Breiðablik tók á móti ÍR í 3. leik 8-liða úrslita Geysisbikarsins í dag. Þó að sumir hefðu sagt að niðurstaðan lægi fyrir áður en leikurinn hófst áttu Breiðhyltingar ágætan leik gegn Blikum og börðust allt til enda. Það dugði hins vegar ekki til og Blikastelpur unnu leikinn örugglega, 80-44.
Gangur leiksins
Ljóst var frá upphafi að 1. deildarlið ÍR-inga ætlaði ekki að leggjast niður fyrir úrvalsdeildarliði Blika og voru Breiðholtstúlkur létu finna fyrir sér inn á vellinum. Illa gekk hins vegar að skora gegn heimaliðinu og staðan í hálfleik var því 35-17, Breiðablik í vil.
Í þriðja leikhluta komu ÍR-ingar einbeittar og náðu að standa duglega í Kópavogsliðinu en áttu ekki svör gegn vörn Blikastúlkna. Of margar vannýttar sóknir hjá gestunum skilaði sér í helling af hraðaupphlaupum og Breiðablik gat í lokaleikhlutanum breikkað bilið meira og unnið leikinn örugglega 80-44.
Framlag frá öllum
Allt Blikaliðið skilaði jákvæðu framlagi í leiknum og allir leikmenn komust á blað með minnst tvö stig. Ivory Crawford var fremst meðal jafningja með 24 stig, 9 fráköst og þrjár stoðsendingar, þrjá stolna bolta og þrjú varin skot (31 í framlag). Hjá ÍR var svipað upp á teningnum, en allar í liðinu fengu mínútur í leiknum þó að þær hafi ekki allar náð að skora körfu eða vera með jákvætt framlag. Framlagshæst í liðinu var Sigurbjörg Rós Sigurðardóttir (14 framlagspunktar), fyrirliði ÍR, og stigahæst í liðinu var Birna Eiríksdóttir (12 stig).
Samantektin
Þá eru Blikastelpur komnar áfram í Höllina í undanúrslit Geysisbikarsins og eru þar með annað botnliðið á tveimur árum til að komast í undanúrslit bikarkeppninnar. Seinast þegar lið sem var neðar en 7. sæti deildarinnar fór í undanúrslitin var það Hamar, sem var þá toppliðið í 1. deild kvenna, árið 2013.