, Ágúst og Ingimar Aron Baludursson fyrir Vestra í seinni hálfleiknum. Blikar voru aftur á móti að skora úr hraðaupphlaupum og fjölmargir lögðu í púkkið fyrir heimamenn í seinni hálfleik.
 

Tölfræðin lýgur ekki

Eins og kom fram í þáttaskilunum skoruðu aðeins þrír leikmenn Vestra í seinni hálfleik á meðan að 7 leikmenn þeirra skoruðu í þeim fyrri. Nebojsa og Ágúst báru byrðina í seinni hálfleik, en þeir skoruðu 25 af 28 stigum Vestra seinustu 20 mínúturnar. Ingimar Aron, sem hafði seinast verið stigahæstur sinna manna skoraði aðeins einn þrist í leiknum í lokaleikhlutanum og ljóst að þörf hefði verið á fleirum stigum frá fleiri leikmönnum Vestra í leiknum. 
 

Hetjan

Hetjurnar í kvöld voru Jeremy Smith og Snorri Vignisson, en þeir voru báðir með tvöfalda tvennu í leiknum og voru illvígir í sóknarfráköstum. Jeremy skoraði 24 stig, tók 11 fráköst og gaf 6 stoðsendingar á meðan að Snorri skoraði 18 stig, tók 12 fráköst (þ.a. 7 sóknarfráköst), gaf 3 stoðsendingar og varði 3 skot. Hjá Vestra voru Nebojsa og Ágúst atkvæðamestir og voru allt í öllu fyrir liðið sitt. Nebojsa skoraði 30 stig, tók 6 fráköst og gaf 6 stoðsendingar á meðan að Ágúst skoraði 21 stig, tók 13 fráköst og gaf 4 stoðsendingar.
 

Kjarninn

Þá eru Blikarnir komnir áfram í úrslitarimmuna gegn hvoru liðinu sem stendur upp úr sem sigurvegari í viðureign Hamars og Snæfells. Vestri er aftur á móti komið í sumarfrí og getur liðið byrjað að búa sig undir fyrir næsta tímabil. Óskum Blikum til hamingju með sigurinn í undanúrslitunum og sjáumst í úrslitarimmunni!
 

Tölfræði leiksins

Myndasafn: Bjarni Antonsson
 

Viðtöl eftir leikinn:

"Ég sá bara hvað vantaði og reyndi að fylla upp í það skarð."

"Okkur vantaði kannski aðeins meiri reynslu. Þetta var svolítið 'stöngin út' hjá okkur."

Umfjöllun og viðtöl / Helgi Hrafn Ólafsson
Myndir / Bjarni Antonsson
Fréttir
- Auglýsing -